Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Manni finnst fjölgun ráðuneyta eins og nú horfir í fjármálum ríkisins vera hálfgert öfugmæli. En það má kannski segja að það sé árangur af þeim hrossakaupum sem hér fóru fram sl. sumar þegar menn keyptu sér ráðherrastóla á kostnað skattborgaranna.
    Ég átti sæti í nefnd í fyrra sem fjallaði um þær hugmyndir sem þá voru uppi og þá var hugmyndin að stofna einhvers konar útibú frá forsrn. í einum grænum til þess að umhverfismál mættu stjórnast sem einhvers konar deild úr forsrn. Það komst nú ekki í gegn og átti að gera þetta með miklum göslaragangi eins og oft er. Í þeirri nefnd óskaði ég eftir því að búið yrði til skipurit yfir stjórnkerfið og ætla ég að ítreka þá ósk mína hér að slíkt skipurit verði búið til þannig að það sé alveg ljóst að nýtt umhverfisráðuneyti skarist ekki við starfsemi annarra ráðuneyta og ekki sé verið að búa hér til árekstra í stjórnkerfinu. Nógu rugluð er hún samt, stjórnunin á landsmálum þó að það sé ekki farið að göslast með eitt ráðuneyti sem spannar inn á svið ótal annarra. Hvernig verður þá að stjórna?
    Það ætti nú að vera auðvelt fyrir þá tvo hæstv. ráðherra sem hér eru nú að kaupa sér ráðgjafarþjónustu því að þeir eru báðir verkfræðingar og kunna eitthvað fyrir sér á því sviðinu. Hvernig væri að kaupa þjónustu hjá einkageiranum í sambandi við endurskipulagningu á stjórnkerfinu úr því að það á að fara í þetta á annað borð? Það er glöggt gests augað, að sagt er, og mér finnst það hallærislegt þegar kerfið er að naflaskoða sjálft sig. Það er líka brýn ástæða til þess að löggjafar- og framkvæmdarvald efli tengsl sín við atvinnulífið í landinu með því að skipta meira við einkaframtakið og fá þjónustu hjá verkfræðistofum úti í bæ nema menn þori hreinlega ekki að hleypa verkfræðistofum inn í þetta óskipulag, þori ekki að láta það verða uppvíst hvers konar stjórnun það er. Ég held einmitt að það sé brýn ástæða til þess að bæði framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið kaupi meiri þjónustu hjá einkageiranum.
    Ég sagði hérna fyrr í kvöld að Flugleiðir hefðu þorað að kaupa ráðgjöf hjá erlendu fyrirtæki til að endurskipuleggja sinn rekstur og þess vegna ætti ríkisstjórnin ekki að vera neitt feimin við að kaupa ráðgjafarþjónustu hjá einkafyrirtækjum. En það er nú einu sinni þannig að kerfiskarlarnir vilja bara ráða þessu og að því er manni virðist er það þeirra lag á löggjafarvaldinu að slengja hérna málum inn rétt fyrir jól, páska eða þingslit á vorin og reyna að troða þeim í gegn á sem skemmstum tíma til þess að breytingarnar verði sem minnstar þannig að þeir fái nú ráðið öllu og völdin verði örugglega á réttum stöðum. Því eins og nú er fram undan rétt fyrir jól á að fara að troða með offorsi hverri hroðvirkninni á fætur annarri hér í gegnum löggjafarvaldið með því að stjórnarmeirihlutinn er notaður eins og tuskubrúður til þess að rétta upp hönd eftir pöntun.

    Ég held að það væri mjög brýnt að nefndir þingsins reyndu að auka sjálfstæði sitt og kaupa ráðgjöf hjá verkfræðistofum, sem eru margar hverjar mjög virtar, til þess að fá hlutlausan aðila til að skoða málin. Það er raunverulega hálfnöturlegt að horfa á það að frumvörp eru samin af kerfiskörlum í ráðuneytum og síðan er þessu vísað til nefndar. Og svo koma umsagnaraðilarnir og hverjir eru það? Það eru sömu mennirnir og sömdu þetta. Hæstv. ráðherrar sem eru verkfræðingar, eins og ég sagði áðan, ættu að kunna skil á því að skoða málin betur þannig að það komi hlutlaus umsögn og höfundarnir séu ekki að gefa umsögn um sjálfa sig undir einhverjum þrýstingi.
    Þetta eru óþolandi vinnubrögð og kannski snýst þetta allt um sömu sýndarmennskuna, að þykjast vera að gera einhverja sniðuga hluti. En það að vera ráðherra eiginlega án ráðuneytis, fyrir flokk án kjósenda, í ríkisstjórn án fylgis, það er eiginlega varla hægt að komast hærra í metorðastiga sýndarmennskunnar. Manni dettur stundum í hug þegar krakkarnir eru að leika sér í þykjustunni að horfa á svona sýndarmennsku þegar á að gera allt með gösli. Auðvitað þurfa lög um Stjórnarráð Íslands mikillar vandvirkni við eins og þessum tveimur hæstv. ráðherrum sem hér eru, sem eru báðir verkfræðingar eins og ég áður sagði, ætti að vera vel ljóst. Og með hagræðingu í huga, með tilliti til vandræðagangsins í sambandi við peningamál ríkisins, þá er ekki mikil hagræðing í því að fjölga ráðuneytum og væri nær að fækka þeim.
    En ég vil ítreka það að umhverfisverndarmál þarfnast ekki hroðvirkni heldur vandvirkni og ég skora á nefndarmenn í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar að hvika hvergi með það að láta gera skipurit af stjórnkerfinu.