Fjárlög 1990
Þriðjudaginn 12. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegur forseti. Fjárlagafrv. fyrir árið 1990, sem hér er komið til 2. umr., er að ýmsu leyti sérkennilegt. Sjaldan hefur frv. hlotið eins mikið lof frá aðalhöfundi sínum eins og þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir þessu frv. til fjárlaga við 1. umr. og þegar hann kynnti það fyrir fjölmiðlum eftir að frv. var lagt fram. Þá skorti ekki hástemmdar lýsingar og faguryrði um það hversu hér væri mikið tímamótaverk á ferðinni. Frv. átti að valda þáttaskilum, það átti að vera traustur hornsteinn nýrrar efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar, það átti að mynda traustan ramma um efnahagslífið, ramma sem allir aðilar í þjóðfélaginu áttu að laga sig að. Þarna var komin kjölfestan sem íslensku þjóðina hafði vantað til þess að rífa sig upp úr öldudalnum.
    Þeir sem vanir eru að lesa fjárlagafrv. sáu fljótt að hér var málum blandið. Og þeir sem þekkja hæstv. fjmrh. voru ekkert hissa á því þó að hér kynni eitthvað að vera ofsagt.
    Sama daginn og frv. var lagt fram lýsti ég nokkrum einkennum þess í örstuttum viðtölum við fjölmiðla. Og við 1. umr. fjárlaga þann 26. okt. sl. gerði ég og aðrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar grein fyrir skoðunum okkar á þessu frv. Ástæðulaust er að rifja upp þau orð sem þá voru sögð, en þau voru mjög á annan veg en sú lofgjörð sem málskrúðsmaðurinn mikli, hæstv. fjmrh., hafði flutt um þetta afkvæmi sitt.
    Á undanförnum vikum hefur fjvn. haft þetta mál til meðferðar. Við nákvæma athugun á frv. hefur komið í ljós að það er óvenjuleg hrákasmíð. Frv. er svo götótt að furðu sætir. Rekstrarliðir þess eru víða hvar vanmetnir. Sömuleiðis launaliðir, jafnvel svo skakkar tugum milljóna króna hjá miðlungsstórri stofnun og hvort tveggja án þess að til þess sé ætlast að dregið verði úr starfsemi þessara stofnana. Sértekjur höfðu á hinn bóginn verið hækkaðar hjá ýmsum stofnunum úr öllu samhengi við möguleika þeirra til að afla sér þessara tekna. Frv. er löðrandi í slíkum villum. Frv. sem átti að vera hornsteinn nýrrar efnahagsstefnu og veita traustan ramma utan um efnahagslífið var þegar til kastanna kom eins og gatasigti.
    Mér þykir nauðsynlegt að draga þetta fram þegar í upphafi ræðu minnar vegna þess að í þessu er fólgin skýringin á þeim mikla fjölda brtt. sem fjvn. flytur við þessa umræðu. Þó að þetta hafi verið sagt með öðrum orðum í ræðu hv. formanns fjvn. hér áðan, þá máttu allir skilja að skoðun hans var hin sama. Fjvn. flytur þessar brtt. sameiginlega. En svo hefur oftast verið með brtt. við 4. gr. Að sjálfsögðu erum við fulltrúar minni hl. í fjvn. mismunandi ánægðir með þessar tillögur og hefðum í sumum þeirra a.m.k. lagt aðrar áherslur. Við höfum því fullan fyrirvara um afstöðu til einstakra tillagna og áskiljum okkur rétt til að hafa frjálsar hendur til þess að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.
    Að þessum orðum mæltum vil ég flytja nefndarmönnum í fjvn. þakkir fyrir ágætt samstarf við

þá vinnu nefndarinnar sem nú er að baki. Ég vil einnig taka undir orð formanns nefndarinnar um þakkir til þeirra starfsmanna sem unnið hafa fyrir nefndina og til þeirra embættismanna ríkisins sem nefndin hefur
haft mest samskipti við. Þá vil ég einnig flytja þakkir til starfsfólksins alls í húsakynnum Alþingis að Austurstræti 14. Ég vil þó sérstaklega flytja formanni nefndarinnar, hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, þakkir fyrir röggsamlega verkstjórn á fundum nefndarinnar og lipurð í samskiptum við okkur, sem erum fulltrúar stjórnarandstöðunnar.
    Við afgreiðslu mála fyrir þessa umræðu hefur formaðurinn leitt starf meiri hl. nefndarinnar á þann hátt sem við í minni hl. teljum rökrétt, hann hefur leitast við að leiðrétta að hluta sem flestar villur frv. í hinum smærri útgjaldaliðum, þótt ekki verði séð fyrir hvernig fer um hin stærri vandamálin sem flest bíða 3. umr. Þessi afstaða byggist á sömu sjónarmiðum, sem væntanlega koma bráðlega fram í frv. á vegum nefndarinnar í heild, þar sem gerðar verða tillögur um fastari skipan á meðferð og framkvæmd ríkisfjármála. Til þess að sú skipan geti orðið virk er nauðsynlegt að fjárlög verði raunhæfari en þau hafa oft verið, sérstaklega nú hin síðustu árin.
    Engum meiri hl. í fjvn. er það létt verk að flytja svo margar brtt. sem nú hefur verið gert, tillögur sem hækka útgjöld ríkissjóðs um nálega 1200 millj. kr. Sá hluti þessara brtt. sem fluttur er til þess að leiðrétta augljósar vitleysur frv. er þó í rökréttu samhengi við þau sjónarmið nefndarinnar í heild að til þess að hægt sé að veita einstökum stofnunum ríkisins eðlilegt aðhald þurfi þær að búa við fjárlög sem séu sæmilega raunhæf.
