Fjárlög 1990
Þriðjudaginn 12. desember 1989


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það þykir gjarnan góður siður að geta þess sem vel er gert og því þykir mér ástæða til að minnast á það hér í upphafi að formaður fjvn. hefur lagt meira á sig og meiri vinnu í að sansa þetta fjárlagafrv. heldur en áður hefur verið gert og hefur sýnt mikla viðleitni í þá átt að hafa það sem raunhæfast. Þetta er að sjálfsögðu góður kostur því það hefur legið fyrir, sérstaklega við síðustu fjárlagagerð, að stórir útgjaldabálkar stóðu út af við fjárlagagerðina eins og við sjálfstæðismenn bentum á fyrir ári síðan en hafa síðan komið að sjálfsögðu til greiðslu á árinu. Það er náttúrlega grundvallaratriði að hafa fjárlög eins rétt talnalega séð og nokkur kostur er á.
    Það veitir vissulega heldur ekki af því að gera hér bragarbætur á því að ég hygg að það sé ekkert dæmi til um það að fjárlagafrv. sé sett saman með sama hætti og það sem nú er til umræðu. Það úir og grúir af villum í þessu frv. þannig að það má ætla að þeir sem hafi farið um það höndum kynnu hvorki samlagningu né frádrátt, enda á niðurstaðan eftir að vitna um það hverjar leiðréttingarnar munu verða.
    Það var líka vissulega athyglisvert að fylgjast með ræðu hv. varaformanns fjvn. Alþingis og þá ekki síst vegna þess að hann dró nú upp úr rassvasanum efnahagstillögur Framsfl. sem hann taldi að væri hinn besti kostur til þess að laga fjárlagagerðina.
    Það hlýtur að vekja nokkra eftirtekt að forustuflokkurinn í ríkisstjórn er sífellt að boða efnahagstillögur og betri vinnubrögð á grundvelli þeirra. Það hlýtur að vekja nokkra eftirtekt að þessar tillögur skuli ekki vera notaðar í ríkisstjórninni, að Framsfl. skuli bara vera með þær í rassvasanum ( Gripið fram í: Já, það er rétt hjá þér.) og að þjóðinni skuli ekki vera bjargað. Það séu bara fjórir þingmenn Framsfl. sem hafa nú öll ráð þjóðarinnar í hendi sér og lausn á þeim vanda, að forustuflokkurinn skuli bara vera með þessar tillögur allar í rassvasanum. Ég held að það væri gott ráð fyrir ríkisstjórnina að fara að færa þetta eitthvað til og beita þessum góðu tillögum til betri farnaðar fyrir íslensku þjóðina.
    Það sem er að sjálfsögðu efst í huga manns um þessar mundir er hvernig ríkissjóði hefur reitt af á undanförnum næstliðnu árum. Það er vert að vekja á því athygli hér að í ágústmánuði árið 1988, þegar hæstv. utanrrh. var fjmrh., komst hann að þeirri niðurstöðu að ríkissjóðshallinn mundi verða á því ári 700 millj. kr. Þetta þótti reyndar há tala og auðvitað var það í allri túlkun þáv. fjmrh. landbúnaðinum að kenna. Þegar búið var að skipta um stýrimann á skútunni og hæstv. núv. fjmrh. gerði upp dæmið um síðustu áramót var hallinn hins vegar ekki 700 millj. heldur 7 milljarðar kr. Ekki skakkaði nú meiru en því á þessum síðustu mánuðum síðasta árs. Og þá var farin hin fræga leið: að hækka skattana og leggja fram trúverðugt frv. til fjárlaga sem sérstaklega var miðað við það að ná fram hallalausum ríkisrekstri og það

gengu út skýrar tilkynningar um það frá hæstv. fjmrh. að öllum veisluhöldum væri lokið. Nú yrði þjóðin að skila reikningum á sléttu um þau áramót sem nú eru að fara í hönd. Og hvað hefur nú komið í ljós? Það er ætlað að halli ríkissjóðs á þessu ári muni verða a.m.k. 5 milljarðar kr. þrátt fyrir að ýmsum greiðslum sé skotið yfir í fjáraukalög. Og reyndar má alveg eins búast við því að þessi tala eigi eftir að hækka. Þetta gerist þrátt fyrir það að skattar hafi í upphafi þessa árs verið stórlega hækkaðir.
