Skráning og meðferð persónuupplýsinga
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Frsm. minni hl. allshn. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hl. en þar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Eftir að hafa athugað frv. sýnist undirrituðum að það hafi að geyma ákvæði sem tryggi víðtæk völd tölvunefndar, en hins vegar sé ekki hugað nægilega að rétti einstaklingsins. Því er lagt til að frv. verði samþykkt með brtt. sem lagðar eru fram á sérstöku þingskjali í 14 liðum. Flestar breytingarnar miða að því að tryggja rétt einstaklingsins og koma í veg fyrir að vissar upplýsingar verði skráðar. Eins er gert ráð fyrir því að tölvunefnd þurfi dómsúrskurð til að fá aðgang að húsnæði skráningaraðila, enda er sú heimild, sem frv. gerir ráð fyrir, brot á meginreglu. Þá er mælt með því að sú grein frv., sem fjallar um markaðs- og skoðanakannanir, verði felld niður en þess í stað verði lagt fram á Alþingi frv. til heildarlöggjafar um þetta efni.
    Ef veigamestu brtt., sem minni hl. nefndarinnar gerir, verða ekki samþykktar leggur hann til að það verði fellt.``
    Þannig hljóðar álit minni hl.
    Þær brtt. sem minni hl. leggur fram eru, eins og áður hefur komið fram, í fjórtán liðum og stefna flestar í þá átt að vernda rétt einstaklingsins. Ef ég leyfi mér kannski að fara í stuttu máli yfir þær, en þær eru á þskj. 295, er gert ráð fyrir breytingu við 4. gr., að 3. mgr. falli brott, en í 4. gr. frv. eru taldar upp þær upplýsingar sem óheimilt er að skrá er varða einkamálefni einstaklinga. Þar er um að ræða upplýsingar um kynþátt og stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverknað, upplýsingar um kynlíf og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, um félagsleg vandamál og önnur einkalífsatriði. Þessu er ég öllu sammála, að það á að vera óheimilt að skrá slíkar upplýsingar sem þarna eru tilgreindar í frv., en í síðustu mgr. þessarar frumvarpsgreinar, 4. gr.,
er þetta í reynd allt tekið til baka og opnað fyrir möguleika á að skrá nákvæmlega allar þessar upplýsingar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þótt skilyrðum 2. mgr. sé eigi fullnægt getur tölvunefnd heimilað skráningu upplýsinga þeirra er greinir í 1. mgr. ef ótvírætt er að skráningaraðila sé brýn nauðsyn vegna starfsemi sinnar að skrá upplýsingarnar. Tölvunefnd bindur heimild til slíkrar skráningar þeim skilyrðum sem hún metur nauðsynleg hverju sinni.``
    Þarna er sem sagt tölvunefnd veitt opin heimild í raun og veru til að skrá hverjar þær upplýsingar sem henni þykir henta og er hún ein um það að leggja mat á nauðsyn þess. Þetta get ég ekki sætt mig við og þess vegna flyt ég brtt. við þessa grein, 4. gr., um að 3. mgr. verði felld brott.
    Við það að fella hana brott þarf að fella niður 2. mgr. 5. gr. einnig á sömu rökum og einnig þyrfti, það sem ég sé nú að hefur fallið niður í prentun á brtt., að verða breyting á 6. gr. jafnframt þar sem segir í 3.

mgr.: ,,Tölvunefnd getur veitt undanþágu frá samtengingarbanni 1. mgr. ef fullnægt er skilyrðum þeim, sem fram koma í 2.--4. mgr. 5. gr.`` Þetta verður þá þar af leiðandi 2.--3. gr.
    Við 7. gr. legg ég einnig til breytingu sem er í sjálfu sér, má kannski segja, ómerkileg. Í fyrstu setningu þeirrar greinar segir, með leyfi forseta: ,,Heimilt er að veita lækni eða tannlækni, er hefur mann til læknismeðferðar`` o.s.frv. Þarna finnst mér nú nánast verið að segja að tannlæknar falli ekki undir lækna og alveg óþarft að taka það sérstaklega fram. Í mínum huga er tannlæknir læknir alveg eins og hver annar læknir þannig að það ætti að vera nóg að þarna stæði: Heimilt er að veita lækni, er hefur mann til læknismeðferðar, upplýsingar o.s.frv. Það er því lagt til að orðin ,,eða læknir`` falli brott úr þessari grein.
