Staðgreiðsla opinberra gjalda
Mánudaginn 11. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir er flutt í tengslum við frv. til laga um breytingu á tekju- og eignarskatti sem hv. deild var nú að vísa til fjh.- og viðskn.
    Samkvæmt því frv. er gerð tillaga um nokkra breytingu á skipan og starfsháttum ríkisskattanefndar eins og fjallað hefur verið um í umræðunni um frv. til breytinga á lögum um tekju- og eignarskatt. Í því frv. er stefnt að því að efla og styrkja starfsemi ríkisskattanefndar og hraða mjög gangi mála í nefndinni.
    Ég hef hlustað á þau sjónarmið, sem hér hafa komið fram við fyrri umræðu, að ýmsir hv. þm. telja nauðsynlegt að skoða þann þátt frv. um tekju- og eignarskatt nokkuð nánar og skal ég ekki setja mig gegn því að menn velti því máli rækilega fyrir sér í hv. nefnd. Enda er rétt að það tengist efnislega ekki beint þeim tekjuöflunartillögum sem hér eru lagðar fram þótt fjmrn. hafi þótt rétt að leggja þessar tillögur fram sem lið í því að styrkja innheimtukerfið sem og réttaröryggi og réttarmeðferð á deilumálum varðandi skattlagningu. Vegna þessara tillagna í frv. til laga um tekju- og eignarskatt, þá er lagt hér fram frv. sem miðar að því að verkefni sektarnefndar, skv. 31. gr. laganna um staðgreiðslu, verði flutt til ríkisskattanefndar og jafnframt verði sektarnefndin lögð niður.
    Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að rekja efni þessa stutta frv. en mælist til þess að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. svo að hún geti skoðað það í tengslum við frv. um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.