    Áður en ég vík frekar að fjárlagafrv. þykir mér rétt að rifja upp að nú eru liðnir 14 mánuðir síðan ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar settist á valdastóla. Ég kalla það svo að enn sitji sama ríkisstjórnin, þótt í september sl. hafi verið skotið undir hana fleiri brauðfótum með þátttöku Borgfl. Í raun var einungis um formbreytingu að ræða vegna þess að Borgfl. hafði stutt hæstv. ríkisstjórn að meira eða minna leyti frá því að hún var mynduð. Það var auðvitað gert í von um umbun, sem að lokum fékkst með tveimur ráðherrastólum,
þótt annar þeirra væri einungis að nafninu til og án raunverulegra verkefna.
    Yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar frá því fyrir 14 mánuðum eru þjóðinni enn þá í fersku minni. Í fyrstu voru ýmsir sem trúðu því að hæstv. ríkisstjórn mundi standa við þær yfirlýsingar sem hún hafði gefið. Allir vita nú að þetta hefur farið á annan veg. Í 14 mánuði hefur þjóðin orðið vitni að vanefndum. Í 14 mánuði hafa atvinnuvegirnir barist í bökkum með samfelldum hallarekstri og gjaldþroti fjölda fyrirtækja. Í 14 mánuði hefur verið þrengt að afkomu heimilanna með minnkandi kaupmætti almennings og gífurlegum skattaálögum. Landsbyggðin hefur átt í vök að verjast og atvinnuleysi hefur haldið innreið sína. Ríkissjóður safnar skuldum vegna rekstrarhalla og þjóðarbúið

safnar skuldum erlendis vegna halla á viðskiptum við útlönd. Millifærslukerfi ríkisstjórnarinnar hefur ekki náð að ráða bót á þessum vanda. Þótt með því hafi tekist að forða nokkrum fyrirtækjum frá gjaldþrotsbrúninni er um að ræða frestun á vanda sem kemur til greiðslu af fullum þunga á árinu 1991. Smáskammtalækningar í formi gengisfellinga hæstv. ríkisstjórnar hafa komið of seint og verið þess vegna of litlar. Ef svo sem helmingurinn af þessum gengisfellingum hæstv. ríkisstjórnar hefði komið fyrir 14 mánuðum væri staðan nú önnur.
    Í nál. minni hl. fjvn. á þskj. 280 eru dregin fram í töluliðum nokkur einkenni efnahagslífsins um þessar mundir. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
,,1. Erlendar skuldir stórhækka á þessu ári eða úr 41,3% af landsframleiðslu 1988 í rúmlega 50% 1989.
    2. Greiðslubyrði af erlendum lánum hækkar úr 16,6% af útflutningstekjum 1988 í 19% 1989.
    3. Halli á viðskiptum við útlönd fer vaxandi og því spáð að hann verði 9,9 milljarðar á næsta ári og eru þá ekki teknar til greina alvarlegar horfur í loðnuveiðum. Þessi halli á einu ári samsvarar 200 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu.
    4. Halli á ríkissjóði stefnir í 5--6 milljarða kr. á þessu ári og varlega áætlað í 6--8 milljarða kr. á næsta ári.
    5. Spáð er yfir 2000 gjaldþrotum í Reykjavík á þessu ári. Ekki liggja fyrir tölur eða spár fyrir landið í heild en staðan er geigvænleg.
    6. Talið er að kaupmáttur ráðstöfunartekna verði að meðaltali 8% lægri en 1988 og að hann lækki enn um 5% á næsta ári. Kaupmáttur tryggingabóta frá Tryggingastofnun ríkisins er talinn hafa lækkað á þessu ári um 4--9% eftir tegundum trygginga.
    7. Atvinnuleysi var þrisvar sinnum meira fyrstu átta mánuði þessa árs en á sama tíma í fyrra og gert er ráð fyrir að allt að 6 þús. manns gangi atvinnulausir í upphafi næsta árs, eða meira en einn og hálfur árgangur af þeim hluta þjóðarinnar sem nú er á besta starfsaldri.
    8. Skattheimta til ríkisins er nú meiri en nokkru sinni fyrr, á sama tíma sem laun fólksins fara lækkandi að raungildi og fjöldi fyrirtækja riðar til falls.
    9. Verðbólga hefur á þessu ári hækkað um 25% og raunvextir útlána í bankakerfinu eru að meðaltali tvöfalt hærri en 1987 samkvæmt yfirliti Þjóðhagsstofnunar.
    10. Eigið fé heilla atvinnugreina er á þrotum eða þrotið. Eftir ítrekaðar gengisfellingar ríkisstjórnarinnar er fiskvinnslan, sem rekin hefur verið með háskalegum halla síðustu missirin, nú talin réttu megin við strikið að meðaltali, en á sama tíma er bátaflotinn rekinn með ískyggilegum halla og sömu sögu er víðast að segja um þann hluta togaraflotans sem aflar fyrir frystihúsin.``
    Sú lýsing sem hér er gefin af ýmsum þáttum efnahagsmála er öll dregin fram úr gögnum sem komið hafa frá hæstv. ríkisstjórn sjálfri, mest úr þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Það vekur því

sannarlega furðu að hæstv. ríkisstjórn virðist nú telja að hinu ákjósanlega jafnvægi sé náð. Allt sé komið í besta lag hjá heimilunum í landinu, atvinnuvegunum, ríkissjóði og í þjóðarbúskapnum.
