Lánsfjárlög 1989
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi geta þess að sú ákvörðun mín að leggja hér fram sérstaka brtt. við frv. byggðist ekki á því að ég vildi sýna hv. fjh.- og viðskn. sérstaka vanvirðu með því að flytja till. ekki inn í nefndina. Skýringin er einfaldlega sú að hv. fjh.- og viðskn. hafði lokið afgreiðslu sinni á málinu og skilað nál. áður en ég vissi af þeim lokum málsins í nefndinni. Að sjálfsögðu hafði ég ætlað að fylgja þeirri þingvenju að kynna brtt. í nefndinni. Ég tel nauðsynlegt að þetta komi fram til að það valdi ekki misskilningi og leitt þykir mér ef nefndarmenn telja að ég hafi af ráðnum huga verið að ganga fram hjá nefndinni.
    Ástæða þess að brtt. er flutt er einkum sú að orðið hefur mikil fjölgun námsmanna, um u.þ.b. 10% á yfirstandandi skólaári, og mun það einkum vera vegna þess að á tímum erfiðleika á vinnumarkaði leitar hlutfallslega stærri hluti ungs fólks til náms en áður og svo það að minni tekjur námsmanna breyta fjárþörf sjóðsins.
    Það er hins vegar rangt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að áætlanir séu að breytast frá degi til dags. Meginskýringin á því hvers vegna hæstv. ríkisstjórn flytur frv. felst í því að markaður fyrir innlenda lánsfjáröflun hefur verið traustari og öflugri en flestir gerðu ráð fyrir. Og það er ósköp eðlilegt að menn bregðist við þeim markaðsaðstæðum með því að styrkja lánsfjáröflun ríkissjóðs á hinum innlenda markaði. Slíkt er á engan hátt óeðlilegt. Ef stjórnvöld ætla sér að geta spáð fyrir með nákvæmni ár fram í tímann, hverju markaðurinn muni taka við af innlendum spariskírteinum eða ríkisvíxlum, væri annaðhvort eitthvað meira en lítið bogið við markaðinn eða stjórnvöld komin með guðdómlega náðargáfu. Hvorugt er nú hins vegar í eðli málsins svo að það hlýtur ávallt að verða þannig að reynist markaðurinn traustari og taka betur við spariskírteinum ríkissjóðs og ríkisvíxlum en
áætlanir gerðu ráð fyrir, þá leiti ríkissjóður heimildar Alþingis til að hagnýta sér þá jákvæðu aðstöðu sem á markaðnum skapast.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson spurði hvaða horfur væru á að lífeyrissjóðir eða aðrir öflugir kaupendur kynnu á þeim dögum sem eftir eru af árinu að kaupa spariskírteini ríkissjóðs fyrir umtalsverðar upphæðir, rúman milljarð eða jafnvel meira. Það er voðalega erfitt að fullyrða það á þessu stigi. Skýringin liggur í því að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna munu meta, þegar líður á mánuðinn, hvort á markaðnum bjóðist betri pappírar en þeir sem ríkissjóður býður.
    Ég hef trú á að niðurstaða þeirra verði sú að á markaðnum verði ekki betri pappírar og þeir muni þess vegna á síðustu dögum ársins, jafnvel síðasta dag ársins, kaupa spariskírteini ríkissjóðs í umtalsverðu magni. Ríkissjóður hefur enn fremur skapað þá nýjung að bjóða lífeyrissjóðunum, sem eru stærstu og öruggustu kaupendur spariskírteina ríkissjóðs og ríkispappíra almennt, sérstök hagstæðari kjör vegna

þess að við viljum byggja upp varanleg viðskipti við lífeyrissjóðina á þessum markaði, teljum að það þjóni hagsmunum annarra sem á markaðnum eru og stöðugleika í efnahagslífinu þegar til lengdar er litið. Ég get þess vegna ekki frekar en aðrir fullyrt það hér og nú hvað kann að verða á þessum markaði við lok ársins. Ég læt þó í ljósi þá skoðun að það muni ekki skýrast fyrr en á allra síðustu dögum ársins, jafnvel á síðasta degi ársins, eins og ég nefndi áðan, þar sem forustumenn lífeyrissjóðanna kunna að bíða með kaupin þar til árið er að renna út til þess að hafa þá fulla vissu fyrir því að á árinu bjóðist ekki betri kjör.
    Ég get þó vísað til þess að reynslan á árinu sýnir að ríkissjóði hefur tekist að selja mun meira af bæði ríkisvíxlum og spariskírteinum ríkisins en bjartsýnustu áætlanir gerðu ráð fyrir. Auk þess er hægt að færa rök fyrir því að á ýmsan hátt kunni að vera skynsamlegt fyrir Seðlabankann að kaupa einnig þó nokkurn hluta af spariskírteinum ríkissjóðs á þeim vikum sem eftir eru á þessu ári. Það helgast bæði af þeirri stöðu sem er í viðskiptum ríkissjóðs og Seðlabankans að öðru leyti og eins með tilliti til þess hvað Seðlabankinn hefur aðhafst að öðru leyti á spariskírteinamarkaðinum, bæði hvað innlausn spariskírteina snertir og önnur viðskipti. Þess vegna er í sjálfu sér ekki hægt að fullyrða á þessu stigi að til þurfi að koma einhverjar umtalsverðar erlendar lántökur vegna þess að þessi viðskipti muni ekki takast. Hins vegar er rétt hjá starfsmanni Fjárlaga- og hagsýslustofnunar að hafa varann á sér eins og hann gerir hér í sínu áliti, en svarið mun hins vegar fást á markaðnum sjálfum þar sem hann er, eins og ég veit að hv. þm. veit, herra þessara viðskipta.
    Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að svara nánar því sem hér hefur verið spurt um. Ég vil þó aðeins vekja athygli á því að komi til slíkrar lántöku þarf ekki að afgreiða hana fyrr en á fyrstu mánuðum næsta árs og hægt að taka tillit til hennar við afgreiðslu annarra mála. Þar að auki er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði til Seðlabankans, bæði á þessu ári og á næsta ári, umtalsverðar upphæðir svo að það er líka hægt að fara þá leið að fresta einhverju af þeim greiðslum. Auk þess hefur ríkissjóður ekki nýtt allar þær heimildir til erlendrar lántöku sem hann hefur svo að möguleikarnir til að bregðast við þeirri stöðu sem upp kann að koma ef markaðurinn reynist ekki jafnvíðtækur fyrir spariskírteinin og ríkisvíxlana eins og við vonum eru mjög margir og ýmsir þeirra fela í sér aðrar leiðir en auknar erlendar lántökur eða sérstakar erlendar lántökur með nýjum heimildum frá Alþingi.
    Ég vona að þetta svar mitt varpi nokkuð skýrara ljósi á stöðu þessa máls.