Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. sem er á þskj. 321.
    Áður en ég fer yfir nál. langar mig í fáum orðum að skýra út, sem formaður nefndarinnar, þau álitaefni sem upp komu í nefndinni varðandi frv. og varðandi virðisaukaskattinn í heild sinni. Frv. var tekið fyrir á sex fundum. Sjöundi fundurinn var nú í morgun eftir að búið var að taka málið út úr nefndinni, en að beiðni stjórnarandstöðunnar var gerð krafa um að ákveðnir menn yrðu kallaðir fyrir nefndina, og var að sjálfsögðu fallist á þá beiðni. Í nál., þar sem tíundað er hverjir komu fyrir nefndina, eru nöfn þessara aðila ekki tilgreind og vil ég hér í upphafi skýra frá því hverjir þetta voru: Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, Sigurgeir Sigurðsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Þorleifur Pálsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, en þeir höfðu reyndar komið á fund nefndarinnar áður. Síðan komu tveir aðrir, Árni Ó. Lárusson frá Olíufélaginu Skeljungi og Jón Guðmann Pétursson, fjármálastjóri Hampiðjunnar. Alls telst mér til að um 50 manns hafi komið á fund nefndarinnar til umfjöllunar um frv.
    Sitt sýndist hverjum um einstök ákvæði frv. Atvinnurekendur kvörtuðu undan þeim undanþágum sem eru í frv. og gert er ráð fyrir að verði teknar upp ef
frv. verður að lögum, en launþegasamtökin hins vegar að það skyldi aðeins vera eitt skattþrep í virðisaukaskattinum. Þá voru ýmsar deilur um áhrif virðisaukaskattsins á tekjur ríkissjóðs og áhrif virðisaukaskattsins á verðlag í landinu. Þá voru lögð fram gögn frá Verslunarráði um áhrif virðisaukaskatts á tekjur ríkissjóðs og kom þar fram að það telur að ríkissjóður komi til með að hagnast um 1,2 milljarða á upptöku virðisaukaskatts. Hagdeild fjmrn. telur hins vegar að ríkissjóður tapi 500 millj. kr. á upptöku virðisaukaskatts miðað við söluskatt. Ekki ætla ég að útkljá þessa deilu á milli þessara tveggja aðila hér, en hins vegar sýnist mér á ýmsu að annað sé byggt á bjartsýni en hitt kannski frekar á svartsýni og báðir aðilar hafa eitthvað til síns máls. Ég tel það samt ekki höfuðatriði í þessari umræðu hvernig hagfræðingar deila um áhrifin. Aðalatriðið er það að upptaka virðisaukaskattsins geti farið fram með sæmilegum friði.
    Þá var, eins og ég gat um, deilt um áhrif virðisaukaskatts á verðlag og þá sérstaklega um áhrif skattsins á vöruverð og matvælaverð. Það liggur fyrir og um það er ekki deilt að verð á mjólk og dilkakjöti lækkar um 8,8% í janúar nk. Hins vegar er meiri óvissa um aðrar matvælategundir sem virðisaukaskattur verður endurgreiddur af samkvæmt lögunum, þ.e. innlent grænmeti og fisk. Byggist sú óvissa á því að álagning á þessar vörur er frjáls og þess vegna er ekki hægt að dæma endanlega um það hvort lækkunin skili sér að öllu leyti til neytenda. En það byggist á stjórnvöldum að reyna að fylgja þessari breytingu eftir

þannig að neytendur njóti góðs af. Áhrif á unnar kjötafurðir og mjólkurafurðir ættu að vera rúm 5% þar sem endurgreiðslan á mjólkurafurðir og kjötafurðir, sem eru stærsti þátturinn í þessari unnu vöru, hefur þessi áhrif.
    Mesta óvissan er um annað vöruverð og þá sérstaklega á innfluttum matvörum, en þar er deilt um hvaða áhrif staðgreiðsla virðisaukaskatts í tolli hefur á verðlagið. Samkvæmt upplýsingum sem Félag stórkaupmanna lagði fyrir nefndina leiðir það að enginn gjaldfrestur er gefinn í tolli til þess að þessar vörutegundir hækka um 2--4%, en hins vegar leiða útreikningar hagdeildar fjmrn. til annarrar og lægri tölu þar sem tekið er tillit til þess hagræðis sem felst í virðisaukaskattinum fyrir smásöluverslunina. Lækkun smásöluverðs vegna uppsöfnunaráhrifa söluskatts er metin 1--1 1 / 2 % og ætti því að jafna upp áhrif á hækkun innflutningsverðs. Og raunar telur hagdeild fjmrn., þegar til lengri tíma er litið, að 24,5% virðisaukaskattur lækki vöruverð almennt um 0,5%.
