Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda er hér um að ræða tvö listaverk sem hlutu fyrstu verðlaun í verðlaunasamkeppni sem var efnt til um útilistaverk við flugstöðina haustið 1985.
    Í niðurstöðum starfshóps sem utanrrh. og fjmrh. skipuðu sumarið 1988 var lagt til að bæði verkin yrðu sett upp árið 1989. Þegar til kastanna kom varð að skera niður í lánsfjárlögum 1989 þannig að aðeins var fjármagn til þess að kosta uppsetningu annars verksins, Regnbogans eftir listamanninn Rúrí. Þetta verk er nú í smíðum og gert er ráð fyrir að það muni dragast fram á næsta vor eða næsta sumar að verkinu verði fulllokið en fé á að vera til staðar til þess að ljúka því.
    Nú er gert ráð fyrir að hitt listaverkið sem til verðlauna vann, Þotuhreiður eftir listamanninn Magnús Tómasson, verði smíðað og sett upp á næsta ári og er til þess ætlað fé en að því tilskildu að Alþingi samþykki lánsfjárheimild til að standa straum af kostnaðinum. Í stuttu máli er þetta svarið. Gert er ráð fyrir því að Regnboginn verði risinn fyrir næsta sumar og að Þotuhreiðrið verði fullgert á næsta ári.