Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 13. desember 1989


     Ólafur G. Einarsson:
    Það er langt liðið á kvöld og ég skal ekki flytja hér langt mál. Þar fyrir utan höfum við sjálfstæðismenn sérstaklega verið ásakaðir fyrir að vera að tefja þetta mál. Þær ásakanir komu að vísu ekki fram hjá hæstv. ráðherrum sem hér hafa talað í kvöld en þær hafa komið fram við önnur tækifæri og þótt ásakanirnar um tafir af hálfu sjálfstæðismanna hafi ekki verið bornar fram hér og nú ætla ég að nota þennan vettvang til að mótmæla slíkum ásökunum alveg sérstaklega.
    Í Tímanum í gær var viðtal við hæstv. ráðherra Hagstofu þar sem haft er eftir honum, með leyfi hæstv. forseta: ,,Júlíus sagði að sér þættu tilburðir stjórnarandstöðunnar við að tefja og hindra þetta mál í umræðum um umhverfisráðuneyti vera aumkunarverðir. Hann minntist sérstaklega á sjálfstæðismenn í því sambandi og sagði þá í aðra röndina þykjast bera umhverfismál fyrir brjósti sér en á hinn bóginn gerðu þeir allt sem í þeirra valdi stæði til þess að koma í veg fyrir að þessum málaflokki yrði skipað með þeim hætti að einhver árangur hlytist af.``
    Þessum ummælum hæstv. ráðherra vil ég mótmæla. Það er ekki sök sjálfstæðismanna að þetta mál er ekki komið lengra hér í hv. deild en raun ber vitni. Það var tekið hér fyrst til umræðu þann 8. nóv. og síðan liðu 20 dagar þar til aftur var tekið til við málið í 1. umr. Og ástæður voru ósköp einfaldar: Það voru fjarvistir hæstv. ráðherra, fyrst hæstv. forsrh. og fyrst og fremst þá fjarvistir hæstv. forsrh. Og ég vil taka það fram að ég hef í þessari umræðu ekkert sérstaklega saknað hæstv. ráðherra Hagstofu vegna þess að hann er enginn aðili að þessu máli nema að vísu sem ráðherra í ríkisstjórninni. Ég hef því ekkert kvartað sérstaklega undan því þótt hann hafi verið fjarverandi en það hafa að vísu aðrir gert og reyndar beint til hans fyrirspurnum þannig að það hefur verið eðlilegt að málinu hafi verið
frestað vegna fjarvista hans líka. Mér telst svo til að þetta mál hafi verið sjö sinnum á dagskrá. Þetta er áttunda sinnið sem málið er á dagskrá og þetta er í fjórða sinn sem tekið er til við að ræða það. Fjórum sinnum hefur ekki verið hægt að ræða það vegna fjarvista ráðherra. Ég vísa því sem sagt alfarið á bug að ástæður þess að málið er ekki lengra komið séu tafir af hálfu sjálfstæðismanna, og nóg um það.
    Hæstv. ráðherra Hagstofu sagði einnig þetta í þessu Tímaviðtali, með leyfi hæstv. forseta: ,,Það er eiginlega erfitt að átta sig á þeirra afstöðu,,, sagði Júlíus, ,,nema þá að þeir telji að umhverfismál séu málaflokkur sem ekki eigi að leggja neina áherslu á og þar af leiðandi ekkert að sinna. Menn geta velt því fyrir sér hvort það sé skýringin á hegðun þeirra, eða er skýringin bara sú að þeir séu hér í einhverju pólitísku upphlaupi að reyna að sprengja stjórnarsamstarfið?``
    Mér sýnist nú á öllu að það þurfi eitthvað meira til en að smátafir verði á stofnun umhverfisráðuneytis að

þetta samstarf stjórnarflokkanna springi í loft upp. Ég sé ekki nein sérstök merki þess, þannig að menn geta þess vegna verið alveg rólegir þótt menn þurfi aðeins að fara betur yfir þetta frv.
    Ég vísa því líka á bug í þessu samtali að sjálfstæðismönnum þyki þetta vera málaflokkur sem ekkert þurfi að sinna. Í því sambandi nægir mér aðeins að vísa til þess að ekki hafa aðrir sinnt þessum málaflokki meira með málflutningi hér á þingi og flutningi frv. en einmitt sjálfstæðismenn. Þegar á árinu 1975 skipaði þáv. forsrh. Geir Hallgrímsson nefnd til þess að vinna að heildarlöggjöf um stjórn umhverfismála. Síðan hafa öðru hverju verið flutt um þetta frv., nú síðast í upphafi þessa þings af nokkrum þingmönnum Sjálfstfl. Það frv. hefur hvílt í allshn. þessarar hv. deildar í góðu samkomulagi við okkur flm. vegna þess að vitað var að frv. um sama efni, þótt allt öðruvísi væri, kæmi frá ríkisstjórninni. Þess vegna hefur það frv. ekki verið til neinnar meðferðar í hv. allshn. Það var einfaldlega samkomulag um að þessi frv. skyldu athuguð í samhengi hvort við annað. Og svo verður gert.
    Hæstv. ráðherra Hagstofu þótti ekkert vera því til fyrirstöðu að afgreiða þetta mál hér frá Alþingi fyrir þinghlé. Ég held að hann hafi komist svo að orði: fyrir þinghlé. Nú veit ég ekki alveg hvað menn eiga við með þinghlé. Ef átt er við fyrir jól veit ég að hæstv. ráðherra er alveg ljóst að það getur ekki gengið. Það getur einfaldlega ekki gengið. Ef hann á hins vegar við þinghlé einhvern tímann í janúar má það vel vera. Ég skal ekki fullyrða neitt um það. En mér sýnist málið vera það viðamikið að vinna í þingnefndum hljóti að taka nokkurn tíma. Þar breytir engu þótt umsagnir liggi þegar fyrir frá ýmsum aðilum. Að vísu hef ég ástæðu til að ætla að þær umsagnir eigi ekki nákvæmlega við þetta frv. eins og það varð í endanlegum búningi, en margt í þeim umsögnum á alveg efalaust við. Það tekur tíma að fara í gegnum þær og auðvitað tekur líka tíma að ræða við fjölda manna sem þetta mál varðar og eiga að búa við þetta skipulag umhverfismála sem hér er lagt til. Það er alveg útilokað annað en að þingnefndir fái tíma til þess að ræða við þá aðila alla.
    Ég skil það og veit að þetta er forgangsmál hjá ríkisstjórninni. Því hafa
hæstv. ráðherrar skýrt frá og kemur það stjórnarandstöðu ekkert sérstaklega á óvart. En ég ítreka það aðeins að þótt um forgangsmál sé að ræða hlýtur meðferð þess að taka allnokkurn tíma og ef það á að vera forgangsmál númer eitt sýnist mér að ýmis mál sem ég þykist jafnframt vita að ríkisstjórnin leggi áherslu á að nái fram að ganga verði að víkja. Svona einfalt er þetta nú í mínum huga.
    Ég skal ekki hafa þessi orð mikið fleiri. Það er að vísu svolítið freistandi að gera málflutning hæstv. ráðherra Hagstofu svolítið að umtalsefni. Hann er að berjast hér fyrir stofnun umhverfisráðuneytis ásamt félögum sínum í ríkisstjórninni. Þetta ráðuneyti kostar nokkra tugi millj. kr. --- það er staðreynd --- þegar á fyrsta ári. Það vita líka allir sem vilja vita að auðvitað