    Um það er í sjálfu sér ekki deilt að virðisaukaskattur hefur í för með sér fjárbindingu fyrir innflytjendur og er innlendum framleiðendum til hagræðis, sérstaklega nú þegar tekin hefur verið ákvörðun um að innlendir framleiðendur fá gjaldfrest í tolli á aðföngum, en í nefndinni var einmitt mikil umræða um gjaldfrest í tolli. Í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. er lagt fyrir fjmrn. að kanna skuli kosti þess að veita gjaldfrest almennt í innflutningi og teljum við að það eigi að kappkosta að leita gjaldfrests þó svo að aðstæður séu kannski ekki fyrir hendi í dag.
    Það urðu töluverðar umræður um endurgreiðslur vegna virðisaukaskatts á matvörur, en samkvæmt frv. á að endurgreiða virðisaukaskatt á dilkakjöti, neyslufiski, mjólk og fersku innlendu grænmeti þannig að skattgreiðslur verði sem næst 14% af þessum vörutegundum. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að um einum milljarði verði varið í þessu skyni. Umræða var um hvort endurgreiðslan skuli teljast til niðurgreiðslu eða sem sérstakt skattþrep eða eitthvað annað. Í gögnum sem hagdeild fjmrn. lagði fram segir um þetta atriði, með leyfi forseta:
    ,,Í tengslum við gildistöku virðisaukaskatts nú um áramótin er gert ráð fyrir að endurgreiða hann að hluta þannig að á tilteknar matvörur leggist ígildi 14%
virðisaukaskatts í stað 24,5%. Sá munur er á endurgreiðslum og hefðbundnum niðurgreiðslum að endurgreiðslur eru ákveðnar í lögum um virðisaukaskatt og verður því ekki breytt nema með lagabreytingu. Niðurgreiðslur eru hins vegar ákveðnar með fjárlögum ár hvert og eru breytilegar bæði í heildarfjárhæðum milli ára og milli einstakra vörutegunda.``
    Ég tel rétt, til þess að það liggi alveg ljóst fyrir hvað hér er um að ræða, að skýra einmitt þennan þátt svo að ekkert fari á milli mála. Þá vitna ég í orðsendingu Ríkisendurskoðunar frá 13. des. sl. til fjh.- og viðskn., en þar segir:
    ,,Hér er ekki um sérstakt skattþrep að ræða að mati

Ríkisendurskoðunar og er slíku reyndar hvergi haldið fram í frv. sjálfu. Endurgreiðslan er í eðli sínu skyldari niðurgreiðslu en sérstöku skattþrepi eða hefðbundinni skattundanþágu. Því verður að mati Ríkisendurskoðunar ekki hjá því komist að kveða með einhverjum hætti á um endurgreiðsluna í fjárlögum nái frv. fram að ganga.``
    Það er sem sagt mat Ríkisendurskoðunar að hér sé ekki um niðurgreiðslu í hefðbundnum skilningi að ræða heldur er hér um að ræða ákveðið atriði, og raunar telja þeir í sínu áliti að það eigi að ákveða það í fjárlögum ár hvert hvernig með þessar endurgreiðslur skuli fara.
    Í sjálfu sér er heitið sem slíkt ekki höfuðatriðið, heldur sú lækkun sem endurgreiðslan hefur í för með sér, en eins og ég rakti áðan leiða endurgreiðslur til 8,8% lækkunar helstu matvæla hinn 1. jan. nk. Áhrif endurgreiðslunnar til frambúðar eru meiri óvissa þar sem áhrif hennar markast einkum af þremur þáttum, þ.e. niðurgreiðslum, verðbólgu og hvernig niðurgreiðslum verði deilt niður á vöruflokka. Vil ég í því sambandi og til skýringar, með leyfi forseta, lesa upp smákafla úr bréfi frá hagdeild fjmrn. til skýringar á því hvernig þetta getur komið út. Þar segir:
    ,,Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1990 var gert ráð fyrir að niðurgreiðslur á vöruverði héldust óbreyttar í krónum talið milli áranna 1989 og 1990. Þetta kemur m.a. fram í töflu á bls. 240 í fjárlagafrv. Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að verja 200 millj. kr. hærri fjárhæð til niðurgreiðslna á næsta ári en reiknað var með í fjárlagafrv. Miðað við forsendur fjárlagafrv. um 16% meðalhækkun verðlags á milli áranna 1989 og 1990 munu niðurgreiðslur lækka um 550 millj. að raungildi á næsta ári. Þessi lækkun niðurgreiðslna mundi að öðru óbreyttu hafa í för með sér hækkun á niðurgreiddum vörum umfram almennar verðlagshækkanir á næsta ári. Á móti þessu vega hinar sérstöku skattendurgreiðslur á tilteknum matvælum sem leiða til verðlækkunar í upphafi næsta árs. Miðað við verðlagsforsendur fjárlagafrv. er áætlað að heildarfjárhæð til þessara endurgreiðslna verði um 1 milljarður á næsta ári.``
    Síðan segir: ,,Jafnvel þótt stefnt sé að breytingum á hefðbundnum niðurgreiðslum á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv. er á þessari stundu ekki hægt að gefa ákveðin svör við því hvernig búvöruverð kemur til með að þróast í samanburði við verð á öðrum vörum. Það fer eftir því hvernig staðið er að þeim breytingum. Þarna kemur margt til greina. Jöfn lækkun yfir alla línuna eða meiri lækkun á einstökum tegundum, minni á öðrun. Um þetta hefur ekki verið tekin ákvörðun af hálfu stjórnvalda, enda hefur innbyrðis vægi niðurgreiðslna milli einstakra tegunda iðulega verið breytt á undanförnum árum.`` Það fer sem sagt eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar á næsta ári hvernig þróunin verður á einstökum tegundum.
