Launaskattur
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég tek undir orð hv. 1. þm. Reykv. og það nál. sem liggur hér frammi frá minni hl. fjh.- og viðskn. Það er kominn tími til að menn hugi í alvöru að því hvað er að gerast í þjóðfélaginu og hverjar eru orsakir og afleiðingar skattheimtu ríkisins. Það misræmi sem er í skattheimtu launaskatts á ekki að eiga sér stað og bitnar mjög á fyrirtækjum og þó að prósentan sem slík sé ekki há þýðir hún auðvitað það að fólkið fær lægri laun og hv. 18. þm. Reykv. hefði átt að skilja það að þetta þýðir minni greiðslugetu fyrirtækja og minni möguleika hjá þeim að greiða hærri laun.
    Í DV í gær var endurprentuð tafla um launamismun og vinnustundir iðnaðarmanna úr Politiken sem ég minntist á í umræðu um vantraust nýlega. Í þeirri töflu sést glögglega að launamismunurinn hjá iðnaðarmönnum í Vestur-Þýskalandi og á Íslandi er 65% í tímakaupi og vinnustundir Íslendinga eru með þeim hæstu sem þekkjast. Þetta sýnir það að við erum á rangri leið. Við erum að reyna að koma í veg fyrir að fólkið fái gott kaup með þessari stefnu sem núv. ríkisstjórn rekur. Við erum að koma í veg fyrir að fólkið í landinu njóti góðs af því að fyrirtækin gangi vel.
    Í þessu sambandi er rétt að minna á það að góðærið 1987 þar sem verð á þorski var það hæsta sem nokkru sinni hefur verið, margfalt hærra en nokkru sinni fyrr, fór beint í ríkissjóð allt saman og meira til. Og við horfum fram á það að magnaukning á ríkisútgjöldum er 66% frá 1983 sem segir það að verið er að leika sér með peningana í rekstri ríkisins, en það er ekki aukin þjónusta fyrir fólkið. Og það hefur komið harðast niður á heimilunum í landinu. Það er heimska og þekkingarleysi að halda að það að skattleggja fyrirtæki sé til bóta fyrir heimilin í landinu. Það er alveg ótvírætt að hér þýðir þetta það að dregið er fé frá launþegum og það er gert með margvíslegum hætti öðrum. Það er sennilega kominn tími til að það verði litið
á öll þau gjöld sem eru lögð ofan á launin og launþegar fá aldrei í vasann, eru tekin í alla vega sjóði og eyðslu sem er ekki af hinu góða. Launaskattinn ætti auðvitað að leggja niður því að hann hefur engum orðið til góðs. Hann verður að leggja niður því að hann er ekki til þess að létta undir með fyrirtækjunum og hann veldur því að fólkið fær lægra kaup en ella væri.