Viðskiptabankar
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á því að koma seinna í ræðustólinn en ég ætlaði mér. Ég flyt þetta frv. um breytingu á lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka, í tilefni af samningi sem gerður var 29. júní sl., en í honum var samið um sölu á hlutabréfum ríkissjóðs í Útvegsbanka Íslands hf. til þriggja hlutafélagsbanka, þ.e. Alþýðubankans hf., Iðnaðarbanka Íslands hf. og Verslunarbanka Íslands hf. og um sameiningu á bankarekstri kaupendanna í Útvegsbankanum. Síðar var svo nafni Útvegsbanka Íslands hf. breytt á hluthafafundi í Íslandsbanki hf.
    Hér er um fyrirkomulag að ræða sem ekki er beinlínis gert ráð fyrir í viðskiptabankalögunum. Þar er gert ráð fyrir sameiningu banka, en ekki beinlínis að bankastarfsemi sé sameinuð án þess að hlutafélög þau sem að bönkunum standa renni saman. Reyndar er að slíkum samruna stefnt í framtíðinni hjá þeim sem að Íslandsbanka standa. En af ýmsum ástæðum þótti heppilegra að framkvæma þessar breytingar, þ.e. samrunann, í áföngum þannig að fyrst verði rekstur bankanna sameinaður en hlutafélög þeirra haldi áfram sem eignarhaldsfélög. Síðar munu svo fara fram hlutabréfaskipti þar sem hluthafar eignarhaldsfélaganna fá hlutabréf í Íslandsbanka í skiptum fyrir sín hlutabréf. Það er til þess að mæta óskum fyrrgreindra banka og kaupenda að hlutabréfum ríkissjóðs í Útvegsbanka Íslands hf. að ég hét því í sumar að flytja frv. um þetta efni. Reyndar hafði ég vonast til að geta með því lagt fram skýrslu um sölu hlutabréfa ríkissjóðs til Alþingis en því miður er ekki lokið þeim reikningsuppgjörum sem ég tel nauðsynlegt að fram komi í slíkri skýrslu og verður hún því að bíða en verður birt þinginu síðar. Mér er tjáð að uppgjörin verði tilbúin á næstu vikum. Um tíma var áformað að leggja í þessu frv. fram tillögur til breytinga á öðrum lögum þar sem nafn Íslandsbanka hf. kæmi í stað nafna Útvegsbanka Íslands og bankakaupenda. Frá því hefur nú verið horfið, a.m.k. í bili. Sum þessara laga eru úrelt og hefur athygli lagahreinsunarnefndar verið vakin á því en önnur fjalla um fjárfestingarlánasjóði og þarfnast breytingar á þeim frekari umfjöllunar og mun ég ræða það mál við forsvarsmenn bankanna þriggja og fleiri aðila á næstunni. Ég hét kaupendum því í vor að ég mundi einnig beita mér fyrir einföldun á þessum lögum eins og sameining bankanna gefur tilefni til. En ég vil jafnframt taka fram að ég hef oft áður lýst þeirri skoðun minni --- það gerði ég reyndar einnig við kaupendur hlutabréfanna í vor --- að taka ætti löggjöf um fjárfestingarlánasjóðina til endurskoðunar í heild. Ég er enn þeirrar skoðunar að næsta skref í endurskipulagningu á stofnunum íslenska fjármagnsmarkaðarins eigi að vera sameining fjárfestingarlánasjóða í færri og sterkari stofnanir sem ekki séu jafnhólfaskiptar eftir atvinnugreinum og nú er. Tel ég að um leið eigi ábyrgð opinberra aðila á slíkum sjóðum, skattfríðindi þeirra og fleiri atriði að koma til endurskoðunar og fjallað um þau atriði öll í almennri löggjöf.

    Ég þarf ekki að hafa mörg orð um einstakar greinar þessa frv. Efnisgreinarnar eru reyndar aðeins tvær og er í hinni fyrri lagt til að litið verði á sameiningu bankarekstrar sem hliðstæðu samruna viðskiptabanka í heild. Hún fjallar einnig um það að viðskiptamenn sameinaðrar bankastarfsemi skuli fá vitneskju um þau atriði sem máli skipta fyrir þá í tengslum við sameininguna og loks eru þar ákvæði sem mæla fyrir um undanþágu á stimpilgjöldum af þeim margvíslegu skjölum sem þinglýsa þarf í tengslum við sameiningu bankanna. Eru mörg fordæmi fyrir slíkri undanþágu og má þar t.d. nefna 9. gr. laganna um stofnun Útvegsbanka Íslands hf.
    Síðari lagagreinin sem tillaga er gerð um fjallar um ný bráðabirgðaákvæði við viðskiptabankalögin. Hún tekur mið af því að fyrirkomulag Íslandsbanka hf. er á þann veg að hlutafélög kaupendanna starfa fyrst um sinn áfram sem eignarhaldsfélög sem eiga síðan hlut í Íslandsbanka hf.
    Í fyrsta lagi er lagt til að fulltrúum eignarhaldsfélaganna verði veitt atkvæðavald í samræmi við hlutafjáreign og þykir það réttlætanlegt í því tilfelli sem hér er um að ræða, enda má segja að stórir hagsmunahópar og fjöldi eigenda standi að baki stjórnun hvers eignarhaldsfélags um sig. Á það er líka bent að hvert félag um sig hefur starfað skv. hlutafélagsbankalögunum að bankastarfsemi. Öllum má þó ljóst vera að þessi skipan verður ekki til frambúðar enda er tillagan gerð í formi bráðabirgðaákvæðis. Hér er einnig lagt til að ríkissjóður hafi sama rétt og eignarhaldsfélag hvað snertir atkvæðisrétt í hlutafélagsbanka, þ.e. að hann geti nýtt sitt hlutafé þótt það fari fram úr fimmtungi af hlutafénu. Reyndar má segja að þetta ákvæði sé ekki sérlega nauðsynlegt eins og sakir standa. En á það kann að reyna síðar, t.d. ef ríkisbönkum yrði breytt í hlutafélagsform eða ef ríkisbanki og hlutafélagsbanki sameinast.
    Í öðru lagi er lagt til að eignarhaldsfélögunum verði áfram heimilt að hafa nafnið banki í heiti sínu, en með orðinu eignarhaldsfélag viðbættu framan við
nafn félagsins.
    Hæstv. forseti. Þetta frv. er miklu síðar á ferðinni en ég hafði ætlað mér og stefndi að í upphafi. Ástæðurnar fyrir þeirri töf eru margar, m.a. að leita þurfti samkomulags í hópi kaupenda að bankanum, líka þær að lengi hafði verið til þess vonast að gera mætti ítarlega grein fyrir viðskiptunum með hlutabréf ríkisins í Útvegsbankanum. En tíminn er naumur og brýna nauðsyn ber til að afgreiða þetta frv. sem lög frá Alþingi fyrir 1. jan. nk. til að eyða réttaróvissu, en þá tekur Íslandsbanki hf. til starfa. Ég vil þess vegna mælast til að þetta frv. fái skjóta en jafnframt vandaða meðferð hér í deildinni og því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar.