Varnir gegn mengun frá fiskeldi
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég geri hér grein fyrir nál. félmn. Sþ. varðandi 3. mál þingsins, varnir gegn mengun frá fiskeldi. Álit félmn. er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og sendi hana til umsagnar. Svör bárust frá eftirtöldum aðilum: dýralækni fisksjúkdóma, eiturefnanefnd, fisksjúkdómanefnd, Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, Líffræðifélagi Íslands, Líffræðistofnun Háskólans, Lyfjaeftirliti ríkisins, lyfjanefnd, Náttúruverndarráði, Skipulagi ríkisins, Veiðimálastofnun, Vinnueftirliti ríkisins og yfirdýralækni. Einnig fylgdu með þáltill. skrifleg svör þriggja ráðherra á 112. löggjafarþingi, þ.e. heilbr.- og trmrh., samgrh. og landbrh.
    Flestir umsagnaraðilar, sem tjáðu sig um efni tillögunnar, telja þörf á að mótaðar verði samræmdar reglur um kröfur varðandi starfsleyfi fyrir fiskeldisstöðvar. Nokkrir telja þörf á lagasetningu í því sambandi. Landssamband fiskeldis- og hafbeitarstöðva, Líffræðifélag Íslands, Líffræðistofnun Háskólans og Náttúruverndarráð fjalla m.a. um stofnablöndun (erfðamengun) í umsögnum sínum. Nefndin telur að þetta atriði þurfi að rannsaka nánar, ekki síst þar eð skoðanir eru skiptar um umfang og áhrif slíkrar stofnablöndunar.
    Nefndin tekur undir meginefni tillögunnar um að móta þurfi samræmdar reglur um starfsleyfi fyrir fiskeldisstöðvar. Hins vegar telur nefndin rétt að athugað verði hvort þörf sé á sérstakri lagasetningu og þá einnig varðandi stofnablöndun (erfðamengun).
    Nefndin flytur á sérstöku þskj. brtt. við málið og mælir með samþykkt tillögunnar svo breyttrar.``
    Undir nál. rita nefndarmenn í hv. félmn., sá sem hér stendur sem frsm., Rannveig Guðmundsdóttir, fundaskrifari, Guðni Ágústsson, Birgir Ísl. Gunnarsson, Kristinn Pétursson, Alexander Stefánsson og Anna Ólafsdóttir Björnsson.
    Á þskj. 299 flytur nefndin brtt. við þáltill. Þar er lagt til að tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta samræmdar reglur um starfsleyfi fyrir fiskeldisstöðvar og um eftirlit og rannsóknir á mengunarhættu frá þeim. Jafnframt verði athugað hvort þörf sé á lagasetningu vegna mengunar frá fiskeldi.