Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Ragnhildur Helgadóttir (frh.) :
    Herra forseti. Það litla sem ég átti eftir af máli mínu í þessari ræðu var í fyrsta lagi fyrirspurn til hæstv. ráðherra Hagstofu og eftir atvikum hæstv. forsrh., þar sem hvorki hæstv. samgrh. né heldur hæstv. sjútvrh. eru hér staddir.
    Ástæðan til þess að ég nefni þá ráðherra er útvarpsfrétt kl. 7 í fyrrakvöld, þar sem hæstv. ráðherra Hagstofu greindi frá því að þann dag síðdegis hefðu átt sér stað viðræður milli hans og sendiherra Bandaríkjanna, og einhverra fleiri væntanlega, um hugmyndir sem Bandaríkjamenn hefðu vakið máls á um stofnun alþjóðlegrar mengunarrannsóknastöðvar hér á landi og virtist af fréttinni sem sú stöð ætti fyrst og fremst að annast rannsóknir í sjó.
    Þarna er hreyft stórmáli sem vitanlega getur haft mjög mikla þýðingu fyrir okkur Íslendinga, þar sem við höfum vafalaust tök á því að leggja fram verðmæta vinnu og aðstöðu vegna þess hvernig landið liggur í hafinu. En það einkennilega var að hæstv. ráðherrar sáu enga ástæðu til þess í umræðum um umhverfismál þennan sama dag að greina Alþingi frá þessu.
    Ég tel að hér sé um svo stórt og mikilvægt mál að ræða að alþingismenn eigi á því eðlilegan rétt að hæstv. ráðherrar skýri þetta mál fyrir því, greini frá því hvað hér er um að vera og þá þess heldur þegar það kemur upp á þeim tíma sem verið er að fjalla um umhverfismál hér á Alþingi. Þess vegna vil ég nú biðja um skýringar á þessu máli.
    Og það leiðir hugann að þeim kafla sem ég átti eftir í ræðu minni og ætlaði reyndar ekki að fara mjög mörgum orðum um þótt mikilvægur væri, en það var einmitt sá þáttur mengunarmála sem varðar eftirlit með mengun í sjó og við strendur landsins og á fiskimiðum og öll þau mikilvægu störf sem við höfum með höndum í því sambandi og höfum líka reyndar skuldbundið okkur til þess að hafa með höndum í alþjóðlegu samstarfi. Allt eru þetta auðvitað þættir sem alls ekki verða ofmetnir að mikilvægi. En engu að síður er það svo að mér virðist augljóst að þeim verður ekki á neinn veg betur borgið þótt stofnað verði sérstakt umhverfisráðuneyti. Þeir sem reynsluna hafa af þessum störfum eru í stofnunum sem mestan part heyra undir sjútvrn. og raunar líka undir samgrn. Þátttaka í vissum alþjóðlegum samningum um varnir gegn mengun í sjó, varnir gegn olíumengun og slík atriði hefur skipst milli þeirra ráðuneyta en vitanlega er þar um mjög skyld mál innbyrðis að ræða. Það sem skiptir máli er að gera þeim stofnunum sem þessum störfum sinna betur kleift að sinna verkefnum sínum þannig að árangur verði af. Og það er, þótt hversdagslegt sé að segja það, fyrst og fremst spurning um fjármuni. Þess vegna held ég að það greiði ekki fyrir þeim málum sem þurfa fyrst og fremst aukið fjármagn, að til mengunarmála sé aðallega varið fjármagni til þess að stofna nýtt ráðuneyti og nýjar skrifstofur.
    Ég vil því ítreka það sem ég setti fram í ræðu

minni, öðrum köflum ræðu minnar um þetta mál, að ég vænti þess að nú þegar málinu hefur verið vísað til nefndar gefist nefndarmönnum tækifæri til að leysa það með öðrum hætti og þá ekki síst stjórnarsinnum sem hafa bundið sér þann bagga að koma þessum málum áfram til þess að tryggja þátttöku tiltekins flokks í ríkisstjórninni. Ef þeir telja þá þátttöku lífsnauðsynlega þá þurfa þeir að finna annað ráð en stofnun sérstaks ráðuneytis umhverfismála.
    Hæstv. ráðherra Hagstofu benti sjálfur á það hér í umræðunni í fyrradag að Norðmenn t.d. hugleiddu mjög stofnun sérstaks ráðuneytis þróunarmála. Ég segi ekki að það sé tilefni til þess að búa til sérstakt ráðuneyti af því tagi en það væri auðvitað ekki útilokað að hægt væri að sameina þróunarmál öðrum málum sem hæstv. ráðherra Hagstofu hefur með höndum. Og enn fremur eru sumir ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn sem hafa með höndum tvö ráðuneyti og væri þá sýnu skynsamlegra að skipta einhverju þeirra verkefna í staðinn fyrir að búa til þessa silkihúfu sem síst verður til að þoka umhverfismálum til meira nútímahorfs og er einmitt á þann veg sem flestir núna mæla með að hverfa frá. Það er þetta sem ég tel að skipti mestu máli í þessu sambandi.
