Viðskiptabankar
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. viðskrh. um að æskilegt sé að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu í deildinni. Það er, eins og hæstv. ráðherra gat um í ræðu sinni, um að ræða staðfestingu á sameiningu þeirra banka sem hæstv. ráðherra nefndi. Hér er raunverulega um formsatriði að ræða og því vil ég lýsa yfir stuðningi við þetta frv.
    Ég vil einnig árétta það, sem er skoðun hæstv. ráðherra og þeirra sem stóðu að sameiningu umræddra banka, að hér er um að ræða mjög þarft verk sem er það að fækka bönkum í landinu og gera allan þennan rekstur hagkvæmari og ódýrari fyrir þá sem þurfa að nýta sér hann.
    Það er eitt atriði í þessu frv. sem ég tel að hefði þurft að vera öðruvísi. En ég tek það fram að ég er ekki með athugasemd við það með þeim hætti að ég vilji breyta þessu frv. eins og það liggur fyrir. Það er í sambandi við eignarhaldsfélögin. Ég vil láta það koma fram nú þegar að ég hefði talið æskilegt að eignarhaldsfélögin væru tímabundin, þ.e. fram hefði komið t.d. í sambandi við þetta frv. tímasetning um það hvað eignarhaldsfélögin skyldu starfa lengi. En eins og hæstv. ráðherra kom inn á hér í sinni ræðu þá er um að ræða ákveðin sjónarmið þeirra aðila sem stóðu að stofnun þessa sameiginlega banka sem ráða því að ekki er hægt að koma því við. Það er meira en æskilegt, það er nauðsynlegt, ef þessi banki á að ná þeim árangri sem æskilegt er, að leggja niður eignarhaldsfélögin í því formi sem þau eru og verða, alla vega á næstu árum. Það er æskilegt og einnig er það rökrétt að hluthafar eigi beina aðild að hinum nýja banka, en geri það ekki í gegnum eignarhaldsfélögin. Ég vildi aðeins, virðulegur forseti, láta þetta sjónarmið koma fram jafnframt því sem ég lýsi yfir stuðningi við þetta frv.