    Við 8. gr. geri ég einnig tillögu um breytingu sem felur það í sér að ef tölvunefnd þarf að gefa einhverjar viðkvæmar upplýsingar þurfi hún á dómsúrskurði að halda. Í greininni segir:
    ,,Nú sýnir tiltekinn aðili fram á að honum sé þörf á ákveðnum skráðum upplýsingum, er falla undir ákvæði laga þessara, vegna dómsmála eða annarra slíkra laganauðsynja og getur tölvunefnd þá heimilað að þeim er slíka hagsmuni hefur verði látnar upplýsingarnar í té, enda sé þá ótvírætt að þörfin á því að fá upplýsingarnar vegi þyngra en tillitið til þess að upplýsingunum verði haldið leyndum. Þetta á þó ekki við um upplýsingar sem þagnarskylda ríkir um samkvæmt sérstökum lagaákvæðum.``
    Brtt. er í þá veru að greinin orðist svo: Skráðar upplýsingar sem falla undir ákvæði laga þessara má ekki láta í té aðila sem telur sig þurfa slíkar upplýsingar vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja nema hann hafi áður aflað sér dómsúrskurðar þar um.
    Þarna er það sem sagt tekið skýrt fram að dómsúrskurð þurfi til að fá þessar upplýsingar fram.
    Við 9. gr. geri ég tillögu um að næstsíðasta orðið í 1. mgr. falli brott. Í 1. mgr. segir: ,,Telji aðili að persónuupplýsingar um hann séu færðar í
tiltekna skrá getur hann óskað þess við skrárhaldara að honum sé skýrt frá því sem þar er skráð. Er skylt að verða við þeim tilmælum án ástæðulausrar tafar.``
    Þarna geri ég tillögu um að orðið ,,ástæðulausrar`` falli brott og að skylt verði að verða við þessum tilmælum án tafar.
    Á sömu rökum og ég hef hér áður lýst með fyrstu brtt. er gerð tillaga um að seinni mgr. 9. gr. falli einnig brott.
    Í 12. gr. er gerð tillaga um að skrárhaldari skuli verða við tilmælum skráðs aðila um að senda honum ,,skriflegar upplýsingar`` í staðinn fyrir, eins og segir í frumvarpstextanum eins og hann er hér: ,,Skrárhaldari skal verða við tilmælum skráðs aðila og skýra honum frá því sem um hann er skráð`` innan tiltekins tíma. Þannig er það sem sagt gert að valkosti fyrir þann sem skráður er að hann eigi kröfu á að fá skriflegar upplýsingar um stöðu sinna mála.
    Það er einnig gert ráð fyrir að síðasta setningin

orðist svo: Skrárhaldari skal verða við tilmælum skráðs aðila um skriflegar upplýsingar og skýra honum frá efni upplýsinganna innan tveggja vikna frá því að krafa um slíkt kom fram. Þarna er gerð tillaga um að punktur verði settur og út falli þá ,,en skýra ella hinum skráða skriflega frá ástæðum þess að tilmælum hans hefur eigi verið sinnt.`` Þarna er sem sagt farið fram á að þessi setning falli út þannig að í öllum tilfellum eigi hinn skráði rétt á að fá upplýsingar um hvað um hann er skráð hjá tilteknum aðila.
    Við 16. gr. er einnig gerð brtt. Þar segir í 2. mgr.: ,,Upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust, sem eldri eru en fjögurra ára, er óheimilt að skrá eða miðla nema ótvírætt sé að viðkomandi upplýsingar hafi verulega þýðingu við mat á fjárhag eða lánstrausti hins skráða. Áður en slíkar upplýsingar eru skráðar eða þeim miðlað skal það tilkynnt viðkomandi aðila og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir innan tiltekins frests frá móttöku tilkynningar. Skal sá frestur að lágmarki vera ein vika frá móttöku tilkynningar. Beri aðili fram andmæli er skráning eða miðlun upplýsinga aðeins heimil að fengnu samþykki tölvunefndar.``
    Þarna er gerð tillaga um að 2. mgr. verði nánast öll felld út nema hluti af fyrstu setningu og mundi þá orðast svo: ,,Upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust, sem eldri eru en fjögurra ára, er óheimilt að skrá eða miðla.`` Annað félli út, enda tel ég óeðlilegt að vera að skrá slík mál sem eldri eru en fjögurra ára og eigi menn ekki að þurfa að líða fyrir fortíð sína.
    Við 17. gr. er einnig lögð fram brtt. við 1. mgr. sem hljóðar svo:
    ,,Eigi er heimilt að færa í skrá samkvæmt kafla þessum aðrar upplýsingar en nafn manns eða fyrirtækis, heimilisfang, kennitölu, nafnnúmer, fyrirtækjanúmer, stöðu og atvinnu eða aðrar upplýsingar sem hægt er að fá úr opinberum skrám án þess að skýra hinum skráða frá því.``
    Þarna er gerð tillaga um að mgr. í heild sinni orðist svo:
    ,,Eigi er heimilt að færa í skrá skv. kafla þessum aðrar upplýsingar en nafn manns eða fyrirtækis, heimilisfang, kennitölu, nafnnúmer, fyrirtækjanúmer, stöðu og atvinnu eða aðrar upplýsingar sem hægt er að fá úr opinberum skrám án``, það er breytingin: heimildar hins skráða, þannig að út falli ,,án þess að skýra hinum skráða frá því`` og inn komi: án heimildar hins skráða.