    Fyrir nefndina komu fulltrúar samtaka sveitarfélaga. Þeir lýstu áhyggjum sínum vegna virðisaukaskattsins og töldu skattinn koma niður á sveitarfélögum. Undir þá skoðun má taka. Ýmislegt hefur verið gert til að

milda áhrif skattsins á sveitarfélög og er í brtt. meiri hl. m.a. gert ráð fyrir að hitunarkostnaður þeirra verði undanþeginn virðisaukaskatti. Þá hefur fjmrh. í bréfi til samtaka sveitarfélaga lýst því yfir að skatturinn verði endurgreiddur að stórum hluta. Í niðurlagsákvæði bréfsins segir, með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. hefur þegar ákveðið að ef umrædd heimild [þ.e. heimild sem kveðið er á um í frv.] fæst verður henni beitt vegna sorphreinsunar, ræstingar og þjónustu sérfræðinga, þ.e. skatturinn verður endurgreiddur ef þessi þjónusta er aðkeypt og sveitarfélögin þurfa þar af leiðandi ekki heldur að reikna skatt af eigin þjónustu að því er þetta varðar.``
    Þarna er komið mjög verulega til móts við sveitarfélögin í landinu, en ég vil minna á í þessu sambandi að þegar skatturinn var ákveðinn á sínum tíma og hv. 2. þm. Norðurl. e. mælti fyrir frv. átti virðisaukaskatturinn að koma á sveitarfélögin með fullum þunga þannig að það sem hér er verið að ræða um er ekki nýr skattur á sveitarfélögin heldur er það frv. sem hér er mælt fyrir aðeins brtt. við lög sem þegar hafa verið samþykkt.
    Landssamband iðnaðarmanna og aðrir sem starfa í byggingariðnaði hafa áhyggjur af framkvæmd laganna og hvernig endurgreiðsla til íbúðabyggjenda verði framkvæmd. Höfðu þeir af því áhyggjur, höfðu áhyggjur af eigin fólki við framkvæmd virðisaukaskattsins. Ríkisskattstjóri lýsti því yfir í nefndinni að hann mundi beita sér fyrir því að kynna frv. fyrir þessum aðilum og aðstoða
aðila í byggingariðnaði, eins og öðrum greinum, við að koma lagi á sitt bókhald og aðstoða við framtalsgerð og ekki fara með því hugarfari til fyrirtækja næstu mánuði að finna að heldur reyna að leiðbeina þeim aðilum sem falla undir það að verða að greiða virðisaukaskatt.
    Ég hef hér á undan farið yfir hluta þeirra umræðna sem urðu í nefndinni en vil að það komi skýrt fram að lögin um virðisaukaskatt hafa verið samþykkt og það sem nefndin hefur aðallega fjallað um eru þær tæknilegu breytingar sem upp hafa komið hjá ríkisskattstjóra og hjá fjmrn. við útfærslu ásamt öðrum pólitískum ákvörðunum sem teknar hafa verið.
