Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu um aðgerðir til aðstoðar loðdýrabændum er góðra gjalda vert en það veitti hins vegar ekki af að fara svipaðar leiðir fyrir aðrar atvinnugreinar sem álíka er statt um, að ég tali nú ekki um heimilin í landinu sem er hins vegar annað mál.
    Ég mæli hér fyrir brtt. sem ég hef lagt fram á þskj. 281 ásamt hv. þm. Kristni Péturssyni sem gerir ráð fyrir að 2. mgr. 1. gr. orðist svo:
    ,,Lánin skulu veitt til fimmtán ára, verðtryggð með lánskjaravísitölu. Endurgreiðslutími lánanna skal vera tólf ár.``
    Breytingin felur það í sér að vaxtaþættinum er kippt þarna út og lánin höfð án vaxta og aðeins verðtryggð með lánskjaravísitölu.
    Ástæðan fyrir því að við leggjum þetta til er sú að okkur virðist að ríkisstjórnin sé með þessum aðgerðum að viðurkenna vanda þessara greina og viðurkenna þá miklu neyð sem greinin er í í dag og þykir því í raun siðlaust með öllu að ætla sér að hagnast um leið á greininni með því að taka af lánunum vaxtatekjur. Það er skýringin á því að við leggjum þessa brtt. fram og vonumst að sjálfsögðu eftir því að þingheimur og vinir loðdýraræktar í landinu taki undir hana.