Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hv. alþm. geti ekki kvartað undan því að ekki hafi verið reynt af hálfu fjmrn. að greiða fyrir því að svör verði veitt við þeim fsp. sem til fjmrh. hafa borist. Mig minnir t.d. að síðasta fimmtudag hafi fjmrh. svarað tæplega helmingnum af öllum þeim fsp. sem voru teknar á dagskrá þann dag. Það vildi svo til að á þessum degi var ég bundinn á fyrirspurnatíma við önnur verk og ég tel að í gær hafi skrifstofu Alþingis verið tilkynnt að fjmrh. gæti ekki verið hér í dag til þess að svara fyrirspurnum. Hins vegar var hringt til mín fyrir rúmri klukkustund síðan og mér tjáð að þessi fyrirspurn væri á dagskrá. Það kom mér á óvart vegna þess að ég taldi að þinginu hefði verið gerð grein fyrir því að það væri ógerlegt fyrir mig að vera hér á þessum tíma. Ég kaus þó að rjúfa þau verk sem ég var staddur í vegna þessa misskilnings sem upp var kominn og koma hingað.
    Að sjálfsögðu mun ég reyna að greiða fyrir því að þessari fsp. verði svarað við fyrsta tækifæri, en ég vildi koma þessum skýringum á framfæri hér. Þær stafa ekki af því að ég sé að reyna að skjóta mér undan að svara þeirri fsp. sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur borið hér fram.
    Hvað snertir þá fsp. frá öðrum þingmanni sem hér er líka á dagskránni í dag, þá skal ég reyna að svara henni núna strax hér á eftir vegna þess að það er einfaldara og þarf ekki að hafa við hendina þau gögn sem ég þyrfti að hafa til þess að svara fsp. hv. þm. Halldórs Blöndals. En ég vildi að þessar skýringar kæmu fram.