    Ég tel ekki ástæðu til að hafa þennan formála lengri en vil fara yfir nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Þar koma fram ýmis atriði sem kannski skýra málið að nokkru leyti, en þó svo að ekki séu fluttar brtt. eru í nál. ýmis áhersluatriði sem nefndin leggur til. Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp nál. á þskj. 321 sem er, eins og ég áður sagði, frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Það er á þessa leið:
    ,,Með lögum nr. 50/1988 var ákveðið að virðisaukaskattur skyldi tekinn upp í stað söluskatts hinn 1. júlí 1989. Með lögum nr. 110/1988 var ákveðið að fresta gildistöku skattsins til 1. jan. 1990.
    Samkvæmt þeim gögnum, sem lágu fyrir við samþykkt laganna, átti virðisaukaskattur að leiða til einföldunar í skattlagningu, réttlátari skattheimtu og skilvirkari innheimtu. Átti skatturinn ekki að mismuna atvinnugreinum þar sem virðisaukaskattur er hreinn

neysluskattur sem leggst með sama hætti á alla kaupendur vöru og þjónustu --- ríki, sveitarfélög og almenning. Þá var gert ráð fyrir að allt skatteftirlit yrði auðveldara vegna þess eðlis skattsins að í honum felist sjálfvirkt innbyggt eftirlit.
    Með frv. því, sem nefndin fékk til umfjöllunar, er kveðið á um ýmsar tæknilegar útfærslur og breytingar, svo og um ýmsar undanþágur, og er sú ákvörðun að undanþiggja bækur virðisaukaskatti viðamest. Til viðræðna um frv. og hvernig breytingarnar falla að lögunum fékk nefndin eftirtalda aðila á sinn fund: Árna Reynisson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Vilhjálm Egilsson frá Verslunarráði Íslands, Hallgrím Snorrason hagstofustjóra, Ólaf Davíðsson frá Félagi íslenskra iðnrekenda, Þóri Guðjónsson frá Félagi bókagerðarmanna, Ernu Hauksdóttur og Wilhelm Wessman frá Sambandi veitinga- og gistihúsa, Svein Hjört Hjartarson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Þórarin V. Þórarinsson og Ólaf Hjálmarsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Þórleif Jónsson, Harald Sumarliðason og Guðlaug Stefánsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, Gunnar Björnsson frá Meistara- og verktakasambandi byggingarmanna, Heiðar Ástvaldsson og Báru Magnúsdóttur frá Dansráði Íslands, Ásmund Stefánsson og Ara Skúlason frá Alþýðusambandi Íslands, Georg Ólafsson verðlagsstjóra, Sveinbjörn Egilsson og Andra Hrólfsson frá Flugleiðum, innanlandsdeild, Jón G. Tómasson frá Reykjavíkurborg, Sigurgeir Sigurðsson og Magnús E. Guðjónsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Birgi Sigurjónsson og Pál Halldórsson frá BHMR, Ögmund Jónasson, Björn Arnórsson og Sigurð Jóhannesson frá BSRB, Pétur Stefánsson, Ólaf Erlingsson og Guðrúnu Zoega frá félagi ráðgjafarverkfræðinga, Kristin G. Jónsson og Val Þorvaldsson frá Svínaræktunarfélagi Íslands, Bjarna Á. Jónsson frá Félagi kjúklingabænda, Eirík Einarsson og Geir Gunnar Geirsson frá Félagi eggjaframleiðenda, Hörð Bergmann og Torfa Hjartarson frá Hagþenki, félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, Pálma Kristinsson og Gunnar Birgisson frá Verktakasambandinu, Gest Jónsson frá Lögmannafélagi Íslands, Árna Tómasson og Tryggva Jónsson frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Hauk Halldórsson, Hákon Sigurgrímsson og Gunnlaug Júlíusson frá Stéttarsambandi bænda, Eirík Þorbjörnsson frá Sambandi íslenskra rafveitna, Maríu Jónu Gunnarsdóttur frá Sambandi íslenskra hitaveitna og Ágúst Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva.``
    Eins og ég sagði áðan var fundur í morgun í tengslum við virðisaukaskattinn. Þá fengum við á fund nefndarinnar nokkra aðila, eins og ég nefndi áðan, þá Þórð Friðjónsson, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, Sigurgeir Sigurðsson, formann Sambands ísl. sveitarfélaga, Þorleif Pálsson, Landssambandi iðnaðarmanna, en þessir tveir síðarnefndu höfðu áður komið á fund nefndarinnar, Árna Ó. Lárusson frá Olíufélaginu Skeljungi og Jón Guðmann Pétursson fjármálastjóra Hampiðjunnar.
