Fjárlög 1990
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Venjan hefur jafnan verið sú að stjórnarandstaðan greiðir ekki atkvæði gegn sameiginlegum brtt. fjvn. vegna þess að fulltrúar hennar hafa tekið þátt í gerð þeirra með störfum sínum í fjvn. Í þessu fjárlagafrv. og þeim brtt. sem hér eru bornar fram er þó um óvenjulega stórfelldan niðurskurð að ræða sem erfitt er að sætta sig við. Kvennalistakonur eru í sjálfu sér ekki mótfallnar sparnaði en telja hann til dyggða. Hins vegar getum við ekki samþykkt sparnað án tillits til aðstæðna og mikilvægis og teljum t.d. að auka þurfi fjárframlög til grunnskólanna og annarra skólamála og þá sérstaklega til kennslu fremur en að skera þar niður eins og hér er lagt til. Við viljum því á táknrænan hátt lýsa andstöðu við þessa sparnaðarleið. Öðrum brtt. munum við ekki greiða atkvæði okkar. Þær fela í sér bæði hækkanir og lækkanir sem við viljum ekki taka ábyrgð á að svo stöddu en vísum þeirri ábyrgð á hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn.
    Hæstv. forseti. Við viljum og höfum ástæðu til að leggja sérstaka áherslu á að slík hjáseta verði ekki rangtúlkuð sem stuðningur við þessar brtt. Ég segi nei.