Mengunarvarnir í álverinu við Straumsvík
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til heilbrrh. um mengunarvarnir í álverinu við Straumsvík á þskj. 151. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvernig er nú háttað framkvæmd og eftirliti mengunarvarna í álverinu við Straumsvík samkvæmt samkomulagi milli iðnrn. og heilbrrn. sem greint var frá í fréttatilkynningu 20. júlí 1989?``
    Það stendur 1989 en á raunar að standa 1988. Það er prentvilla í skjalinu og ég vona að það hafi ekki valdið neinum misskilningi í ráðuneytinu. Þeir hljóta að hafa áttað sig á því að þarna var um prentvillu að ræða. Ég tók sjálf ekki eftir henni fyrr en núna þannig að ég hafði ekki komið því á framfæri.
    Í þessari fréttatilkynningu frá 20. júlí 1988, sem ég vitna til, er talað um að ráðuneytin, þ.e. iðnrn. og heilbrrn., hafi ákveðið að setja til hliðar ágreining um gildi aðalsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Limited dags. 28. mars 1966. En það er ekkert launungarmál að lengi hefur verið ágreiningur á milli heilbrigðisyfirvalda og stjórnenda Íslenska álfélagsins um túlkun á aðalsamningnum og hins vegar um gildi íslenskra mengungarvarnalaga gagnvart álverinu.
    Það kom greinilega fram í svari heilbr.- og trmrh. þann 27. okt. 1988 þegar ég spurði m.a. hvers vegna fyrirtækinu hefði ekki verið gert að sækja um
starfsleyfi eins og öðrum fyrirtækjum og þar talaði hann um m.a., sem allir hafa vitað, að ágreiningurinn hafi í raun staðið allt frá 1972 um það hvaða reglur eiga að gilda um mengunarvarnir frá álverinu. En í þessari fréttatilkynningu var talað um að ráðuneytin hafi ákveðið að setja til hliðar ágreininginn og að heilbrrn. muni í samráði við Hollustuvernd ríkisins gera tillögu til iðnrn. um framkvæmd og fyrirkomulag mengunarvarna.
    Það skiptir mjög miklu máli að öllum aðilum sé ljóst hvernig þessum málum er háttað og hver hefur eftirlit og hver ber ábyrgð.
    Auðvitað er það sem skiptir máli fyrst og fremst að minnka mengun frá svona verksmiðjum. Það kom fram í fréttatilkynningu frá iðnrn. nýverið að flúormengun frá álverinu var mjög mikil á síðasta ári, árið 1988, og auðvitað hefur maður áhyggjur af því og vonar að hún muni minnka. Það skiptir miklu máli hvernig eftirliti og framkvæmd mengunarvarna er nú háttað og þess vegna spyr ég um framkvæmd þessa samkomulags sem ég hef nú gert að umtalsefni frá 20. júlí 1988.