Íþróttir, æskulýðs- og tómstundastarfsemi
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Jóhann Einvarðsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Ég sé að hann hefur brugðið við og skipað nefnd til að vinna að þessum málum og ég vænti þess að hún standi við það að skila af sér núna á næstu vikum. Ég held að hér sé um eitt af mikilvægari málum æskulýðs í þjóðfélaginu að ræða, bæði að því er varðar æskulýðsstarfsemi og íþróttamál og mikið forvarnarstarf og félagsmálastarf er unnið á þessum vettvangi. Ég ætla ekkert að fara að tjá mig um þær hugmyndir sem þegar hafa komið fram um lagabreytingar, við fáum tilefni til þess þegar það kemur inn á þing, en ég vænti þess að ráðherrann fylgi því eftir, strax og nefndin hefur skilað áliti, að taka afstöðu til þeirra tillagna sem frá nefndinni koma og leggja þá nauðsynlegar upplýsingar og gögn fyrir Alþingi.