    Á þessum nótum flytja forustumenn hæstv. ríkisstjórnar nú hverja ræðuna á fætur annarri. Þannig talaði t.d. hæstv. fjmrh. á Alþingi þann 23. okt. sl. þegar hann var að lýsa því fyrir hv. þm. hvernig hæstv. ríkisstjórn hefði skapað þessi eftirsóknarverðu skilyrði fyrir það sem hann kallaði, með leyfi hæstv. forseta: ,,nýjan grundvöll að varanlegri umsköpun í íslensku efnahagslífi, nýjan grundvöll í sjávarútvegsmálum, nýjan grundvöll í landbúnaðarmálum, nýjan grundvöll í byggðamálum, nýjan grundvöll í ríkisfjármálum, nýjan grundvöll í velferðarkerfinu og tryggingakerfi ríkisins, nýjan grundvöll í samskiptum Íslands við umheiminn``.
    Þetta er ekki eina ræðan sem hæstv. fjmrh. hefur flutt af þessum toga. Þær eru margar. Og hæstv. fjmrh. er ekki eini ráðherrann í núverandi hæstv. ríkisstjórn sem talar með þessum hætti. Ýmsir fleiri hæstv. ráðherrar æfa sig í ræðuhöldum af þessu tagi.
    Þeir sem þannig tala virðast ekki þekkja raunveruleikann. Þeir þekkja ekki afkomu heimilanna eða atvinnuveganna. Þeir þekkja ekki gjaldþrotin. Og þeir þekkja sjálfsagt ekki skattbyrðina. Eða er það kannski svo að þeir séu aðeins að snúa staðreyndunum við með blekkingavaðli?
    Hverri ríkisstjórn er það afar mikilvægt að eiga sæmilegt traust þjóðar sinnar. Núverandi hæstv. ríkisstjórn á víst ekki þessu láni að fagna. Það þykir fáum undarlegt sem hlusta á ræður af þeim toga sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni.
    Að sjálfsögðu liggur ekkert endanlega fyrir um það hver verður niðurstaðan í ríkisbúskapnum á þessu ári. Ljóst er þó að ríkissjóður verður rekinn með alvarlegum halla sem líklega nemur um 5 milljörðum króna, þrátt fyrir að fjárlög væru afgreidd með rekstrarafgangi.
    Við afgreiðslu fjárlaga fyrir tæpu ári fluttum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar harða gagnrýni á veilurnar og skekkjurnar í fjárlögunum eins og þau voru afgreidd. Öll atriði þeirrar gagnrýni okkar, sem voru fjölmörg, hafa nú hlotið staðfestingu reynslunnar. Þegar ég lýsti því t.d. hvernig forsendur fjárlaganna væru í lausu lofti og úr öllu samhengi við veruleikann svaraði hæstv. fjmrh. því til að það skipti ekki miklu máli. Í fjárlögunum væri sem sagt ,,innbyggt samhengi`` á milli tekna og gjalda. Ef gjöldin færu fram úr því sem fjárlögin gerðu ráð fyrir mundu tekjurnar vaxa sjálfkrafa, þ.e. jöfnuðurinn mundi haldast. Þessi snilldarlega kenning hæstv. fjmrh. hefur nú sannað gildi sitt á þann veg að samkvæmt spám fjmrn. er gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs á þessu ári fari 1700 millj. kr. fram úr fjárlögum, en útgjöldin um 8100 millj. Sú tala mun þó væntanlega hækka, m.a. vegna hækkunar á útgjöldum fjáraukalagafrv. fyrir árið 1989, sem nú er til meðferðar hjá fjvn.
    Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að kenning hæstv. fjmrh. um innbyggt samhengi í fjárlagadæminu

hefur reynst álíka haldgóð og ýmsar aðrar fullyrðingar eða yfirlýsingar þessa hæstv. ráðherra.
    Í upphafi máls míns rakti ég í örfáum orðum þær einkunnir sem hæstv. fjmrh. gaf fjárlagafrv. þegar hann fylgdi því úr hlaði við 1. umr. Ég lýsti því einnig hvernig frv. hefur staðist þá athugun sem fram hefur farið í fjvn. á undanförnum vikum. Í nál. minni hl. nefndarinnar á þskj. 280 eru rakin nokkur megineinkenni frv. og vankantar þess, eins og þeir liggja fyrir hér við 2. umr. Þar segir með leyfi hæstv. forseta:
,,1. Frv. er lagt fram með nálega þriggja milljarða kr. halla sem sýnir uppgjöf ríkisstjórnarinnar við að ná jafnvægi í fjármálum ríkisins. Stærri vanda er þó leynt með feluleik í frv.
    2. Frv. boðar áform ríkisstjórnarinnar um að þyngja til muna skattbyrði almennings, bæði með tekjuskatti einstaklinga og veltusköttum. Tekjuhliðin er þó næsta óábyggileg vegna margvíslegra breytinga á tekjuöflunarkerfi ríkisins sem óvíst er hvort allar komast fram.
    3. Eins og frv. lítur út við 2. umr. felur það í sér verulega þenslu í ríkiskerfinu á næsta ári með á þriðja hundrað nýjum starfsmönnum og aukningu rekstrarútgjalda um allt að 2% að raungildi. Í heild er því spáð að samneysla vaxi á næsta ári um 1% meðan þjóðartekjurnar dragist saman um 1,4%.
    4. Framlög til fjárfestingar, viðhalds og ýmissa tilfærslna eru á hinn bóginn skorin harkalega niður, svo að hafa mun veruleg áhrif á atvinnumöguleika fólks á næsta ári.
    5. Frv. er hroðvirknislegt. Engar líkur eru til að forsendur þess, sem eru afar óljósar, fái staðist. Frv. er löðrandi í vísvitandi eða handahófskenndum vanáætlunum sem ekki styðjast við fyrirætlanir um að draga úr rekstri. Meiri hlutinn af hækkunartillögum fjvn. við þessa umræðu er fluttur til þess að stoppa í þau göt.
