Skráning og meðferð persónuupplýsinga
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Frsm. meiri hl. allshn. (Jón Kristjánsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. allshn. um frv. til laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.
    Frv. hefur verið til meðferðar í hv. Ed. og þaðan afgreitt með allnokkrum breytingum. Nefndin hefur fjallað um frv. og til viðræðna komu Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri, Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri þjóðskrár, Jón Thors, skrifstofustjóri í dómsmrn., og Þorgeir Örlygsson sem er formaður tölvunefndar og reyndar annar höfunda að frv.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar voru í meðförum Ed. Einstakir nefndarmenn áskilja sér þó rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma.
    Sighvatur Björgvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins og hv. þm. Ingi Björn Albertsson hefur skilað séráliti á þskj. 294 og brtt. á þskj. 295. Undir álit meiri hl. skrifa Jón Kristjánsson, Ólafur G. Einarsson, Friðjón Þórðarson, Guðni Ágústsson og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.
    Þess má geta í sambandi við afgreiðslu þessa máls að brýna nauðsyn ber til að endurnýja löggjöf um þessi efni fyrir áramót vegna þess að núverandi lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga falla úr gildi þann 31. des.