Skuldir ríkissjóðs við sveitarfélög
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Svarið við þeirri fsp. sem hér er borin fram er birt á bls. 242 í frv. til fjárlaga fyrir árið 1990. Á þeirri bls. er að finna ítarlega greinargerð um það hvernig verði farið með fjárhagslegan þátt verkaskiptamálsins. Þar er því lýst yfir að fjmrn. hafi átt í viðræðum við forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga um þessa þætti og skýrt tekið fram að hvað varðar Jöfnunarsjóðinn er í fjárlagafrv. staðið við þau fyrirheit sem gefin voru. Í öðru lagi varðandi rekstrarkostnaðinn er staðið við þau áform sem lágu ljós fyrir. Hins vegar hafi komið í ljós að vegna mistaka í áætlanagerð og annarra ástæðna hafi það reynst vera mun meiri kostnaður sem lenti á ríkinu en ætlað var og í þriðja lagi hefði verið ákveðið að bíða með að ganga frá tölunni varðandi uppgjör á skuldum við sveitarfélögin þar til í meðferð og lokaafgreiðslu fjárlaganna.
    Hv. þm. hefði þess vegna getað sparað sér fsp. með því að lesa þennan þátt í grg. með fjárlagafrv. þar sem svarið kemur alveg skýrt fram. Það hefur einnig verið hv. fulltrúa Kvennalistans í fjvn. kunnugt að milli 2. og 3. umr. yrði gengið endanlega frá þeirri tölu sem yrði notuð við uppgjörið í fjárlagafrv. fyrir næsta ár og sú tala hefur reyndar þegar verið ákveðin af hálfu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarmeirihlutans í nefndinni og mun birtast hér við 3. umr.