Bifreiðagjald
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Þessi hækkun sem hér er lögð til kemur svo sem engum á óvart, allra síst þingmönnum sem hafa gert sér grein fyrir því að þessi ríkisstjórn er úrræðalaus þegar um ríkisfjármál er að ræða og einu úrræðin sem hún sér í því stjórnleysi sem ríkir í ríkisfjármálunum er að hækka skatta.
    Sú hækkun sem hér er boðuð er að vísu ekki nema 84% og þykir fjmrh. ábyggilega mjög lítið. Ég geri ráð fyrir að hæstv. fjmrh. hefði heldur viljað fara yfir 100% því að allir sjá að 84% er ekkert mjög mikið þegar hæstv. fjmrh. á í hlut. Það er gleðilegt til þess að vita að hæstv. fjmrh. skuli hafa skilning á því að auðvitað þarf að passa að fólkið í landinu fari sem allra minnst á milli húsa. Til þess hefur hann þau ráð að skattleggja hest nútímans, bifreiðina, nógu mikið. Nú nema skattar á bifreiðar, skv. þeim fjárlögum sem liggja fyrir og þeim frumvörpum sem liggja hér fyrir, um 7,6% af áætluðum sköttum sem ríkisstjórnin elskuleg er að leggja á þjóðina. Þessi skattur bitnar sem betur fer sérstaklega á láglaunafólkinu og ég veit að það er ætlun ríkisstjórnarinnar. Hún ætlar auðvitað að leggja á láglaunafólkið því að hún ber það alveg sérstaklega fyrir brjósti að láglaunafólkið hafi ekki möguleika á því að eiga bíl. En allir vita að með því að leggja þetta bifreiðagjald á, sem hækkar hér um 84%, þá leggst það jafnt á þá sem eiga ódýra bíla og þá sem eiga dýra bíla, þá sem eru tekjulágir og þá sem eru tekjuháir og þá sem keyra mikið og þá sem nota bílana lítið. Það er því þversögn í þessum sköttum.
    Í fjárlögunum er gert ráð fyrir að þessi skattur verði 940 millj. en í fskj. með þessu frv. telur hæstv. fjmrh. að hann verði 1290 millj. Ekki stemma nú þessar tölur. En raunin er sú að miðað við álagningu á bensíngjaldi í ár þýðir þetta að bensíngjaldið fer í 1480 millj. Er sem sagt að verða 1 1 / 2 milljarður. Og það er athyglisvert að þessi breyting skuli koma fram með tvennum hætti. Í fyrsta lagi, eins og hv. 1. þm. Vestf. kom hér inn á áðan, er með þessu verið að komast hjá því að þetta fé renni í Vegasjóð. Í öðru lagi hefur þetta vakið tvær spurningar, og nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hvort og þá hvaða áhrif hefur álagning bifreiðagjalds á vísitöluna? Bið ég hann vel að taka eftir því. Og hvaða áhrif hefur niðurfelling söluskatts eða virðisaukaskatts á næsta ári á tryggingagjaldi bifreiða á útreikning lánskjaravísitölu, þýðir þessi hækkun að lánskjaravísitalan breytist eður ei?
    Nú veit ég náttúrlega að hæstv. ráðherra á erfitt með að hlusta. En ég vonast samt til að hann hafi heyrt þetta og gefi skýr svör hvort þetta hefur áhrif á vísitöluna því að mér þykir nokkuð ljóst að hér sé líka einhver vísitöluleikur á ferðinni.
    Þá komum við að því að hæstv. ráðherra þykist ætla að draga úr áhrifum mengunar með því að leggja á skatta. Skattlagning hefur að sjálfsögðu engin áhrif

á mengunina. Annað mál er að sú spurning hefur vaknað hvort ekki ætti að kalla þessa ríkisstjórn mengunarríkisstjórn sem mengar allt með sköttum og eykur nú skattbyrði, sérstaklega láglaunafólksins, með hverju frv. á fætur öðru.
    Það er því ekki á bætandi þegar þetta bifreiðagjald er lagt á því þeir sem eiga ódýrustu bílana standa frammi fyrir því að þeir eru oft einnig töluvert þyngri en sambærilegir bílar frá Japan, t.d. ódýrir bílar eins og Lada, sem er mest selda bifreið landsins, er þung bifreið miðað við stærð og á hana leggst auðvitað meiri skattur en ella. Og það að leggja 84% aukaskatt á einu bretti sýnir að þessi ríkisstjórn hefur hugsað sér að gera fólki nánast ókleift að eiga bifreiðar, sérstaklega lágtekjufólki.
    Að lokum vil ég ítreka fyrirspurn mína til hæstv. ráðherra. Hvaða áhrif hefur niðurfelling söluskatts, væntanlegs virðisaukaskatts, á tryggingagjöld bifreiða, á útreikning lánskjaravísitölu og hvaða áhrif hefur álagning bifreiðagjalds á þessa sömu vísitölu?