    6. Nokkur stórmál, sem geta skipt a.m.k. 3 milljörðum í útgjöldum ríkissjóðs á næsta ári, eru ekki afgreidd við þessa umræðu heldur bíða til 3. umr.
    7. Við þessa umræðu er því algjör óvissa um lokaniðurstöðu fjárlagafrv. en ljóst er að það verður afgreitt með hrikalegum halla sem vafalaust verður þó dulinn að hluta.
    8. Þetta frv. verður seint talið með réttu ,,hornsteinn nýrrar efnahagsstefnu`` eða grundvöllur að nýju jafnvægi í efnahagsmálum. Þess í stað er það ein allsherjaryfirlýsing um ráðleysi og uppgjöf ríkisstjórnar sem rúin er trausti þjóðarinnar.``
    Á þessu ári hefur orðið nokkur samdráttur í efnahagskerfinu og því er spáð að sá samdráttur haldi áfram á næsta ári. Það er þó rangt að þessi samdráttur sé svo mikill að hann megi telja meðal mestu ytri áfalla þjóðarbúsins í samanlagðri sögu lýðveldisins. Aðeins tvisvar sinnum á þessum áratug hafa þjóðartekjur verið hærri en á þessu ári, en það var á árunum 1987 og 1988, sem voru sérstök veltiár. Hér er því ekki um jafnstórkostleg ytri áföll að ræða og hæstv. ríkisstjórn hefur viljað halda fram. Þrátt fyrir

þetta er sjálfsagt að líta á það með fullu raunsæi að nokkur samdráttur hefur orðið í efnahagskerfinu á síðustu tveimur árum. Þessum samdrætti í efnahagskerfinu
hefur á hinn bóginn ekki verið mætt með því að stöðva vöxt ríkisútgjalda eða útþenslu ríkiskerfisins. Rekstrarumsvif ríkissjóðs hafa haldið áfram að vaxa á síðustu tveimur árum af fullum þunga og á næsta ári stefnir hæstv. ríkisstjórn að því að auka enn ferðina.
    Í fjárlagafrv. er byggt á því að verðlag hækki um 16% en rekstrarútgjöld ríkisins eiga að hækka um 24,7% og launaútgjöldin um 25,2%. Þetta þýðir að samkvæmt frv. var gert ráð fyrir að rekstrarútgjöldin hækkuðu um 1,8% að raungildi og þegar frv. er komið til 2. umr. er þetta hlutfall komið í eða yfir 2%.
    Ef til vill kemur það einhverjum á óvart að hækkun útgjalda er langmest hjá fjmrn. sjálfu eða 51% frá því sem var á þessu ári ofan á þá miklu hækkun til fjmrn. sem var í fjárlögum yfirstandandi árs. Þar næst kemur svo æðsta stjórn ríkisins með hækkun um 35,7%. Eins og áður sagði byggir frv. á því að meðalhækkun verðlags á næsta ári verði 16%.
    Eins og kunnugt er stefnir hæstv. ríkisstjórn að því að stofna nýtt ráðuneyti á næsta ári, umhverfismálaráðuneyti. Það er skoðun mín að það ráðuneyti sé gjörsamlega óþarft og sé raunar í óþökk mikils þorra þjóðarinnar. Víst er að ef það ráðuneyti kemst á laggirnar á það eftir að auka ríkisútgjöldin og rekstrarumsvif ríkisins að miklum mun. Í því efni nægir að vitna til þeirrar reynslu sem fengist hefur af slíkum ráðuneytum hjá öðrum þjóðum. Meðan hæstv. ríkisstjórn sker niður við trog framlög til hinna nauðsynlegustu framkvæmda, svo sem til skólamála, vegagerðar, atvinnuvega og enn fremur til ýmissa samfélagslegra þarfa, skal eyðslan og útgjöldin taka stökkbreytingum hjá ríkisstjórninni sjálfri og þó umfram allt í ráðuneyti hæstv. fjmrh. sjálfs. Þegar svona er haldið á málum er ekki von að vel fari. ,,Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það``, eru bæði gömul og ný sannindi. Þegar þeir sem ráða ferðinni, hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn, auka í sífellu kostnaðinn, eyðslu og sóun við sín eigin ráðuneyti og aðalskrifstofu sinna ráðuneyta er tæplega mikils árangurs að vænta annars staðar í ríkiskerfinu. Þegar svona er haldið á málum skortir ráðherra alla burði til þess að fást við ríkiskerfið í heild og ná þar sæmilegu aðhaldi eða sparnaði. Árangurinn lýsir sér í þeirri upplausn í fjármálum ríkisins sem nú blasir við.
    Með nál. minni hl. fjvn. er birt eitt fylgiskjal, sem er tafla úr þjóðhagsáætlun hæstv. ríkisstjórnar. Ég tel rétt að vitna í þessa töflu til að sýna fram á í hvaða ófæru stefnir í fjármálum ríkisins. Í töflunni er sýnt, samkvæmt spá fyrir árið 1990, að þjóðarframleiðslan vaxi á árabilinu 1980--1990 um 4% og þjóðartekjurnar um 8%, en á sama tíma vaxi samneyslan um 37%. Þrátt fyrir þessar ískyggilegu upplýsingar leggur hæstv. ríkisstjórn til í fjárlagafrv. að rekstrarumsvif ríkissjóðs vaxi um 2% að raungildi á næsta ári. Verði framhald á þessari þróun sem hæstv. ríkisstjórn skellir

skollaeyrunum við erum við á leið út í efnahagslegt kviksyndi.
