Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég vil færa hæstv. utanrrh. þakkir fyrir svörin. Það hlýtur alltaf að koma að því öðru hvoru að það verði skylda Alþingis að minna á að vinna listamanna er vinna eins og annarra manna. Það fer ekki á milli mála að sá dráttur sem orðið hefur á uppsetningu listaverkanna hefur valdið umræddum listamönnum verulegum ama og angri vegna þess að allan tímann hafa þau átt von á að nú yrði farið að vinna að þessum verkum. Þau hafa þar af leiðandi ekki tekið að sér önnur verk til þess að geta verið til staðar þegar vinna við þessi verk hæfist og þess vegna hefur þetta auðvitað verið þeim mjög bagalegt, bæði vegna listar þeirra og afkomu.
    Það gleður mig hins vegar að heyra að nú virðist stjórnvöldum alvara með að láta til skarar skríða og koma þessum verkum þangað sem þau eiga að vera og ég þakka þær yfirlýsingar hæstv. ráðherra. Og ég vona svo sannarlega að Alþingi Íslendinga standi ekki í vegi fyrir því að svo megi verða. Svo þakka ég fyrir svarið.