Mengunarvarnir í álverinu við Straumsvík
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svör hans en ég varð fyrir vonbrigðum með að ekki skuli enn þá vera komið endanlegt samkomulag þarna á milli. Nú er liðið eitt og hálft ár frá því að þetta samkomulag var gert, þannig að þetta verður að teljast mikill hægagangur. Vona ég að nú verði reynt að flýta þessu.
    Auðvitað á að fagna öllum þeim bótum á mengunarvörnum sem gerðar eru, og það hefur vissulega verið reynt að gera ýmislegt í álverinu í Straumsvík núna sl. ár til þess að reyna að bæta mengunarvarnir, enda veitti ekki af því auðvitað var til háborinnar skammar hvernig þar var á málum haldið. Mér finnst merkilegt að heyra að ekki hafi enn þá verið ákveðið hver útblástursmörk eigi að vera. Ég hélt að til væru gildandi reglur, ákveðnar reglur og að ekkert ætti að breyta út frá þeim. Ég hefði haldið að í tillögum Hollustuverndar væru settar sömu reglur og giltu um starfsleyfi. Að farið væri með þetta eins og álverið væri að sækja um starfsleyfi.
    Ég veit ekki betur en að mengunarreglugerð taki gildi núna um áramótin. Og í henni er gert ráð fyrir ákveðnum útblástursmörkum, bæði að því er varðar flúoríð og eins brennisteinsdíoxíð. Og mig langaði að spyrja, þó það sé ekki innifalið í fsp., hvort ekki sé farið eftir þeim reglum sem er miðað við að taki gildi núna strax á næsta ári, ef ráðherra gætur svarað því hér og nú.
    En ég verð að endurtaka það að ég varð fyrir vonbrigðum með að það skuli ekki enn vera búið að ganga frá þessu máli. Ekki síst með tilliti til allrar þeirrar starfsemi sem Hafnarfjarðarbær ætlast til að verði þarna í nágrenni álversins, þar sem talað er um verulega íbúðarbyggð á Hvaleyrarholti sem fólk hlýtur að hafa áhyggjur af. Og enn frekar er ástæða til að hafa áhyggjur ef á að fara að setja niður fleiri álver þarna á þessu svæði, sem ég vona nú að ekki verði neitt úr.