    Við sem erum fulltrúar minni hl. í fjvn. lýsum því í okkar nál. að við teljum óhjákvæmilegt að bregðast við þessari þróun. Við teljum að það verði að gera á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með því að skapa atvinnulífinu þau skilyrði að hagvöxtur geti tekið við af hnignun og samdrætti. Í öðru lagi að stöðva útþenslu ríkiskerfisins og ná raunverulegum sparnaði. Til þess að mögulegt sé að ná árangri á þeim vettvangi verða ráðherrarnir sjálfir að ganga á undan og æðsta stjórn ríkisins. Það er þó allra nauðsynlegast fyrir hæstv. fjmrh. sjálfan, og raunar hvern þann sem gegnir því starfi, að láta það ekki henda sig ár frá ári að útgjöld vaxi meira í hans eigin skrifstofu en annars staðar í ríkiskerfinu.
    Hæstv. fjmrh. og raunar fleiri hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn hafa þar ofan í kaupið misbeitt valdi sínu með því að ráða fleiri pólitíska aðstoðarmenn í sínar ráðuneytisskrifstofur en lög og reglugerð um Stjórnarráðið veitir þeim heimild til. Það er enda fullljóst að hæstv. núv. ríkisstjórn hefur hvorki vilja né getu til þess að taka á málum með þeim hætti sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjvn. telja nauðsynlegt.
    Ég óskaði eftir því fyrir rúmu ári að Ríkisendurskoðun tæki saman skýrslu um útgjöld og mannafla á aðalskrifstofum ráðuneyta á árabilinu 1982--1988. Skýrslu sem sýndi breytingar sem orðið hafa á þessu tímaskeiði. Þetta verk var unnið og birtist með skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í maímánuði sl. Í nál. minni hl. fjvn. er birt ljósrit af þremur töflum úr þessari skýrslu. Þar kemur m.a. fram að kostnaður við aðalskrifstofur allra ráðuneytanna hefur aukist á föstu verðlagi á árunum 1982--1988 um 66,7%. Hækkunin er misjöfn eftir ráðuneytum, mest í sjútvrn. 180% og hjá Hagstofu Íslands 134,8%. Þar á eftir kemur fjmrn. með 87%. En félmrn., heilbr.- og trmrn., dóms- og kirkjumálaráðuneyti og landbrn., ásamt Fjárlaga- og hagsýslustofnun, eru öll með hækkun yfir 70%. Skýringin á gífurlegri hækkun sjútvrn. er sú að ráðuneytið flutti sig á milli húsa og fjárfestingarkostnaður við að laga til skrifstofu fyrir hæstv. sjútvrh. og 14 eða 15 starfsmenn hans var hvorki meiri né minni en 36 millj. kr.
    Breyting á starfsmannahaldi aðalskrifstofanna á þessu árabili, 1982--1988, er mjög misjöfn en að meðaltali er um aukningu að ræða sem nemur 35,3%. Mest aukning á starfsmannahaldi er einmitt í því ráðuneyti sem ég stjórnaði árið 1982. Þá voru þar, í landbrn., 7 1/2 starfsmaður en 1988 eru þeir 16. Eitthvað hefur þeim fjölgað síðan. Þetta er fjölgun um 113%. Næstmest er fjölgun starfsmanna hjá Hagstofu Íslands og var þó ekki kominn neinn hagstofuráðherra árið 1988. Fækkun er í einu ráðuneyti, það er viðskrn., um 8,9%.
    Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þeim töflum sem birtar eru í nál. minni hl. um aðalskrifstofur ráðuneytanna er sýna ótrúlega mikla fjölgun starfsmanna og aukningu kostnaðar. Þó hefur kostnaður við ýmsar þeirra aukist mjög á þessu ári og

stefnir í sömu þróun á hinu næsta.
    Ég tel einnig ástæðu til að vekja athygli á töflu D í nál. minni hl. fjvn., sem sýnir yfirlit um þróun útgjalda í A-hluta ríkissjóðs og fjölgun stöðugilda á árabilinu 1980--1990. Þar kemur fram að útgjöld A-hluta ríkissjóðs hafa aldrei verið hærra hlutfall af landsframleiðslu en 1989, það er í ár, eða 28,8%, meðan þetta hlutfall var 23,8% 1980 og 22,8% 1984. Þó að hlutfallið sé nokkru lægra, eða 27,6% 1990, þá er það óraunhæft hlutfall vegna þess að enn er ekki búið að ganga frá fjárlögum og eftir að taka mjög þunga kostnaðarliði inn á A-hluta ríkisjóðs ef allt fer að líkum. Og þó að það verði ekki gert, þá munu þau útgjöld koma fram í ríkisreikningi, þannig að þetta hlutfall er ekki marktækt.
    En það er athyglisvert einnig að magnaukning útgjalda A-hluta ríkissjóðs á þessu árabili, 1980--1990, er nærri 21%. Á þessu sama tímabili hefur starfsmönnum hjá A-hluta ríkissjóðs fjölgað um 38,7% eða 3328 starfsmenn. Þessar upplýsingar sýna skýrum stöfum þá útþenslu sem er í ríkiskerfinu og hefur verið allan þennan áratug. Það er þó ljóst að útgjöldin sem hlutfall af landsframleiðslu eru langsamlega mest á árinu 1988, árið 1989 enn meira og síðan 1990. Þó að hæstv. ríkisstjórn hafi beitt niðurskurði í þeim þáttum ríkisútgjaldanna sem varða fjárfestingu, framlög til atvinnuvega og til ýmissa tilfærslna, þá hefur hvergi verið spyrnt við fótum og þenslan aukist í umfangi ríkiskerfisins, í sjálfum rekstrinum og þó einkum eftir því sem nær dregur hæstv. ráðherrum sjálfum, á aðalskrifstofum þeirra. Þetta verður að telja megineinkenni á þeim hlutanum í fjármálastjórn hæstv. ríkisstjórnar er varðar útgjöld.
