Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 93 til utanrrh. um verðlaunalistaverk við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hvenær er fyrirhugað að setja upp verðlaunalistaverk við Flugstöð Leifs Eiríkssonar?``
    Mönnum kann e.t.v. að finnast þetta mál meðal þeirra sem minnst eru brýn í þeim umræðum sem nú fara fram um efnahagsmál landsmanna. En miklar umræður urðu á sínum tíma um framkvæmd við byggingu þessarar miklu flugstöðvar og hvað eftir annað hefur orðið að leggja fram miklar fjárupphæðir til þess að ljúka því verki og vantar þó töluvert á að því sé lokið. En einn er sá þáttur sem hefur orðið út undan eins og ævinlega þegar komið er að listum og menningu. Það eru þau listaverk sem átti að setja upp við stöðina.
    Veturinn 1986 var haldin samkeppni um gerð listaverka fyrir utan flugstöðina og í samkeppnisgögnum var sérstaklega tekið fram að þarna skyldu vera stór og mikil listaverk. Vorið 1986 hlutu svo verk eftir Magnús Tómasson og Rúrí fyrstu verðlaun. Voru það verkin Þotuhreiður eftir Magnús og Regnbogi Rúríar. Hvor listamaður um sig fékk 200 þús. kr. fyrir hugmyndina.
    Í fyrstu var áætlun um að listaverkin skyldu vera fullgerð við vígslu stöðvarinnar en eins og menn rekur minni til lá mikið á að vígja flugstöðina fyrir kosningar sem þá voru fram undan svo að listin gleymdist eins og oft áður. Síðan hefur þetta gengið þannig fyrir sig að svo til ekkert hefur gerst. Þó liggur fyrir samningur við listakonuna Rúrí og er hann án fyrirvara um framlög Alþingis, en í þeim samningi sem loksins var gerður við Magnús
Tómasson er fyrirvari um að framkvæmdir séu háðar framlögum Alþingis.
    Nú er það vitaskuld ekkert óeðlilegt og listamaðurinn er alveg sáttur við það. Hitt er annað mál að það er auðvitað ekki sæmandi að stjórnvöld efni til samkeppni um svo stór verk sem þarna er um að ræða og haldi síðan listamönnunum sem til verðlauna unnu í algjörri óvissu ár eftir ár um hvenær þessi verk eiga að koma upp. Og í öllum þeim hundruðum milljóna sem hefur verið ausið út til að hreinsa upp ósómann við byggingu þessa húss, þá getur það ekki verið óleysanlegt vandamál að standa við það sem þessum listamönnum var lofað og afla þess fjár sem þarf til að koma þessum listaverkum upp.