Lífeyrissjóður bænda
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Hér er auðvitað hreyft mjög merkilegu máli þegar rætt er með hvaða hætti hægt sé að styrkja Lífeyrissjóð bænda. Þessi sjóður er mjög veikur og liggur raunar ljóst fyrir að hann getur engan veginn staðið við skuldbindingar sínar. Það fé sem bændur hafa greitt til þessa sjóðs er verulegt. Við vitum að flæði til sjóðsins eða greiðslur í þennan sjóð munu fara minnkandi á næstu árum þar sem bændastéttin er minnkandi stétt. Búast má við því að verulega fækki á næstu 5--10 árum í bændastéttinni þannig að byrðarnar af lífeyrissjóðsgreiðslunum lenda á færri og færri bökum miðað við þá sem njóta greiðslna úr sjóðnum.
    Ég hygg af þeim sökum að nauðsynlegt sé að endurskoða lögin um Lífeyrissjóð bænda eins og raunar lög um ýmsa aðra lífeyrissjóði. Ég verð að segja að auðvitað er ekki gott að hæstv. landbrh. skuli ekki vera hér í deildinni til þess að hægt væri að spyrja hann hvað hann hyggist fyrir í þessum efnum.
    Ég hlýt líka að vekja athygli á því að í ýmsum byggðarlögum er byggð orðin mjög veik. Meðalaldur bænda er sums staðar mjög hár þannig að ástæða er til að óttast að sumar þessara sveita leggist af innan tiltölulega skamms tíma og þá reynir auðvitað á hvað bíður þeirra bænda sem búa á slíkum stöðum.
    Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að ekki standa efni til þess nú að fara út í maraþonumræður um þessi mál. Það væri ástæða til þess að þingdeildin ræddi stöðu bænda og stöðu Lífeyrissjóðsins í því samhengi alveg sérstaklega. En ég verð, vegna fjarveru landbrh., að láta það bíða betri tíma en legg ríka áherslu á að það frv. sem hér liggur fyrir er aðeins lítið skref. Það er óhjákvæmilegt að framlengja lögin nú um áramót og þess vegna sjálfsagt að deildin afgreiði þetta frv. nú en um leið minni ég á nauðsyn þess að hugað verði til lengri framtíðar í þessu sambandi.