    Hæstv. ríkisstjórn lagði einnig upp með þá stefnu, þegar hún settist á valdastóla, að þetta væri hægt að fjármagna og ná jöfnuði einfaldlega með því að hækka skatta. Hæstv. ríkisstjórn hefur sýnt mikla hugmyndaauðgi í því að finna nýja og nýja skatta til þess að leggja á þjóðina. Það virðist ekki hafa hvarflað að hæstv. ríkisstjórn að á meðan atvinnuvegirnir berjast í bökkum hallarekstrarins og gjaldþrot fyrirtækja er daglegt brauð, launafólk býr við minnkandi kaupmátt og öryggisleysi um atvinnu, þá sé þessi stefna dæmd til að mistakast.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur talið vorkunnarlaust fyrir alemnning í landinu að greiða meira til ríkisins heldur en nokkru sinni fyrr, þó að flestir hafi minna handa á milli en áður. Ríkissjóður skal taka meira í sinn hlut en áður. Hæstv. ríkisstjórn horfir bara á glansmynd sína af afkomu fólksins, af afkomu atvinnuveganna, sem hún lýsir í hverri ræðunni á fætur annarri og segir: Þeim er vorkunnarlaust að borga meira.
    Tekjuhlið frv. bíður, eftir venju, til 3. umr. Segja má að hún sé nú mikilli óvissu háð vegna þeirra skattkerfisbreytinga sem hæstv. ríkisstjórn hugsar sér að koma fram hér á hinu háa Alþingi. Sé miðað við fjárlagafrv. og þær breytingar á sköttum sem nú hafa verið boðaðar, verður samkvæmt upplýsingum fjmrn. lækkun á tekjum af virðisaukaskatti frá því sem frv. gerði ráð fyrir um 1900 millj. kr. Á móti ætlar hæstv.

ríkisstjórn að hækka tekjuskattinn um 2800 millj. en reiknar með að endurgreiða af því í formi barnabóta og persónuafsláttar 1400 millj. kr. Enn fremur að lagður verði mengunarskattur á bifreiðar sem gefi 350 millj. og tekjuskattur á orkufyrirtæki sem gefi 250 millj. kr. Þetta dæmi á sem sagt að koma út nálega á sléttu eða með 100 millj. kr. auknum tekjum fyrir ríkissjóð. Væntanlega fást nákvæmari áætlanir um þessi atriði og tekjuhliðina alla fyrir 3. umr., þar á meðal hvort hæstv. ríkisstjórn hyggst standa við þær fyrirætlanir sem boðaðar eru í fjárlagafrv. að leggja 600 millj. kr. skatt á sparifé landsmanna.
    En hæstv. ríkisstjórn hefur fleiri járn í eldinum. Gerðar eru í fjárlagafrv. mjög harðar kröfur á hendur ýmissa stofnana ríkisins um að afla sértekna, sem þýðir það að þær selja þjónustu sína mun hærra verði en áður hefur tíðkast. Það er viðurkennt að sumar þessara stofnana verða beinlínis að velja sér viðskiptamenn eftir því hvort þeir geti borgað eða ekki. Þannig er það t.d. um rannsóknastofnanir og aðrar stofnanir sem eiga að þjóna atvinnulífinu, að það getur ráðið úrslitum um hvort þjónustan er veitt eða ekki, hvort litið sé svo á að atvinnufyrirtækin hafi bolmagn til þess að borga. Hinir, sem eru verr staddir, verða settir hjá. Þessi stefna hæstv. ríkisstjórnar gengur svo langt að nokkrar stofnanir í A-hluta ríkissjóðs eiga að innheimta meira fyrir
þjónustu sína en þær þurfa á að halda og skila sem tekjum í ríkissjóð. Þessar stofnanir á sem sagt að nota sem innheimtumenn fyrir ríkissjóð beint til þess að afla skatta. Þannig er það með stofnanir eins og Húsameistara ríkisins, Brunamálastofnun, Vinnueftirlit, lyfjamál og Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins. Allar þessar stofnanir eiga að innheimta af landslýðnum meira fé heldur en þarf til þess að standa undir rekstri þeirra og skila sem skatttekjum í ríkissjóð samtals 58,8 millj. kr.
    Ýmsar stofnanir B-hlutans eru undir sömu sök seldar. Þannig á t.d. Póstur og sími að innheimta með hækkuðum póstburðargjöldum og símgjöldum um 350 millj. kr. umfram það sem stofnunin þarf sjálf á að halda. Símgjöldin og póstburðargjöldin eru þannig notuð til þess að ná sköttum af fólkinu í landinu beint í ríkissjóð.
    Í töflu E sem birt er í nál. minni hl. fjvn. sést að skattbyrðin á næsta ári á að verða meiri en nokkru sinni fyrr, eða 27% af vergri landsframleiðslu. Vegna þeirrar óvissu sem er um tekjuhlið fjárlagafrv. kann sú tala að sjálfsögðu að breytast. Á þessu ári er gert ráð fyrir að þetta skatthlutfall sé 26,6% af landsframleiðslu. Til samanburðar má geta þess að tekjur ríkissjóðs á árinu 1987 voru 23,6% af landsframleiðslu. Mismunurinn á milli þessara tveggja ára er talinn nema um 8,8 milljörðum kr. á föstu verði sem innheimtur ríkissjóðs eru meiri á árinu 1989 heldur en var á árinu 1987.
