Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil fá að byrja á því að þakka hæstv. ráðherrum fyrir að vera nú loksins viðstaddir þessa umræðu. En eins og öllum er orðið ljóst, bæði þingmönnum og alþjóð, hefur þessi umræða dregist allverulega og fyrst og síðast vegna fjarveru þessara hæstv. ráðherra sem hér heiðra okkur með nærveru sinni. Stjórnarliðar hafa engu að síður verið ansi duglegir við það að reyna að koma sökinni yfir á stjórnarandstöðuna og reyna að telja fólkinu í landinu trú um að stjórnarandstaðan sé hér með málþóf, sem er alrangt. Hér hafa verið fluttar mjög málefnalegar ræður, einstaka ræður kannski nokkuð langar, enda er hér um mjög mikilvægt málefni að ræða sem þarf að fjölyrða um og getur orðið langt mál. Ég vísa því algjörlega á bug fullyrðingum eins og t.d. hæstv. hagstofuráðherra í einu ágætu dagblaði í gær þar sem hann fullyrðir að um málþóf sé að ræða, og jafnframt því, sem hæstv. forseti Sþ. lýsti yfir að væri með öllu tilhæfulaust, að þing mundi standa hér fram eftir janúarmánuði ef þetta ákveðna mál hefði ekki hlotið afgreiðslu fyrir þann tíma.
    Nú skilst mér að það hafi verið viðtal við ráðherrann í sjónvarpinu í kvöld. Ég sá það nú ekki en heyrði að þar hefði ráðherrann lýst því yfir að ef þetta frv. yrði ekki orðið að lögum um áramót, þá mundi hann taka til sinna ráða. Eitthvað á þann veg ku hann hafa svarað fréttamanni og þá er náttúrlega afar forvitnilegt fyrir þingheim að fá upplýsingar um það til hvaða ráða hæstv. ráðherra ætlar að grípa.
    Í fyrri ræðu minni fjallaði ég efnislega um þetta frv. og tel mig ekki þurfa að gera það aftur í þessum umgang. Það gefst tækifæri til þess aftur eftir afgreiðslu í nefnd. Í þeirri ræðu fór ég yfir fjölmargar umsagnir sem höfðu borist sem leiddu það skýrlega í ljós að það er verulegur ágreiningur um þetta mál innan stofnana og ekki síður innan ráðuneyta þannig að það er alveg augljóst mál að ekki er samstaða um það, ekki einu sinni hjá stjórnarliðum, að setja þetta ráðuneyti á laggirnar.
    Það er hins vegar athyglisvert að verða vitni að því að hér talar ekki einn einasti stjórnarliði. Hér í salnum þessa stundina situr enginn stjórnarliði að undanskildum hæstv. ráðherrum og virðast þeir vera algjörlega múlbundnir og tunguheftir og mega alls ekki tjá sig. Það hefði að sjálfsögðu verið forvitnilegt fyrir þingheim að fá að heyra skoðanir þingmanna annarra flokka, Borgfl. t.d. annarra en hæstv. ráðherra, svo maður minnist ekki á Alþfl., en mér hefur heyrst á samtölum við ýmsa þingmenn að þeir séu ekki par hrifnir af þessu frv., enda ekki von því að hér erum við að ræða sennilega eitt það dýrasta þingskjal sem lagt hefur verið fram í langan tíma, ef ekki bara í þingsögunni. Þarf ekki annað en líta til reynslu annarra þjóða því til vitnis því að umhverfisráðuneytin hafa alls staðar haft tilhneigingu til þess að þenjast út og verða að gríðarlega stóru og dýru bákni. Og það er ekki vafi í mínum huga að svo verður einnig hér. Það er sem sagt ljóst að hér er um sérlega dýrt þskj.