    Nú veit ég að hæstv. ríkisstjórn hefur vafalaust verið í þeim stellingum að reikna alls ekki með því að við værum að koma með málefnalegar hugmyndir í þessu máli heldur séum við fyrst og fremst að gagnrýna þær aðferðir sem hafðar voru við stækkun ríkisstjórnarinnar. Vissulega erum við að því. Vissulega erum við að setja fram þá gagnrýni, en hér er um svo stórt málefni að ræða, burt séð frá því hvernig ríkisstjórnin er samansett. Hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur heldur til langrar framtíðar, ætla ég. Og það er ekkert smámál að breyta lögunum um Stjórnarráð Íslands. Þess vegna er það sem við höfum talið okkur skylt að koma með málefnalegar ábendingar um umhverfismál, um fyrirkomulag umhverfismála og um áhersluatriði og samræmingaratriði. Og þess vegna var það sem ég taldi mér skylt, og þá þess heldur að hæstv. heilbrrh. var fjarverandi þessa umræðu, að greina frá ráðstefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Evrópusvæðisskrifstofunnar, sem haldin var með þátttöku heilbrigðismálaráðherra og umhverfisráðherra aðildarríkjanna
32 að tölu. Þar var megináhersluatriðið og ástæðan til þess að sameiginleg ráðstefna með þessum ráðherrum var haldin sú að nauðsyn er talin bera til að sameina þessa tvo málaflokka sem allra mest og helst undir einni stjórn. Það liggja fyrir niðurstöður mikillar vinnu og mikilla athugana á þessum málum og ég leyfi mér að hvetja til þess að hv. nefnd sem fær þetta mál til athugunar skoði þau atriði.
    Ég held þess vegna að það kunni að vera rétt sem hæstv. ráðherra Hagstofu sagði í viðtali við dagblaðið Tímann í gær, og haft var eftir honum og vakin var athygli á hér í umræðum utan dagskrár eða um þingsköp af hv. 5. þm. Vesturl., að það kunni að líða og bíða þangað til þetta mál verður afgreitt. En hitt

þykir mér alvarlegra að hæstv. sá hinn sami ráðherra virðist ekki hafa af því minnstu áhyggjur, enda hafi hann erindisbréf upp á annað, hann hafi erindisbréf upp á umhverfismálin. Þetta hefur orðið mér dálítil ráðgáta því að ég veit ekki hver gefur út erindisbréf handa ráðherrum. Ég hef ekki enn þá heyrt þann ráðherra nefndan í Íslandssögunni sem starfar upp á erindisbréf. Það eru allt annars konar pappírar sem ráðherrar fá þegar þeir eru skipaðir til starfa sinna. Og erindisbréf ráðherra þykir mér satt að segja frá stjórnlagalegu sjónarmiði, ef ég má svo segja, svo forvitnilegt plagg að mér þætti gaman að sjá ljósrit af slíku skjali. Það gæti kannski orðið til athugunar t.d. ungum stúdentum sem eru að velta fyrir sér stjórnskipunarrétti. Og enn þá meiri ráðgáta hvernig hann getur orðið að lögformlegri aðferð í stjórnskipan ríkisins og í Stjórnarráðinu. Vitanlega er þetta rangt og vitanlega er þetta ekki heimilt þannig að það veiti rétt sem ráðuneyti væri. Þess vegna er það að finna verður lagalega rétta lausn á þessu máli. Við vefengjum það auðvitað ekki að það er ekkert við það að athuga nema síður sé að hæstv. ráðherra sé ráðherra Hagstofu, en okkur þykir það ekki vera rétt umgengni við lögin í landinu að viðkomandi ráðherra sé umhverfismálaráðherra án umhverfisráðuneytis. Það þykir okkur í hæsta máta gagnrýnivert og okkur þykir það sérkennilegt að hæstv. forsrh. skuli láta það viðgangast.
    Herra forseti. Ég hef ekki tilhneigingu til að flytja lengra mál um þetta efni að sinni. Ég geri ráð fyrir því að það fái ítarlega og faglega umfjöllun í nefnd og að þá muni umsagnir koma fram um þetta efni. Reyndar hafa einhverjar umsagnir e.t.v. borist óumbeðnar. Og svo mikið er víst að samkvæmt fylgifrv. stjórnarráðsfrv. eru ýmsir þeir sem eiga að heyra undir nýja ráðuneytið, ef frv. verður samþykkt, afar óánægðir með það og telja fyrirkomulagið óráðlegt, enda eru þar mikilvægustu þættirnir í náttúruverndarmálum, í umhverfismálum sem varða ræktun og bætur á landinu sjálfu undanskildir. Og auk þess er afar torskilið hvernig það má verða að eitt ráðuneyti eigi að hafa eftirlit með gerðum annars ráðuneytis. Það hljóta að verða einkennilegar framkvæmdir í því sambandi og hætta á árekstrum. En auðvitað verðum við að gera málin þannig úr garði að svo sem verða má verði komið í veg fyrir árekstra sem gætu orðið þá málunum til tjóns.
    En, herra forseti, meginatriðið er þetta: Við viljum leggja stóraukna áherslu á vernd umhverfis og vernd þeirra þátta í umhverfinu sem varða heilsu manna, sem varða gæði þessa lands og auðlindir þess og nýtingu þeirra og afkomu fólksins í landinu. Við teljum að það verði ekki gert með því að stofna sérstakt umhverfisráðuneyti. Við teljum að það sé miklu skynsamlegra að þessir þættir dreifist inn í allt stjórnkerfið á þann veg að það komi sem allra næst þeim sem málið snertir hverju sinni í stað þess að blanda öllum þessum ólíku þáttum saman og einangra þá í sérstöku ráðuneyti.