Tekjuskattur og eignarskattur
Mánudaginn 11. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Frv. sem hér liggur fyrir um skatta á næsta ári, tekjuskatta og eignarskatta, kemur ekki á óvart. Sú ríkisstjórn sem nú situr við völd hefur hækkað skattana gífurlega og nú boðar hún enn frekari hækkanir. Það er því ekki vanþörf á spurningu sjálfs fjmrn. en í fréttatilkynningu sem við fengum í hólfin okkar í dag segir eins og hefur komið fram áður: Eru skattaútreikningar fjmrn. villandi? Það er auðvitað ekki von á öðru en því að hæstv. fjmrh. spyrji að þessu því að útreikningar fjmrn. á sköttum eru villandi. Þeir gefa ranga hugmynd um hvað er að gerast og með hvaða hætti.
    Ég vil ekki segja að hæstv. fjmrh. fari alveg rangt með í útreikningum sínum, en hann setur þá fram með þeim hætti að það er villandi. Og þegar við komum að útreikningum á eignarsköttum sem hæstv. fjmrh. segir að lækki, hverjar eru þá niðurstöðurnar? Niðurstöðurnar eru þær að eignarskattar hækka á milli ára miðað við þær forsendur sem hæstv. fjmrh. gefur sér. Og hver skyldi ástæðan vera fyrir því, hæstv. fjmrh.? Hæstv. fjmrh. er nefnilega að leika sér með tölur. Hann fer ekki rétt með þær og það er raunhækkun á eignarsköttum. Og hver skyldi aðalástæðan vera fyrir því? Hæstv. fjmrh. heldur því fram að eignarskattar lækki og hann kemur hér fram með dæmi um lækkun eignarskatta. En hvað gerir hæstv. fjmrh.? Og nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Hver er skattaprósentan á eignarsköttum? Í útreikningum hæstv. fjmrh. hefur hann gleymt og ekki reiknað út sérstakan eignarskatt upp á 0,25% sem breytir allri myndinni. Hann hefur heldur ekki hækkað persónufrádrátt á eignarsköttum miðað við hækkun á fasteignaverði, þannig að heildarútkoman er sú að miðað við þau þrep sem eru gefin í eignarsköttunum þá er raunhækkun. Ef við miðum við þrepið upp í 4 millj. 250 þús. kr. þar sem byrjað er að leggja á sérstaka eignarskattinn er raunhækkun á milli ára upp á 10%. Ef við miðum við þrepið þar sem eru 8 millj. 50 þús. er raunhækkun upp á 5,3% og ef við miðum við 14 millj. er raunhækkun
upp á 3,2%. Og hæstv. fjmrh., sem nú er hlaupinn úr salnum því að hann hefur ekki áhuga á að heyra það að hann sé að reyna að leika sér að tölum ( Fjmrh.: Jú, jú, jú, jú. Ég hef virkilegan áhuga á því.), hefur gleymt og hefur ekki hækkað verðbótaþáttinn í frádráttarliðum til eignarskatts og útkoman er sú að það er raunhækkun á eignarsköttum. Þrátt fyrir lækkun á hæsta skattþrepi upp á 0,75 er raunhækkun. Og aðeins með því að persónufrádrátturinn hækki til samræmis við hækkun á eignum er um lækkun að ræða.
    En hvað skyldu nú þessir með tekjutenginguna segja? Hverjar eru nú líkurnar til þess að hún komi einhverjum að notum? Miðað við þær forsendur sem hér liggja fyrir má reikna með því að lækkun á einhleypingum verði sáralítil í hæsta þrepi. En það er svo að mestur fjöldi þeirra er undir því þrepi og það má efast um að tekjutengdir eignarskattar séu vel

framkvæmanlegir og kosti ekki meiri vinnu en þeir gefa. Hæstv. fjmrh. hefur þar með sett upp voðalega falleg dæmi þar sem hann sýnir fram á lækkun sem er í rauninni hækkun, og heildarskattbyrðin á þorra fólks af eignarsköttum hækkar miðað við persónufrádrátt sem er núna ætlaður í lögunum og miðað við það að sérstaka eignarskattsstigið er látið vera óbreytt á milli ára. Það var 4 millj. 250 þús., hefði þurft að hækka upp í 5,1 millj. Sama má segja um persónufrádrátt upp á 2,5 millj. sem hækkar upp í 2 millj. 875 þús., hefði þurft að hækka upp í 3 millj. Sama gildir um háskattþrepið sem er hér ætlað að verði 8 millj. 50 þús. en hefði þurft að hækka upp í 8,4 millj. til þess að halda í við verðhækkanir sem hafa orðið milli ára. Þess vegna er hér um hækkun á eignarsköttum að ræða. Það er niðurstaðan og allt annað er blekking. Þegar hins vegar kemur að einhverjum eignum sem fara upp í 33 millj. eða yfir 28 millj., sem eru nú sárafáir sem eiga, þá fer að koma fram lækkun. En það sem venjulegt fólk á, þar er um hækkun að ræða þannig að þetta er náttúrlega blekking og er verið að plata fólkið í landinu.