að ræða sem á eftir að verða mjög íþyngjandi fyrir alla þjóð og skattþegna landsins, enda er alveg ljóst að það eru miklar umræður eftir um þetta mál þó að þær færist sjálfsagt út úr deildinni núna í kvöld og inn í nefnd. En það er ljóst að nefndin á mikið starf eftir og á þeim stutta tíma sem eftir lifir af þingi áður en það fer í jólafrí er alveg einsýnt að það næst ekki að afgreiða það þar út. Það er því deginum ljósara að þetta sérstaka ráðuneyti verður ekki komið á laggirnar fyrr en í fyrsta lagi einhvern tíma í febrúar eftir að þing hefur hafið störf
að nýju eftir jólaleyfi og þess vegna eitthvað aðeins seinna. Hins vegar er ég í engum vafa um það að hæstv. hagstofuráðherra verður að ósk sinni. Hann á eftir að verða umhverfisráðherra Íslands, sá fyrsti, og þegar að því kemur mun ég verða fyrsti maður til að óska honum til hamingju með það nýja starf og velgengni í því starfi.
    Talandi aðeins meira um þá töf sem hefur verið á þessum umræðum, þá er fróðlegt að rifja það upp að í síðustu viku var ekki hægt að halda hér fund vegna þess að hæstv. hagstofuráðherra taldi afar brýnt að fara á fund um heilbrigðismál í Frankfurt þar sem fjalla átti um heilbrigðismál og tengingu þeirra við umhverfismál. Reyndar sagði hæstv. hagstofuráðherra þegar hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir var að inna hann eftir þessu atriði og fara fram á að fá hæstv. heilbrrh. hér í umræðurnar að þessi fundur úti í Frankfurt gæfi ekki tilefni til þess að tefja umræðu um þetta mál. Engu að síður hafði hann lýst því yfir að þetta hafi verið afar lærdómsríkur fundur og sjálfur hafði hann þá talið nauðsynlegt að tefja þessa umræðu um nokkra daga með því að fara.
    Hæstv. ráðherra vildi ekki deila þessum lærdómi neitt með þingheimi. Hann hlýtur að vera að tala um það að hann hafi verið lærdómsríkur hvað varðar umhverfisþáttinn. Það hlýtur þá einnig að vera krafa okkar hér að við fáum að njóta þess lærdóms sem hæstv. ráðherra drakk í sig úti í Frankfurt um daginn og hann gerir okkur væntanlega grein fyrir því hér á eftir í ítarlegu máli hvað var svona gríðarlega lærdómsríkt í Frankfurt. Að sjálfsögðu skil ég að það er gaman að ferðast og allt slíkt. En ráðherrann hefur ekki neina heimild
til þess að sitja einn inni með þennan lærdóm sem við urðum þó að borga fyrir að senda hann út til að sækja. Og ef þar kemur fram jafnáríðandi innlegg í þessa umræðu þá er það skilyrðislaus skylda ráðherra að gera þinginu grein fyrir því.
    Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir kom hér inn á það erindisbréf sem hæstv. ráðherra virðist hafa upp á vasann. Mér hefur nú virst að það gilti eingöngu erlendis. Margsannað er að við höfum þegar umhverfisráðherra er gegnir sínum skyldum erlendis en það gegnir öðru máli hér heima, enda bregst það ekki að ef samkomulag þarf að hafa við útlönd, þá er undirritað sem umhverfisráðherra, það er farið á mælendaskrár sem umhverfisráðherra og fölsunin virðist halda áfram í hvert skipti sem tækifæri gefst.
    Það væri reyndar fróðlegt að heyra svör annarra

ráðherra um það hvort þeir séu búnir að afsala sér öllum umhverfisþáttum sinna ráðuneyta yfir til hæstv. hagstofuráðherra út af þessu erindisbréfi. Annað kemur reyndar í ljós þegar umsagnir um frv. eru lesnar. Þá er mikil andstaða við að færa ákveðna þætti yfir til þessa ráðuneytis.
    Það var einnig afar athyglisvert að þegar ráðherra steig hér í ræðustól síðast þegar þetta mál var til umræðu þá hafði hann nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut til umræðunnar að leggja, ekkert annað en segja okkur það að hann hefði verið í mjög lærdómsríkri ferð og það er sú ferð sem ég krefst þess að þingið fái að heyra um.