fer þetta alveg nákvæmlega eins hér eins og hefur gerst í nágrannalöndum okkar þar sem umhverfisráðuneyti hafa verið stofnuð, að þetta verður að bákni. Hæstv. ráðherra er hins vegar alveg sammála þeim sem gagnrýna þessi bákn og segist alls ekki geta hugsað sér það að vera að stuðla hér að stofnun einhvers bákns, en svona verður það. Hann tekur sem sagt undir þá gagnrýni. Hæstv. ráðherra var líka sammála því að það þyrfti að gilda ströng löggjöf um Stjórnarráð Íslands. Samt ætluðu þessir háu herrar að gera hæstv. ráðherra Hagstofu að umhverfisráðherra án þess að sett yrði nokkur sérstök löggjöf, voru jafnvel að hugsa um bráðabirgðalög í því sambandi. Nú þýðir ekki að hrista höfuðið. Þetta er allt saman til á blöðum og hefur ekki verið mótmælt. Þeir féllu hins vegar frá því sem betur fer, sem betur fer.
    Hæstv. ráðherra Hagstofu minntist hér á hversu einfalt þetta væri í Noregi --- honum hafði að vísu verið sagt það og það er vont að fara eftir sögusögnum. Ég hef ekki hér undir höndum neitt sem getur sannað þá fullyrðingu mína að þetta sé ekki svona einfalt í Noregi eins og hæstv. ráðherra vill vera láta. Ég held að ég viti það rétt --- og ætla þó ekki að fullyrða neitt --- að við myndun síðustu ríkisstjórnar í Noregi var ákveðið að stofna sérstakt ráðuneyti og tiltekin persóna var ákveðin sem ráðherra yfir því ráðuneyti. En ég veit ekki betur en að þeim hafi þar verið alveg ljóst að það yrði að fá um það sérstaka löggjöf og ég held að sú löggjöf sé ekki komin í gegnum Stórþingið og þessi persóna sem á að taka við þessu ráðuneyti hefur ekki tekið sitt sæti í ríkisstjórninni. Þetta er nú eftir því sem ég best veit en þeir hafa kannski ekki átt neina Hagstofu upp á að hlaupa svona á meðan ekki væri búið að koma þessari löggjöf á.
    Svona er þetta nú eftir því sem ég best veit, en það er sjálfsagt að hafa það sem sannara reynist. Ef þetta er eins og hæstv. ráðherra segir tek ég þessi orð mín aftur. En þótt það væri svo í Noregi eða Danmörku er það ekki neitt sem við eigum að taka okkur til fyrirmyndar. Ég er alveg sammála því sem hæstv. ráðherra Hagstofu sagði að við eigum að hafa hér skýra og ákveðna löggjöf um Stjórnarráð Íslands og ekkert að vera að framkvæma neitt sem er vafasamt. Þar vona ég að við séum alveg sammála.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Þetta mál fer nú til þingnefndar, hefði mín vegna mátt vera komið þangað fyrir lifandi löngu, og þar verður þetta allt tekið til rækilegrar meðferðar. Þar eru áhugasamir menn eins og hæstv. forsrh. talaði um áðan. Þar eru áhugasamir menn um þessi mál og þeir munu kynna sér rækilega þær umsagnir sem þegar liggja fyrir. Þeir munu afla sér nýrra gagna og hlýða á málflutning þeirra fjölmörgu aðila í þjóðfélaginu sem eiga að búa við þetta skipulag eða annað. Ég er ekki alveg viss um að það verði einmitt þetta sem við komum til með að búa við og vona satt að segja að menn eigi eftir að skoða hug sinn betur vegna þess að ég er sannfærður um að við erum ekki að fara hér inn á rétta braut, þá braut sem ríkisstjórnin vill fara.