    Ég fagna því hins vegar að það skuli þó vera viðleitni til þess að slæva þessa ljótu samvisku sem ríkisstjórnin virðist haldin út af þessu. Þeir skuli reyna að láta líta svo út að það eigi að lækka þó að raunin sé ekki sú. Hins vegar er vafalaust svo og það getur vel verið að það séu einstaklingar sem eigi eign í hæsta þrepi og séu undir 70 þús. í launum. Þá er það að sjálfsögðu af hinu góða að þeir þurfi ekki að greiða skattinn. En með alla skatta er svo að miklu betra er að það sé almenn regla sem tekur til allra en ekki sé verið að mismuna fólki.
    Þegar kemur að samanburði á milli landa liggur það einnig ljóst fyrir að með núverandi kerfi eru hér enn þá hæstu eignarskattar í heimi. En ég sé þó að hæstv. fjmrh. hefur löngun til þess að taka upp sama fyrirkomulag og í Danmörku, þ.e. 2,2% eignarskatt umfram 11 millj. Ég ætla að vona að hann hjálpi okkur til þess því að það væri út af fyrir sig allt í lagi. En mjög er mikilvægt að íbúðareignir séu undanþegnar eignarsköttum því að hér á Íslandi er meiri þörf fyrir stærri íbúðir og stærra húsnæði en í nokkru öðru landi. Ég verð að segja að það sem ég heyrði hjá hv. 1. þm. Norðurl. e. þótti mér ekki af hinu góða. Hv. þm. fannst lítið til um ef einhver hefði nú haft hug á því
að spara aðeins meira, borga af sínum eignum og eiga þær skuldlausar. Hann vildi heldur stuðla að því að menn færu út í svartamarkaðsbrask og ýmsar tilfæringar sem er hægur vandi að gera þannig að það verði enginn eignarskattur.
    Hæstv. fjmrh. birti í blöðunum í dag auglýsingar um hvað ríkisskuldabréfin séu nú góð fjárfesting því að þau bæru enga eignarskatta. Og það er alveg rétt. Það að fjárfesta í tapi ríkissjóðs er greinilega það sem hæstv. fjmrh. vill. Hann telur að það sé af hinu góða að fjárfesta í tapinu, í óráðsíunni. Þessi stefna er boðuð af ríkisstjórninni.
    Um tekjutenginguna vil ég segja að ég hef miklar

efasemdir um hana. Hún er enn ein mismunun fyrir fólk í landinu. Hún verður til þess að svartamarkaðsvinna mun fara vaxandi hér því allir sjá það í hendi sér að það er náttúrlega alveg tilgangslaust að vera að vinna fyrir tekjum upp að ákveðnu marki þegar þær hafa áhrif bæði á eignarskatta og tekjuskatta. Það er þá miklu betra að vinna svart og það verður aukin svört starfsemi hér í landinu. Það er það eina sem gerist.