    Þessi tafla, ásamt þeim skýringum sem fylgja, sannar vel þá miklu aukningu sem orðið hefur á skattbyrðinni og innheimtum ríkissjóðs í heild. Þar kemur m.a. fram að matarskatturinn svokallaði hafi

aukið tekjur ríkissjóðs um 6,7 milljarða á árinu 1988 og um 8,2 milljarða á árinu 1989. Á móti kemur að niðurgreiðslur höfðu aukist um 1,5 milljarða árið 1988 en áætlað að þær hafi aukist á þessu ári um 1,7 milljarða kr.
    Hæstv. fjmrh. hefur ráðið sérstakan upplýsingafulltrúa til fjmrn., að sjálfsögðu án allra heimilda. Sagt er að þessi upplýsingafulltrúi eigi að hafa það verkefni m.a. að kenna landsmönnum að borga skattana með bros á vör. Svo virðist sem þessum vildarmanni hæstv. fjmrh. sé falið það hlutverk að útbúa gögn sem sífellt er dreift í fjölmiðlana er eigi að sýna fram á hvernig endalausar skattahækkanir hæstv. ríkisstjórnar feli í sér lækkun skatta. Skattgreiðendur fá síðan að borga allan þennan blekkingavaðal. Sem dæmi um þennan fjölmiðlaleik hæstv. fjmrh. eru yfirlýsingarnar um það að með þessum skattkerfisbreytingum lækki skattbyrði láglaunafólksins. Minni hl. fjvn. hefur komist að því í sínum athugunum, eins og aðrir, að þetta sé rangt. Skattbyrðin þyngist þvert á móti á láglaunafólki, eins og á öðrum landsmönnum.
    Upplýst er að samkvæmt reglugerð hæstv. fjmrh. muni virðisaukaskatturinn fela það í sér að sveitarfélög greiði 500--800 millj. kr. meira til ríkissjóðs en þau greiddu áður með söluskatti. Á þennan hátt er tekinn af þeim ávinningurinn sem talið var að þau hefðu af breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Virðisaukaskatturinn leggst einnig á fleiri þætti í sölu og þjónustu heldur en söluskatturinn gerði áður og hefur þannig áhrif á verðlag, sem á tímum rýrnandi kaupmáttar bitnar á fólki með vaxandi þunga og veldur um leið minnkandi veltu og rýrari gjaldstofni. Allt ber þetta að sama brunni.
    Ég hef kallað árið í ár skattaárið mikla. Með nýju ári, á árinu 1990, ætlar þessi hæstv. ríkisstjórn að slá nýtt met í skattaálögum. Slík skattaáþján á samdráttartímum hlýtur að hafa þau áhrif að magna kreppuna.
    Fjárlagafrv. er í mörgum greinum þannig úr garði gert að það gengur þvert á yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar eða einstakra hæstv. ráðherra. Nefna má sem dæmi hátíðlegar yfirlýsingar hæstv. samgrh. og ríkisstjórnarinnar við afgreiðslu vegáætlunar fyrir þetta ár en þá var um verulegan niðurskurð að ræða á fé til vegamála á árinu 1989. Gefnar voru afdráttarlausar yfirlýsingar um að með vegáætlun, sem afgreidd var á Alþingi 20. maí sl., væri stefnan mörkuð og við hana yrði staðið. Síðan kemur fjárlagafrv., sem hér er til umræðu, og þar vantar yfir 1 milljarð til þess að við þetta sé staðið.
    Nefna má enn fremur afdráttarlausar yfirlýsingar hæstv. landbrh. og stjórnarliða um greiðslu á fé sem bændur landsins eiga inni hjá ríkissjóði. Þessar yfirlýsingar verða væntanlega gerðar að umtalsefni hér af öðrum og ég fer ekki nánar út í þær. En enn þá eru ekki merki þess að við þessar yfirlýsingar verði staðið.
    Afgreiðsla á þessum málum bíður að vísu til 3. umr. og þau hljóta að verða tekin til athugunar fyrir

þann tíma. Til 3. umr. bíða einnig fleiri stórmál, sem ekkert er vitað um á þessari stundu hvaða afgreiðslu hljóta. Meðal annarra mála eru málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna, almannatryggingar, niðurgreiðslur, uppgjör við sveitarfélögin vegna nýrra laga um verkaskiptingu og vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Enn fremur má nefna í þessum lið mál eins og Háskólann á Akureyri, launalið hjá Flugmálastjórn, Þjóðleikhúsið og ýmis fleiri mál.
    Í nál. minni hl. fjvn. er dregið fram að óleystur vandi vegna þessara mála sé eigi minni en fullir 3 milljarðar kr. Um ýmis þessara mála hafa einnig verið gefnar yfirlýsingar. Nefna má sem dæmi Háskólann á Akureyri. Í fjárlögum
þessa árs er lítil fjárveiting til þess að hefja undirbúning að stofnun sjávarútvegsdeildar fyrir skólann. Síðastliðið sumar kom svo hæstv. menntmrh. og lýsti yfir þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hefja kennslu við sjávarútvegsdeild skólans á næsta ári. Þetta er að sönnu mjög mikilvægt mál. En svo kemur fjárlagafrv. og þá kemur í ljós að til þess að hægt sé að standa við yfirlýsingar og ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar vantar um 100--120 millj. kr.