    Í 2. mgr. 17. gr. er brtt. sama eðlis þannig að sú mgr. mundi orðast svo: Ef önnur atriði en þau sem greind eru í 1. mgr. eru tekin á skrá skv. heimild hins skráða. Verið er að bæta því þarna inn í að það þurfi heimild hins skráða til þess að taka þessar upplýsingar inn á skrá.
    Við 18. gr. er bara lagfæring á málfari og ég hirði ekki um að útskýra það neitt sérstaklega. Ég hygg að þingmenn sjái það alveg.
    Við 19. gr. er gerð tillaga um breytingu á 2. mgr.,

síðustu setningunni, en hún hljóðar svo í frv.:
    ,,Áður en starfsleyfishafi birtir nafn tiltekins aðila í slíku upplýsingariti skal starfsleyfishafi að eigin frumkvæði tilkynna viðkomandi aðila skriflega um það að upplýsingar um hann muni birtast í næstu útgáfu ritsins.``
    Brtt. hljóðar upp á að nýr málsliður bætist við sem hljóðar svo: Skal slík tilkynning send viðkomandi fjórum vikum fyrir útgáfudag.
    Þarna er einfaldlega verið að gefa viðkomandi aðila ráðrúm til að laga, breyta eða gera þær ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar fyrir útgáfu tiltekins rits.
    Einnig er gerð tillaga um að 24. gr. í heild sinni verði felld út en hún tekur á markaðs- og skoðanakönnunum. Ástæðan fyrir því að gerð er tillaga um að fella þessa grein út er ekki sú að ég telji ekki nauðsynlegt að hafa lög um þennan þátt. Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég legg þetta til að ég tel að Alþingi þurfi að semja heildarlög um markaðs- og skoðanakannanir og tel því óþarft að vera með slíka lagasetningu inni í þessum lagabálki ef menn á annað borð fallast á að að setja þurfi heildarlöggjöf um þennan þátt.
    Við 27. gr. er gerð tillaga um breytingu á 2. mgr. sem orðast svo í frv.:
    ,,Skrá eða frumgögn, sem geyma upplýsingar þær sem greinir í 1. mgr. 4. gr., má eigi láta af hendi til geymslu eða úrvinnslu erlendis nema samþykki tölvunefndar komi til.`` Þarna er gerð tillaga um að fimm síðustu orðin, ,,nema
samþykki tölvunefndar komi til``, verði felld út þar sem slíkar upplýsingar eiga ekkert að fara úr landi.
    Þá er breytt til fyrra horfs eftir meðferð Ed. á frv. Síðasta mgr. 30. gr. hljóðar svo eins og frv. kemur úr meðferð Ed.: ,,Tölvunefnd er að höfðu samráði við dómsmrh. heimilt að ráða nefndinni nauðsynlegt starfslið.`` Hér er gerð tillaga um að breyta því aftur í fyrra horf þannig að síðasta mgr. orðist svo: Starfsmaður dómsmrn. skal vera ritari tölvunefndar.
    Þarna sé ég ekki ástæðu til þess að gefa ráðuneytinu opna heimild til að ráða ótiltekinn fjölda starfsmanna, sérstaklega á tímum sparnaðar og þegar við erum öll að berjast við að koma í veg fyrir frekari þenslu í ríkisbákninu.
    Síðasta brtt. sem lögð er fram er kannski ekki sú veigaminnsta. Hún er um það að koma í veg fyrir að tölvunefnd geti án nokkurrar heimildar dómsvalda ráðist inn á hvaða fyrirtæki sem er sem með þessa starfsemi fer. En í frv. eins og það liggur hér fyrir hljóðar 2. mgr. svo:
    ,,Tölvunefnd og starfslið hennar hefur vegna eftirlitsstarfa sinna án dómsúrskurðar aðgang að húsnæði þar sem skráning fer fram eða þar sem skráningargögn eru varðveitt eða þau eru til vinnslu.``
    Þetta ákvæði get ég engan veginn fellt mig við og legg til að það verði fellt niður. Það er ekki viðunandi að tölvunefnd geti haft slíka heimild að ráðast inn á fyrirtæki og inn í þeirra gögn, þeirra tölvur án þess að á undan sé genginn dómsúrskurður, enda, eins og reyndar segir í nál., þá er hér um brot á meginreglu

að ræða sem Alþingi getur alls ekki, að mínu viti, staðið að að samþykkja.
    Hæstv. forseti. Ég flyt hér fjölmargar brtt. við þetta frv. Þær eru flestar í þá veru að vernda rétt einstaklingsins. Ég leyfði mér að kalla þetta frv., eins og það liggur fyrir núna, frv. til laga um persónunjósnir og tel að ef ekki verður gerð breyting á því sé það réttnefni.