Íþróttir, æskulýðs- og tómstundastarfsemi
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Hinn 16. des. 1988 skipaði ég nefnd til að kanna áhrif og mikilvægi íþrótta og æskulýðs- og tómstundastarfsemi fyrir landsmenn og gera tillögu að stefnumótun í þessum málaflokkum til ársins 2000.
    Í nefndinni eiga sæti Árni Guðmundsson æskulýðsfulltrúi, Hafnarfirði, formaður, Hermann Sigtryggsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, tilnefndur af ÍSÍ, Hólmfríður Garðarsdóttir framkvæmdastjóri, Elís Þór Sigurðsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, Unnur Stefánsdóttir verkefnastjóri, Lovísa Einarsdóttir íþróttakennari, Alfreð Gíslason sagnfræðingur, Jóhanna Leópoldsdóttir skrifstofustjóri, sem er ritari nefndarinnar, og Janus Guðlaugsson námsstjóri.
    Í tilefni af fsp. hv. þm. fór ég þess á leit við formann nefndarinnar að hann gerði í stuttu máli grein fyrir stöðu mála og mér barst svar frá formanni nefndarinnar sem er dagsett 4. des. sl. og er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Nú er verið að leggja síðustu hönd á drög að frv. að lögum um æskulýðsmál. Drög þessi voru til umsagnar hjá æskulýðssamtökum innan Æskulýðssambands Íslands og innan Æskulýðsráðs ríkisins frá miðjum september. Upphaflegur frestur var þrjár vikur en vegna eindreginna óska frá ýmsum samtökum, einkum íþróttahreyfingunni, var fresturinn lengdur um fjórar vikur, til 31. okt. Um þessar mundir er verið að vinna úr umsögnum.
    Samhliða vinnu við drög þessi hefur nefndin verið að vinna álit hvað varðar almenna stefnumörkun á sviði æskulýðs-, íþrótta- og tómstundamála til ársins 2000. Áætlað er að nefndin skili af sér á næstu vikum.``
    Aðalbreytingarnar í þeim drögum að breyttum æskulýðslögum sem liggja fyrir eru þær að í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að Æskulýðsráð ríkisins verði lagt niður og að yfirstjórn æskulýðsmála verði færð til félaganna sjálfra. Í drögum að frv. er gert ráð fyrir að starf æskulýðsfulltrúa ríkisins verði ekki lagt niður en ég tel fyrir mitt leyti að það komi einnig til greina að fella það starf niður og flytja þá starfsemi alfarið til æskulýðshreyfingarinnar í heild.
    Varðandi íþróttaþáttinn er svo því við að bæta, virðulegi forseti, að ég hef lagt á það áherslu að unnið verði í nánu samstarfi við stefnumótunarnefnd Íþróttasambands Íslands, sem vinnur einmitt að tillögugerð um aðaláherslur í íþróttamálum til ársins 2000.
    Ég vænti þess að hv. fyrirspyrjanda og þingheimi sé ljóst af þessu svari að unnið er að málinu í samræmi við þá þál. sem Alþingi samþykkti og hv. þm. Jóhann Einvarðsson, 8. þm. Reykn., vitnaði til í ræðu sinni hér áðan.