Viðskiptabankar
Föstudaginn 15. desember 1989


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 331 um frv. til breytinga á lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka.
    Nefndarálitið er stutt og undir það rita allir nefndarmenn, en þar segir: ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og er sammála um að mæla með samþykkt þess án breytinga.``
    Ég tel rétt að gera þingdeildinni grein fyrir efni þessa frv. og lesa upp athugasemdir sem fram koma í frumvarpsdrögunum, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Frv. þetta er samið í tilefni af samningi dags. 29. júní 1989 um sölu á hlutabréfum ríkissjóðs í Útvegsbanka Íslands hf., en samkvæmt honum sameina kaupendur, sem eru Alþýðubankinn hf., Iðnaðarbanki Íslands hf. og Verslunarbanki Íslands hf., í áföngum bankarekstur sinn rekstri Útvegsbanka Íslands hf. jafnframt því sem samþykkt hefur verið að breyta nafni hans í Íslandsbanka hf. Er forsenda samningsins að samruna bankastarfseminnar verði að fullu lokið fyrir 1. júlí 1990.
    Kaupendur lögðu á það mikla áherslu að hlutafélög þeirra geti fyrst um sinn starfað sem eignarhaldsfélög í hinum sameinaða banka og haldið atkvæðisrétti á hluthafafundum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Var á það fallist, enda leggja félögin allan bankarekstur sinn til hins nýja fyrirtækis og ljóst er að nokkurn tíma mun taka að koma þeirri breytingu á, að hluthafar í félögunum skipti á hlutabréfum sínum í þeim og hlutabréfum í Íslandsbanka hf. eins og stefnt er að. Breytingin er almennt orðuð, en þýðir í raun í því tilviki, sem
hér um ræðir, að Íslandsbanki hf. (áður Útvegsbanki Íslands h.f.) tekur við allri bankastarfsemi, réttindum og skyldum þeirra banka sem hætta bankastarfsemi, þ.e. bankastarfsemi, réttindum og skyldum Alþýðubankans hf., Iðnaðarbanka Íslands hf. og Verslunarbanka Íslands hf.``
    Þetta er það sem fram kemur í frv. og eins og ég sagði áðan eru allir nefndarmenn sammála afgreiðslu frv. og leggjum við það til að frv. verði samþykkt.