    ,,Nefndinni til ráðuneytis og aðstoðar voru Garðar

Valdimarsson ríkisskattstjóri, Jón Guðmundsson og Ólafur Ólafsson frá embætti ríkisskattstjóra, Snorri Olsen, Bolli Þór Bollason og Maríanna Jónasdóttir frá fjmrn. [þau tvö síðarnefndu frá hagdeild fjmrn.] og Lárus Ögmundsson frá Ríkisendurskoðun. Lögð voru fram gögn frá fjmrn. um áhrif virðisaukaskatts á tekjur ríkissjóðs og áhrif á verðlag í landinu, útgefnar reglugerðir, ásamt öðrum gögnum, þar á meðal orðsendingu frá Ríkisendurskoðun.
    Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til frv.. Meiri hl. nefndarinnar leggur til eftirtaldar breytingar:
    Íslenskar kvikmyndir verði undanþegnar virðisaukaskatti til að efla íslenska kvikmyndagerð og menningu. Þar sem gert er ráð fyrir því að útgáfa tímarita og
blaða teljist ekki til skattskyldrar veltu álítur meiri hl. að öll blaða- og útgáfustarfsemi skuli einnig falla undir ákvæðið. [Um það er gerð brtt., að orð sem er í a-lið 6. gr., ,,sambærilegur``, falli brott.] Þá telur meiri hl. rétt til einföldunar, og vegna tæknilegra örðugleika, að öll sala á orku til húshitunar verði undanþegin virðisaukaskatti, svo og sala laugarvatns [þ.e. ekki staðarins Laugarvatns heldur vatns til sundlauga]. Meiri hl. telur rétt að endurgreiðsla til húsbyggjenda skuli verðbætt og því leggur meiri hl. til að það komi skýrt fram í ákvæðum laganna. Þá eru tekin af öll tvímæli um skyldu til endurgreiðslu virðisaukaskatts til húsbyggjenda.
    Meiri hl. nefndarinnar hefur farið vandlega yfir athugasemdir þeirra aðila sem fyrir nefndina hafa komið og leggur áherslu á að við þær yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið af hálfu ríkisstjórnarinnar, verði staðið og afgreiðir meiri hl. frv. á þeirri forsendu. Skv. yfirlýsingu fjmrh. skal fara fram vinna við gerð frv. um réttarþjónustu fyrir þá einstaklinga sem ekki hafa bolmagn til að leita sér lögfræðiaðstoðar. Þá telur meiri hl. mikilvægt að virðisaukaskattur komi ekki með fullum þunga á starfsemi sveitarfélaga. Tekur meiri hl. því undir bréf fjmrh. frá 7. des. 1989 um að virðisaukaskattur sem sveitarfélög greiði af sorphreinsun, ræstingu og þjónustu sérfræðinga verði endurgreiddur þeim. Meiri hl. telur með hliðsjón af því að ríkissjóði er heimilt að beita mjög hörðum aðgerðum vegna vanskila á virðisaukaskatti að nauðsynlegt sé að settar verði um það skýrar reglur að ríkisfyrirtæki og stofnanir ríkisins borgi dráttarvexti af viðskiptaskuldum sínum eftir þeim reglum sem almennt gilda um slík viðskipti. Jafnframt er brýnt að settar verði afdráttarlausar reglur sem komi í veg fyrir að forsvarsmenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja stofni til viðskiptaskulda sem ekki fást greiddar vegna skorts á fjárlagaheimildum. Í tengslum við gjaldfrest á greiðslu aðflutningsgjalda í tolli vill meiri hl. taka fram að mikilvægt er að slíkur gjaldfrestur verði veittur að því er varðar aðföng innlendrar framleiðslu og olíuviðskipti. Þá telur meiri hl. brýnt að fjmrn. kanni kosti þess að veita gjaldfrest almennt í innflutningi og gæti sú breyting átt sér stað í nokkrum áföngum til að milda áhrifin á greiðslustöðu ríkissjóðs.
    Meiri hl. nefndarinnar vill til áréttingar taka fram

að hann lítur svo á að nýsmíði skipa falli undir 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. gildandi laga um virðisaukaskatt.
    Afar brýnt er í tengslum við þessar miklu kerfisbreytingar sem felast í upptöku virðisaukaskatts að skattyfirvöld leiðbeini fyrirtækjum og einstaklingum fyrst í stað við bókhald og gerð framtala og grípi ekki til harðra refsiaðgerða meðan kerfisbreytingin gengur yfir. Meiri hl. leggur áherslu á strangt verðlagseftirlit við upptöku virðisaukaskattsins.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. Undir nál. skrifa Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Skúli Alexandersson og Eiður Guðnason.
    Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð í framsögu um þetta nál. en áskil mér að sjálfsögðu rétt til þess að koma hér upp aftur ef tilefni verður til og til mín verður beint einhverjum spurningum.