    Hvað varðar tekjuskattana þá er ljóst að þeir munu hækka eins og hér hefur komið fram mjög skýrt. Það er áhyggjuefni og fólkið í landinu er örvæntingarfullt því að jafnframt því sem skattarnir eru hækkaðir með þessum hætti hafa lífskjörin versnað og fólk verður að borga bæði vexti og af lánunum, t.d. í húsbyggingum. Og þá komum við að þessu ágæta vaxtabótakerfi sem var samþykkt á síðasta þingi og miðar að því að auka enn óréttlætið í þjóðfélaginu með þeim hætti að allir menn sem standa sig eru órétti beittir. Þetta er ósköp einfalt reikningsdæmi. Miðað við þær tillögur sem hér liggja fyrir er verið að auka á þetta misrétti. Þeir sem fóru út í byggingar og gerðu ráð fyrir því að þeir nytu þess kerfis, sem hv. 1. þm. Vesturl. kom á, standa núna uppi þannig að þeir fá ekki úr húsnæðiskerfinu það sem þeir áttu von á. Húsnæðisbæturnar, sem voru hér áður en vaxtabæturnar komu, voru miklu víðtækari og hjálpuðu fólki fyrstu árin eftir að það fór út í húsnæðiskaup eða húsbyggingar. Ég hefði heldur viljað sjá það frv. endurbætt en þetta vaxtabótakerfi sem er miklu verra og nær ekki til þess fólks sem það hefði átt að ná til. Ég sé fyrir mér í framtíðinni að þessi lög öllsömul bjóða upp á að fólk fer að leika á kerfið. Það borgar sig ekki að vera tekjuhár. Það borgar sig ekki að eiga neitt. Það borgar sig ekki að skara fram úr. Þessi lög miða að því að sekta, hegna þeim sem vilja standa sig betur.
    Ég tel því að þessi skattafrumvörp séu af hinu vonda. Það er kominn tími til að dæminu verði snúið við, skattar lækkaðir og útgjöld ríkisins lækkuð. Það er ljóst að taka verður á því dæmi. Það verður að fara gaumgæfilega gegnum alla þætti ríkisútgjalda með það í huga að lækka þá því að sú fjármálastjórn sem núna er og hefur verið með þeim hætti að ríkisstjórnin, fjmrh. segir: Okkur vantar tekjur upp á þetta marga milljarða. Við hækkum bara skattana. Það skiptir engu máli hvers vegna útgjöld hafa orðið til eða hvort þau eru nauðsynleg. Hæstv. ríkisstjórn stendur ábyrgðarlaus, eykur skattana og eykur lántöku erlendis og býður svo fólki að fjárfesta í tapi ríkissjóðs með skattfrjálsum skuldabréfum. Ef þetta er ekki leiðin til að koma íslenska ríkinu á hausinn, þá veit ég ekki hvort nokkur leið er til þess. Það er svo mikil heimska sem ríkið sér í þessari fjármálastjórn og þessu skattafargi að það er með ólíkindum. Við erum að sigla inn í svartnætti.
    Síðast þegar ég kom hér í ræðustólinn voru 1,4% atvinnulausir hér á landi. Nú, nokkrum dögum síðar, eru komnar nýjar tölur. Þær eru orðnar 1,9% eða 2500--2600 menn. Og ríkisstjórnin áttar sig ekki enn

þá á því að ein aðalorsökin er röng fjármálastjórn ríkisins, of mikil skattheimta sem þýðir að fleiri og fleiri fyrirtæki fara á hausinn og fleiri og fleiri menn verða atvinnulausir. Þetta eru staðreyndir sem ekki verður gengið fram hjá og sá blekkingarleikur sem hér hefur verið framkvæmdur af hæstv. fjmrh. sem nær náttúrlega hápunkti núna með þessari fréttatilkynningu: ,,Eru skattaútreikningar fjármálaráðuneytis villandi?`` Það er von að hæstv. fjmrh. spyrji vegna þess að þeir eru villandi og eru ekki réttir. Ég vona að þegar hv. nefnd fær þetta frv. til meðhöndlunar muni hún fara gaumgæfilega í gegnum þessa þætti og reikna út nákvæmlega hvað eignarskattarnir og breytingarnar á þeim þýði og breyta þeim til þess sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að segja fólkinu núna, en vera ekki að villa um fyrir því með þeim hætti sem hér er gert. Það er ekki rétt ef eignarskattur er 1,45% að segja að hann sé 1,2%. Og það er ekki heldur rétt ef eignarskatturinn er 2,2% eins og í hæsta þrepinu að segja að hann sé 1,95%. Þetta er rangt farið með tölur og ég ætla að vona að hæstv. fjmrh. sjái að sér og láti samþykkja lækkun á þessum sköttum eins og hann er búinn að boða.
    Ég ætla ekki á þessu stigi að hafa öllu lengra mál um þetta en gæti að vísu talað allmjög lengi og er búinn að gera það æðioft. En ég ætla að vona að skattarnir verði lækkaðir og til bóta fyrir fólkið í landinu.