    Hæstv. menntmrh. er líka annað veifið að gefa yfirlýsingar um starfsemi Lánasjóðs ísl. námsmanna. Stjórn Lánasjóðsins telur að inn á fjárlög næsta árs vanti 500 millj. kr. til þess að halda óbreyttri starfsemi sjóðsins og óbreyttu lánahlutfalli. En þá kemur hæstv. menntmrh. og lýsir yfir ákvörðunum sínum um aukningu útlána sem fara fram úr áætlunum stjórnar sjóðsins. Og þessar yfirlýsingar hæstv. menntmrh. kosta 200 millj. kr. til viðbótar á næsta ári. Ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að standa við yfirlýsingar hæstv. menntmrh. um starfsemi Lánasjóðs ísl. námsmanna þá vantar á næsta ári 700 millj. kr. Nú verður fróðlegt að sjá við 3. umr. hvort yfirlýsingar hæstv. menntmrh. hafa einungis verið ábyrgðarlaust rugl ellegar hvort hæstv. ríkisstjórn og meiri hl. hér á hinu háa Alþingi ætlar að útvega fé til þess að við þær verði staðið.
    Í málefnum almannatrygginga er einnig óleystur vandi sem er eigi minni en 700 millj. kr. Í fjárlagafrv. er gefið í skyn að breyta eigi lögum um lífeyristryggingar á þann veg að þær verði skertar um 200 millj. kr. Þá er einnig gefið í skyn að lagabreytingar eigi að verða er varða sjúkratryggingar þannig að þær verði einnig skertar um 500 millj. kr. Ákjósanlegt væri að það tækist að ná þar sparnaði. En það bólar hvergi á aðgerðum. Og komist þær ekki í framkvæmd renna þessir peningar viðstöðulaust út úr ríkissjóði.
    Enn liggur ekkert fyrir um það hvernig uppgjör við sveitarfélögin vegna nýju verkaskiptalaganna verður framkvæmt. Það er fordæmanlegt hversu dregist hefur úr hömlu hjá menntmrn. og félmrn. að setja reglugerðir við lögin þannig að það lægi ljóst fyrir hvernig þessari yfirfærslu verður háttað sem á að taka gildi á næstu áramótum. Það er þess vegna ekki einvörðungu við meiri hl. fjvn. að sakast. Hitt liggur ljóst fyrir að hér er um stórar fjárhæðir að tefla og

óvissan um öll þessi mál er sveitarfélögunum ákaflega bagaleg.
    Ég skal fara fljótt yfir sögu um aðra af þeim málaflokkum sem hér bíða 3. umr. Samkvæmt áliti Fjárlaga- og hagsýslustofnunar vantar um 540 millj. kr. í niðurgreiðsluliðinn og það liggur fyrir að í launalið einnar stofnunar vantar milli 60 og 70 millj. kr., en það er hjá Flugmálastjórn. Allt er það vegna vanáætlunar hæstv. fjmrh. vegna þess að ekkert hefur heyrst eða komið fram þess efnis að það eigi að skerða starfsemi þeirrar stofnunar til þess að þannig megi draga úr launaútgjöldum.
    Sá gífurlegi halli sem fyrirsjáanlega verður á fjárlögum á þessu ári og við blasir á næsta ári felur það í sér að vaxtaliðurinn í fjárlagafrv. er stórlega vantalinn. Ég ætla hér ekki að nefna tölur, en þær eru býsna stórar. Samanlagt er það því gífurlegur vandi sem er óleystur og bíður 3. umr. Ég skal á engan hátt um það segja á þessari stundu hversu mikið af þessum óleysta vanda verður tekið beint inn á fjárlög næsta árs. Hitt er líklegra að hluti af þessum vanda verði geymdur uppi í fjmrn. og brjótist þar fram þegar líður á árið í auknum útgjöldum ríkissjóðs, svo sem verið hefur á þessu ári og hinu síðasta og raunar stundum áður.
    En vandinn hverfur ekki fyrir þetta. Og menn verða að gera sér hér ljóst að nú er hann margfalt meiri en ég man eftir nokkru sinni í annan tíma. Fyrir liggur að hallinn á fjárlagadæminu er þegar orðinn 4 milljarðar kr. miðað við það að brtt. fjvn. verði samþykktar, sem fluttar eru við þessa umræðu. Ég hef leyft mér að áætla að fjárlög verði afgreidd með eitthvað í kringum 6 milljarða halla að þessu sinni ef ekki kemur til að hæstv. ríkisstjórn teygi verulega úr tekjuáætlun fjárlagafrv.
    Þá liggur það jafnframt fyrir að verulegur hluti hallans verður geymdur í einhverjum af skúffum hæstv. fjmrh. þangað til síðar á árinu að hann kemur til greiðslu hjá ríkissjóði. Raunverulegur halli á fjárlagadæminu er því drjúgum meiri heldur en hér hefur verið talið eða varlega áætlað 7--8 milljarðar kr. Þetta sýnir að staðan er hrikaleg og fjárlagadæmið allt í uppnámi. Og það er tilgangslaust fyrir hæstv. ríkisstjórn og hv. Alþingi að loka augunum fyrir því að vandinn er af þeirri stærðargráðu sem ég hef hér lýst. Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir.
    Það sem hér hefur verið rætt að framan sýnir algert skipbrot hæstv. ríkisstjórnar í fjármálum ríkisins. Það sýnir að sú stefna hæstv. ríkisstjórnar að leyfa rekstrarumfangi ríkiskerfisins að vaxa í sífellu og ætla sér síðan að innheimta í sköttum meira og meira af fólkinu í landinu á samdráttartímum, þegar greiðslugetan er þverrandi, sú stefna er komin út í ógöngur. Fjárlagafrv. sem átti að vera hornsteinn nýrrar efnahagsstefnu og móta traustan ramma um alla þætti efnahagslífsins hefur reynst eitthvert óvandaðasta fjárlagafrv. sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Hæstv. ríkisstjórn ætti sjálf að velja sér einkunnarorð við hæfi í ríkisfjármálum. Þau gætu verið sjálfbirgingsháttur, úrræðaleysi og sóun. Fjármálastjórn sem

starfar undir slíkum einkunnarorðum er þjóðinni hættuleg.