Launaskattur
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Í því frv. um launaskatt sem hér er mælt fyrir er lagt til að innheimtan í launaskattinum verði samræmd öðrum þáttum í staðgreiðslunni, en ósamræmi hefur verið á þessum þáttum síðan staðgreiðslan var tekin upp. Slíkt samræmi er í senn eðlilegra fyrir þá sem skattinn greiða og einnig fyrir ríkissjóð þar eð bein efnisleg tengsl eru milli staðgreiðslunnar og launaskattsins. Þetta frv. hefur fengið hraða og góða meðferð í hv. Nd. og vænti ég þess að svo verði einnig hér í þessari hv. deild og legg til að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.