    Og nú er komið að fjárlagafrv. og þá eru menn hættir við að koma með fjárlagafrv. sem á að sýna greiðslujöfnuð. Því er skilað inn til umræðu í Alþingi með 2,8 milljarða í greiðsluhalla. Og núna þegar 2. umr. fer fram hefur þessi halli þegar hækkað upp í 4 milljarða kr. og eru þá einungis lagfærðar brýnustu reikningsskekkjur frv. Það er áreiðanlega óhætt að fullyrða það að halli á fjárlögum við þessa fjárlagagerð verði yfir 5 milljarða kr. eða helmingi meiri en fjárlagafrv. sjálft gerir ráð fyrir. Þetta er vissulega mikil ástæða til að leggja áherslu á og bera saman við þau orð og þau fyrirheit sem voru gefin hér fyrir einu ári síðan um nýja tíma í fjárlagagerð þar sem öllum veisluhöldum yrði lokið og fjárlagadæmið og ríkissjóðsdæmið gert upp á sléttu eða öllu fremur með nokkrum afgangi.
    Ekki er þó því til að dreifa að tekjur hafi ekki verið auknar á allra síðustu árum. Um þá hluti kom greinileg frásögn í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar og er ekki ástæða til að endurtaka það hér að neinu marki. Þó vil ég minna á að á árinu 1987 voru tekjur ríkissjóðs 25,3% af landsframleiðslu en á þessu ári er áætlað að sambærileg tala muni nema 27%. Aukning á milli þessara ára nemur þannig rétt um það bil 9 milljörðum kr.
    Það er vissulega mikil ástæða til að benda á það hvaðan þessi skattheimta kemur því það er sú viðleitni sem núv. ríkisstjórn hefur í frammi, þ.e. að smala saman sköttum án tillits til þess hvernig þeir snerta fólkið í landinu eða atvinnulífið. Þar vega að sjálfsögðu langsamlega þyngst skattarnir á fjölskyldurnar í landinu, á fólkið í landinu, en áætlað er að matarskatturinn
nettó, þ.e. að frádregnum niðurgreiðslum, hafi numið á árinu 1988 5,2 milljörðum kr. og á þessu ári er áætlað að þessi skattur muni nema 6 milljörðum kr. Það er af þessari ástæðu sem menn hljóta að hrökkva við þegar enn á að ná fram auknum tekjum, sérstaklega með því að höggva áfram í þennan knérunn, heimilin í landinu.
    Hæstv. fjmrh. hefur haft um það mörg og stór orð að hann væri búinn að ná árangri í að bæta innheimtu ríkissjóðstekna og gott ef hæstv. menntmrh. hafði ekki orð á þessu í ræðu þegar vantraust var flutt hér á dögunum. Niðurstaðan er hins vegar allt önnur. Innheimta ríkissjóðstekna hefur stórversnað á seinni árum. Sé miðað við lok ársins 1988 þá voru 11 milljarðar útistandandi af tekjum ríkissjóðs. Og þessi tala hafði tvöfaldast frá árinu 1986. Ríkissjóðsdæmið hefði auðvitað litið öðruvísi út ef þessir 5--6

milljarðar, sem hafa bæst við í óinnheimta skatta í tíð tveggja síðustu fjmrh., þ.e. Jóns Baldvins Hannibalssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar, hefðu komist til skila inn í ríkissjóð. Það má að sjálfsögðu finna skýringar á þessu, en ég hygg að þar muni mestu um valda þær yfirlýsingar sem fyrrv. fjmrh. gaf í ágústmánuði 1988 þar sem hann lýsti yfir að hann ætlaði að hætta að hegna þeim sem ekki greiddu skatta og skyldur til ríkissjóðs. Auðvitað varð þetta til þess að innheimta á þessum sköttum dróst stórlega saman þar sem menn fengu vitneskju um það að þeir þyrftu ekki að greiða aukinn kostnað þótt þeir væru í vanskilum við ríkissjóð.
