Lífeyrissjóður bænda
Fimmtudaginn 14. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem ég mæli hér fyrir er flutt í tengslum við annað frv. sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur lagt hér fram á Alþingi, frv. um eftirlaun aldraðra. Í báðum þessum frv. er eingöngu verið að framlengja gildandi ákvæði og er í þessu frv. kveðið á um að þau verði framlengd til ársins 1991 og 1992.
    Eins og hv. alþm. er kunnugt var í tengslum við breytingar sem gerðar voru á lífeyriskerfinu fyrir allnokkrum árum síðan ákveðið að Lífeyrissjóður bænda veitti ákveðnar tryggingar fyrir skuldbindingum vegna hóps aldraðra bænda sem ella hefðu verið utan garðs í lífeyriskerfinu.
    Eins og fram hefur komið hér á hv. Alþingi er ætlunin að leggja fyrir þingið eftir jólahlé hin viðamiklu frv. um breytingar á lífeyrissjóðakerfi og lífeyriskerfi landsmanna og gefst þá tækifæri til þess að ræða lífeyrismálin í heild sinni, en með þessu frv. er eingöngu um að ræða framlengingu meðan Alþingi og aðrir gefa sér tíma til að koma á framtíðarskipan í þessum málum.