Mengunarvarnir í álverinu við Straumsvík
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Hér er hreyft mikilvægu máli sem oft hefur borið á góma hér í sölum Alþingis. Iðnaðarnefndir þingsins voru í heimsókn hjá álverinu í Straumsvík í síðustu viku og fengu þar upplýsingar á staðnum um stöðu mengunarmála. Ég hef undir höndum erindi frá Hollustuvernd ríkisins til Skipulagsstjórnar ríkisins frá 6. okt. 1989 þar sem vakin er athygli á því að jafnvel þótt miðað sé við erlend mörk fyrir heilsufar og strangari kröfur íslenskar hafi verið settar á blað, bendi útreikningar til að brennisteinsdíoxíð, SO2, verði óviðunandi á Hvaleyrarholti. Það er í grennd Hafnarfjarðar þar sem byggingarframkvæmdir eru fyrirhugaðar. Í lok þessa erindis segir, með leyfi forseta: ,,Þar til frekari upplýsingar um loftmengunarálag á Hvaleyrarholti liggja fyrir telja Mengunarvarnir að afgreiðslu á breytingum á aðalskipulagi Hafnarfjarðar í þá veru að hefja þar byggingarframkvæmdir fyrir íbúðarbyggð fyrr en áður hafði verið áætlað beri að fresta og að taka beri afstöðu til íbúðarbyggðar að fengnum niðurstöðum nákvæmari könnunar á svæðinu.``
    Nú er þetta í næsta nágrenni álversins í Straumsvík og ljóst er að meginmengunin af brennisteinsdíoxíði verður rakin þangað. Hér er stórt og alvarlegt mál á ferðinni og við hljótum að spyrja: Gera heilbrigðisyfirvöld og Hollustuvernd kröfur um að tekin verði upp hreinsun á brennisteinsdíoxíði frá álverinu í Straumsvík?