    Við 1. umr. þegar ég flutti mína fyrri ræðu, en það er orðið það langt síðan að ég man nú ekki lengur hvenær það var, sennilega fyrir einum fjórum til sex vikum síðan, þá spurði ég báða hæstv. ráðherra spurninga sem ég óskaði eftir að fá svör við. Þær voru byggðar mikið á þeim umsögnum sem höfðu borist. Þannig spurðist ég fyrir um það hvers vegna Ísland hefði ekki átt fulltrúa á sérstökum fundi sem haldinn var 26. okt. 1987 þar sem mættir voru umhverfisráðherrar EFTA- og EB-landanna á sameiginlegum fundi þar sem öll lönd mættu nema Ísland eitt sem sendi ekki fulltrúa þangað. Þetta er spurning sem væntanlega hæstv. forsrh. getur svarað. Í öðru lagi spurði ég hæstv. forsrh. hvernig samstarfi við sveitarstjórnirnar í landinu hefði verið háttað og hvort frv. þetta væri í fullu samráði vð sveitarstjórnirnar. Og í þriðja lagi, og það sem mér finnst kannski aðalspurningin, eftir að hafa gluggað í umsagnir frá Félagi ísl. náttúrufræðinga sem ég tel að séu aðilar sem ættu að hafa eitthvert vit á umhverfismálum, en þar sagði og ég ætla að fá að vitna í þeirra umsögn á ný, með leyfi forseta:
    ,,Ekki kemur fram í plöggum þeim sem Félagi ísl. náttúrufræðinga hafa borist að umhverfi sé skilgreint í frumvarpi, reglugerð né greinargerð. Þetta þarf þó að gera því að ekki er hægt að taka upp nýtt stjórnsýslusvið nema það hafi skilgreint viðfangsefni. Því fylgir að ekki er á rökrænan hátt hægt að tilgreina málaflokka þá sem undir umhverfisráðuneytið skulu heyra nema umhverfi og umhverfismál séu áður skilgreind á fullnægjandi hátt.
    Félag ísl. náttúrufræðinga telur einnig að gera verði grein fyrir öflun og meðferð umhverfisþekkingar, en án hennar verði stjórnun umhverfismála ógerleg.``
    Þetta þykja mér mjög veigamiklar spurningar og ef hæstv. ráðherra, sem vinnur nú að stofnun þessa ráðuneytis, getur ekki svarað þessum spurningum, þá er hann alls ekki tilbúinn og alls ekki fær um að taka við þessum málaflokki. Þess vegna krefst ég þess að fá svar við því hvort þetta stjórnsýslusvið hafi verið skilgreint. Það er alveg afdráttarlaus skoðun Félags ísl. náttúrufræðinga að það sé ekki hægt að fara út í þetta ráðuneyti án þess að skilgreina það.
    Í umsögn félmrn., sem er öll hin jákvæðasta, er bent á að sveitarfélög muni eftir sem áður vilja hafa sjálf forræði yfir skipulagsmálum, enda eru skipulags- og byggingarmál eitt af þeim verkefnum sem talin eru

upp sem verkefni sveitarfélaga. Hið nýja ráðuneyti á hins vegar að fara með þennan málaflokk skv. 3. tölul. hinnar nýju 13. gr. Ég vil hins vegar inna hæstv. ráðherra eftir því enn á ný hvernig þeir sjái þennan þátt fyrir sér og á hvern hátt þeir sjái samstarfið við sveitarfélögin í landinu hvað skipulagsmál varðar.
    Hæstv. forseti. Ég hef rifjað hér upp aðeins örfáar af þeim spurningum sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra. Ég ítreka það að fá svör við spurningum Félags ísl. náttúrufræðinga og ég ítreka það að þingið á heimtingu á því, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra frestaði hér umræðunni í langan tíma til þess að sækja mikilvægar upplýsingar um umhverfismál til Frankfurt, að hann geri þinginu grein fyrir þessum upplýsingum því að þær hljóta að vera mjög mikilvægar inn í þessa umræðu.
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa lengra mál um þetta. Ég tel að ekki þurfi að hafa fleiri orð um þetta að þessu sinni, að því tilskildu að hæstv. ráðherrar svari. En ég ítreka að það er mikil vinna eftir í þessu máli og nefndin sem ég á sæti í mun vissulega gefa sér þann tíma, enda ábyrg nefnd þar að störfum og hún mun kalla til alla þá aðila sem til þarf.
    Og rétt í lokin áður en ég stíg úr þessum ræðustól minni ég á að það væri
afar fróðlegt að vita til hvaða ráða hæstv. ráðherra ætlar að grípa ef ráðuneytið verður ekki komið á laggirnar um áramót.