Bifreiðagjald
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. sem hér er til umræðu. Kannski er ekki mjög miklu við það að bæta sem þegar er komið fram. Hins vegar er það mín skoðun að þessi skattur sé mjög óréttlátur og leggist mjög ójafnt niður á fólk eins og bent hefur verið á. Hér er verið að hækka skatt um 84% og leggja kílóagjald á bifreiðar. Ég tel að hér sé fylgt hættulegri stefnu. Það mætti nefna það neyslustýringu. Það er verið að stýra fólki væntanlega út í léttari bifreiðar. Léttari bifreiðar þýða í mínum huga um leið hættulegri bifreiðar og þá vil ég kalla slíka stefnu hættulega stefnu.
    Ég fæ ekki séð að þetta komi til móts við barnmargar fjölskyldur. Sjálfur er ég einn af þeim sem teljast eiga vel yfir meðallagi af börnum og þarf allstóran bíl til að rúma mína fjölskyldu. Það þýðir að þessi skattur verður ekki undir 10 þús. kr. á slíkan bíl hvort sem hann er nýr eða gamall, það skiptir að sjálfsögðu engu.
    Lögð var fram athyglisverð spurning fyrir hæstv. fjmrh. um hvort þessi skattahækkun spilaði inn í vísitölur, hvort hún kæmi inn í framfærsluvísitölu og þá þar af leiðandi inn í lánskjaravísitölu. Væri athyglisvert að fá svar við þeirri spurningu og ef svo er, hversu þungt skatturinn kæmi til með að leggjast á þær vísitölur. Ég vil hins vegar gæta fyllstu sanngirni og segja að í vissum tilfellum getur þetta náttúrlega leitt til léttari byrðar hjá ákveðnum aðilum. Ef maður horfir til þess að söluskattur er felldur niður af tryggingariðgjöldum, þá getur það í ákveðnum tilfellum leitt til léttari byrðar á fólk. Það er alveg sjálfsagt og sanngjarnt að það komi líka fram að það er kannski ekki allt vont í þessu. Hins vegar er ekki hægt að réttlæta kílóaskatt á bifreiðar. Eins og ég segi eru þær mjög misjafnlega úr garði gerðar nema stefnan sé þá sú að stýra fólki út í léttari og um leið hættulegri
bíla.
    Ég vil lýsa andstöðu minni við þetta frv. og tel að ekki eigi rétt á sér að fara þessa leið í skattlagningu.