Nefndastörf
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég vil leiðrétta það sem kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. Um það var ekki rætt þegar við skildum að fundur yrði haldinn í nefndinni til að við fengjum að sjá þessar brtt. sem meiri hl. væri með, enda kom það mjög skýrt fram hjá hv. þm. í nefndinni að hann teldi slíkt óeðlilegt. Ég lét í ljós þá skoðun mína að úr því að þetta væri viðkvæmt mál fyrir fulltrúa Alþfl. í fjh.- og viðskn., að stjórnarandstaðan fengi að kynna sér hvaða tillögur stjórnarmeirihlutinn væri með í skattamálum t.d., væri bara langeðlilegast að slíkum tillögum yrði stungið undir stól og stjórnarandstaðan fengi að sjá tillögurnar hálftíma eftir að fundur hæfist um málið daginn eftir eða eitthvað svoleiðis. Ef á að vera með feluleik af meiri hl. í skattamálum og ef virðisaukaskattsfrv. á allt að vera með sömu endemunum er best að halda því áfram til enda, langbest. Við vitum að eins og ástandið er er ekki tekið neitt tillit til sjónarmiða minni hl.
    Nú reynir á. Er það hugmyndin að gefa nefndarmönnum í fjh.- og viðskn. næði til þess að vinna að undirbúningi málsins fyrir hádegi á morgun í sambandi við mál sem afgreitt var úr sjútvn. í dag? Ég hafði ekki tök á að sitja þann fund. Samkomulag var gert við forseta um að fundur í sjútvn. yrði haldinn þegar í stað eftir að fundi í Sþ. lyki. Þá var settur fundur í Ed. í staðinn fyrir að hefja fund í sjútvn. þannig að um það var ekki hugsað hvort tími stjórnarandstöðunnar væri einhvers virði. Í gærkvöldi gerðist það í Sþ. að hæstv. forseti Sþ. tilkynnti að fundi yrði frestað kl. 7 og hæfist á nýjan leik kl. 9. Síðan tilkynnti forseti upp úr kl. 7 að hann væri að hugsa um að halda bara áfram ef enginn viðstaddra þingmanna hreyfði andmælum en var auðvitað bent á að þingmenn hefðu gengið út og búist við því að fundi yrði frestað kl. 7 eins og boðað hafði verið. En þá átti, í krafti þess að
þingmenn höfðu ætlað sér að nýta þann matartíma sem búið var að lýsa yfir að yrði, að stytta umræðuna.
    Það er auðvitað hægt að halda svona áfram. Núna, meðan fundur stóð í dag, voru okkur þingmönnum að berast upplýsingar frá Ríkisendurskoðun sem varða frv. um virðisaukaskatt og kemur þar fram að uppsetning í fjárlögum er óeðlileg. Því er auðvitað ærin ástæða til að fylgja þeirri hefð að stjórnarandstaða hafi möguleika til að vinna vel að sínum málum. Ef hins vegar fulltrúar stjórnarflokkanna telja að það muni greiða fyrir þingmálum að boða til funda í óþökk stjórnarandstöðunnar og vilja freista þess hvort það greiði fyrir vinnubrögðum hér í deildinni, þá er ég alveg reiðubúinn til þess að íhuga það. En það sem ég er að fara fram á er að réttur minn til þess að vinna að málum, vinna að framlagningu greinargerðar verði virtur.
    Í dag var mál afgreitt úr sjútvn. Í gær hafði ég beðið formann nefndarinnar um að fá þær brtt. skriflega sem hann hugðist flytja við það frv. Nú er

búið að afgreiða málið, skilst mér, úr nefndinni án þess að ég hafi séð þessar brtt. Ég mun auðvitað óska eftir því að þetta mál verði tekið upp í nefndinni á nýjan leik þar sem formanni nefndarinnar var fullkunnugt um að ég hafði athugasemdir fram að færa. Þannig að ég held að óhjákvæmilegt sé fyrir okkur, ef tíminn er knappur, að reyna að virða eðlilegar óskir þingmanna. Það hlýtur að vera eðlileg ósk, hæstv. forseti, að stjórnarandstaða eigi rétt á að fá að sjá skriflega á pappír hvernig þær brtt. eru sem meiri hl. ætlar að flytja um hin þýðingarmestu mál.