Eftirlaun til aldraðra
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Frsm. heilbr.- og trn. (Geir Gunnarsson):
    Herra forseti. Heilbr.- og trn. hv. deildar hefur fjallað um frv. til laga um eftirlaun aldraðra, nr. 2/1985. Í frv. er gert ráð fyrir að ákvæði laganna um eftirlaunagreiðslur, sem áttu að falla niður um næstu áramót, verði framlengd til 1. janúar 1992 jafnframt því sem kostnaðarskiptingu milli lífeyrissjóða annars vegar og hins opinbera hins vegar verði breytt, þ.e. að framlög sjóða verkalýðsfélaga til greiðslu verðtryggingar skv. I. kafla laganna og framlög annarra til greiðslu eftirlauna skv. II. kafla laganna verði lækkuð í áföngum á tveimur árum.
    Nefndarmenn urðu sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt óbreytt. Þó að hér sé lagt til að gildistími laganna verði framlengdur í tvö ár enn eru nefndarmenn sammála um að brýnt sé að ekki þurfi að bíða svo lengi eftir nýrri lagasetningu varðandi heildarendurskoðun lífeyrissjóðakerfisins og að samræmdu lífeyriskerfi allra landsmanna hafi verið komið á áður en nýr gildistími þessara laga rennur út.
    Nefndarmenn leggja því í nál. áherslu á að hraðað verði vinnu við lagafrv. um framtíðarskipan þessara mála.