Fjárlög 1990
Þriðjudaginn 12. desember 1989


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Við höfum hlýtt á formann fjvn. flytja mál sitt og kann ég honum bestu þakkir fyrir greinargóðan málflutning. Við höfum líka heyrt nokkra af bústjórum í þrotabúi stjórnarandstöðunnar taka til máls og sannast á þeim málflutningi gömul samlíking: Stjórnarandstaðan er áfram of löt til að berjast og of feit til að flýja. Bústjórar hennar þrír minna mig á öfugmælaútgáfu af þrem forfeðrum mannkynsins sitjandi í frægri stellingu hlið við hlið, haldandi um viðkomandi skilningarvit, nema þessir segja: Heyrum allt bölvað, sjáum allt bölvað og segjum allt bölvað.
    Álit minni hl. í fjvn. liggur fyrir og er það með hefðbundnum hætti eins og vænta mátti þegar minni hl. heldur áfram að umgangast tölur af fullkomnu ábyrgðarleysi. Þar eru talin upp ýmis áföll í þjóðarbúskapnum sem flest eiga það sameiginlegt að orsakanna má leita til efnahagsráða hjá síðustu stjórn, síðustu ríkisstjórn, sem sat hér undir forsæti Sjálfstfl. og þess tímabils þegar talsmaður minni hl., hv. þm. Pálmi Jónsson, vinur minn, var sjálfur í formannssæti í fjvn. Þannig fjölgar í dag gjaldþrota fólki um sex á hverjum sólarhring vegna þeirra vaxta sem frjálshyggja Sjálfstfl. hefur lagt á þjóðina. Þannig sligast nú heimilin í dag undan þeim matarskatti sem ríkisstjórn Sjálfstfl. lagði á þjóðina. Og þannig heldur vofa fortíðar áfram um efnahagslífið og spor þessarar ríkisstjórnar hræða enn þann dag í dag, þó tvö ár séu liðin frá því að hún fór frá völdum, enda hafa kröfur bústjóra stjórnarandstöðunnar hér í þessari umræðu einkum lotið að því að bæta við útgjöldum, auka á útgjöldin, án þess að bent sé á nokkra raunhæfa tekjustofna í staðinn til þess að greiða mismuninn. Dæmi: Dvergkafbátur fyrir tvo. Byggðastofnun fyrir konur --- og má því vel spyrja af hverju er ekki stungið upp á sérstakri veðurstofu fyrir konur sem einungis boðar milt veður. Og viðkvæðið hjá þremur félögum mínum, hæstv.
fulltrúum Sjálfstfl. í fjvn., er ætíð það sama þegar málefni landbúnaðarins ber á góma: Er þetta nóg? Má ekki bjóða ykkur meira, piltar?
    Hv. þm. Pálmi Jónsson flutti einnig hefðbundna ræðu í kansellítölustíl hér áðan. Ég heyrði ekki betur en þar væri komin sama ræðan og hann flutti við 1. umr. um fjárlögin og minnisgóðir þingmenn hér á ganginum sögðu mér að hér væri líklega um sömu ræðu að ræða og þingmaðurinn flutti þrisvar við fjárlagagerðina í fyrra. Og ættfróður starfsmaður þingsins taldi að þannig mætti rekja ættir þessarar ræðu aftur til gamla íhaldsflokksins að langfeðgatali. Hafi maður heyrt eina svona ræðu þá hefur maður heyrt þær allar. Aðrir hv. bústjórar hafa haldið áfram að berja lóminn í þessum dúr og notast við þessa gömlu og góðu en gjörnýttu ræðu.
    Sjálfur fæ ég yfirleitt höfuðverk af tölum þannig að ég ætla ekki að tala mikið um tölur hér heldur ætla ég að minnast aðeins á málefni sem snerta lifandi fólk því það hefur verið tekið á góðum málum við gerð þessara fjárlaga og það eru mörg góð mál sem eru

tekin fyrir í þeim brtt. sem meiri hl. fjvn. leggur fyrir hér í dag.
    Í fyrsta lagi er þetta í fyrsta skipti sem lögð eru fram fjáraukalög á Alþingi og þar með er vandanum ekki sópað undir teppið heldur standa menn uppréttir og reyna að horfast í augu við vandann. Ég vil nefna hér nokkur dæmi um mál sem mér þykir þess virði að séu talin til sögunnar.
    Fyrst er að nefna tæki og búnað hjá Iðnskólanum sem fjármagni á að veita til þannig að framvegis verður hægt að halda sveinspróf í skólanum sjálfum í þeirri gömlu og virðulegu iðngrein sem prentlistin er. Það þarf ekki lengur að fá lánaðar vélar úti í bæ til þeirra hluta. Íþróttakennaraskólinn á Laugarvatni hefur nú fengið framlag í frv. svo að endurbyggja megi sundlaugina sem þar er og er að falli komin og á þó að þjóna þessu mikla íþróttasvæði og skólunum sem þar eru. Blindrabókasafnið fær framlag til þess að kaupa blindraletursprentara. Íþróttasjóðurinn er tvöfaldaður. KFUM og KFUK, Íþróttasamband Íslands, Ólympíunefndin og fleiri félög fá meiri framlög en þeim voru ætluð. Rauði krossinn fær framlög til þess að taka á móti flóttamönnum. Lögreglustjórinn í Reykjavík fær framlög til þess að ráða nýja lögregluþjóna til að mæta þeim vanda sem blasir við í miðborginni. Og meira að segja sýslumaðurinn á Blönduósi fær ofurlítið framlag sem mundi kannski hjálpa honum að standa í skilum við ríkissjóð í framtíðinni. Þá eru framlög vegna kaupa Landhelgisgæslunnar á leitarratsjá. Þá má nefna framlög til dómsmála, til fangamála, sem eru löngu brýn. Vil ég þar sérstaklega nefna framlög til öryggisgæslu fanga sem hafa verið vistaðir áratugum saman í fangelsum í trássi við gildandi lög, þó að dómstólar hafi komist að þeirri niðurstöðu að þeir eigi að sæta vist á viðeigandi stofnunum. Verður núna hægt að taka myndarlega á þessum vanda sem hefur verið þjóðarskömm áratugum saman. Eins er í frv. veitt peningum til vistunar ungra fanga sem eiga við áfengis- og fíkniefnavanda að stríða þannig að þeim megi koma fyrir á viðeigandi meðferðarstofnunum í stað þess að senda þá hvern á fætur öðrum í afplánun á Litla-Hraun. Þá er hér tillaga um ráðningu fulltrúa hjá Þjóðkirkjunni því að
kirkjan vill minnast á næstu árum 1000 ára kristni í landinu með því að efla lifandi safnaðarstarf í stað þess að reisa minnismerki úr steinsteypu. Og þau eru fleiri málin sem vert er að minnast á eins og framlög til SÁA, Flugbjörgunarsveitar, Öryggismálaskóla sjómanna og Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
    Virðulegi forseti. Síðast en ekki síst vil ég nefna framlög, fyrstu framlögin fyrir væntanlegt umhverfismálaráðuneyti. En umhverfismálaráðuneytið er eitt stærsta og jafnframt bjartasta mál framtíðarinnar á Íslandi og því er ekki nema von að þetta nýja ráðuneyti mæti fjandskap hjá stjórnarandstöðunni, hjá bústjórum í þrotabúi stjórnarandstöðunnar og henni allri sem er því miður að verða myrkari í málflutningi sínum en sjálfur Svarti skógur.