Vernd barna og ungmenna
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntmrh. kærlega fyrir greinargóð svör við þessari fsp. minni. Ég vissi reyndar og heyrði nú á máli hans að hann ber þennan málflokk fyrir brjósti. Öll vitum við að það starf sem þessi nefnd vinnur er mjög vandasamt og mikilvægt að til þess sé vandað. Tel ég reyndar að verjandi sé að borga góðum og hæfum starfsmanni laun fyrir að starfa fyrir þessa nefnd þó að hann sé á einhverju rúmlegu Dagsbrúnarkaupi. Ég vona að þetta mál, sem snertir okkur öll og er auðvitað fyrst og fremst mikið velferðarmál fyrir börn, komi hér inn í þingið í vetur. Auðvitað hefði verið allra best ef það hefði verið komið það langt að það hefði verið á forgangslista hæstv. ríkisstjórnar nú fyrir þessi áramót í staðinn fyrir eitthvað af þeim skattafrv. sem við sitjum uppi með.