    Það heyrðist háum rómi frá því sagt við myndun núv. ríkisstjórnar að málefni hinna dreifðu byggða væru komin í hendur Alþb. að stórum hluta. Og það er vissulega athyglisvert að leggja það niður fyrir sér hvernig Alþb. hefur farnast í þeim efnum. Það er þó betri kostur að bíða eftir 3. umr. með að ræða þau mál nákvæmar bæði vegna þess að hæstv. landbrh. er hér ekki við þessa umræðu, ekki í landinu að ég hygg, og líka vegna þess að hvorki vegamálin né landbúnaðarmálin eru að fullu afgreidd í fjvn. Alþingis. En ég má þó til að minna á það að eins og fjárlagafrv. birtist er í raun og veru þar tekin ákvörðun um að leggja af vegaframkvæmdir í landinu miðað við það sem áætlað var í vegáætlun. Þar er um að ræða svo stórkostlega skerðingu á vegaframkvæmdum að til nýrra framkvæmda og bundinna slitlaga er nálega ekkert fjármagn til.
    Eins er um landbúnaðarmálin. Þar hefur í rauninni ekkert heyrst annað en yfirlýsingar --- og ég sakna nú þess að formennirnir, formaður fjvn. og varaformaður nefndarinnar, skuli ekki vera staddir hér að þessu sinni því að fyrir einu ári síðan voru landbúnaðarmálin afgreidd hér við fjárlagagerð með yfirlýsingum. Ef þær hefðu staðist þá hefði vissulega náðst bærileg niðurstaða í þau málefni. En þau gerðu það ekki. Ég veit ekki um eitt einasta atriði í þessum yfirlýsingum sem hefur verið staðið við. Ekki eitt einasta atriði. Ég er hér með þessar yfirlýsingar fyrir framan mig og það er auðvelt að sjá hvernig þau mál hafa þróast.
    Hér talaði á undan mér fyrr í þessari umræðu varaformaður fjvn. og enn þá var hann að gefa yfirlýsingar. Fjáraukalögin og 3. umr. --- þar áttu stóru hlutirnir að ske. Ég vil í þessu sambandi minnast alveg sérstaklega á það sem kom reyndar fram í hans ræðu og hefur flogið fyrir að nú eigi að fara að gera upp jarðræktar- og búfjárræktarframlög með skuldabréfum. Hvers vegna í ósköpunum tekur ekki hæstv. fjmrh. upp nýja mynt eða nýja viðskiptahætti? Því í ósköpunum greiðir hann ekki sínar skuldbindingar eða ríkissjóðs með skuldabréfum eða víxlum? Hvers vegna skyldi það vera að þetta ætti alveg sérstaklega við í sambandi við landbúnaðinn? Ég verð að segja það alveg eins og er að ég trúi nú ekki öðru en menn sýni vilja til að ganga frá þessum málum með eðlilegum hætti, sérstaklega vegna þess að eins og ég hef reyndar oft bent á áður, þá er hér ekki

um að ræða nema afar smáar upphæðir. Eins og eðlilegt er hafa áherslur í þessum efnum breyst og útgjöld vegna t.d. jarðræktar- og búfjárræktarlaga hafa stórlega dregist saman með breyttum áherslum í landbúnaði.
    Eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, þá ætla ég að láta nánari umfjöllun um þessi efni bíða. Kannski fá menn betri fréttir við 3. umr. fjárlaga og þá verða menn að sjálfsögðu fljótir að gleyma því sem miður hefur farið í þessum efnum hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh. Ég ætla þess vegna að geyma mér þann þátt umræðunnar, virðulegi forseti, og ljúka máli mínu.