Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Þegar hugmyndir um virðisaukaskatt voru kynntar í Ríkissjónvarpinu fyrir hálfum mánuði var hæstv. fjmrh. kallaður til og þar lýsti hann því yfir að stefna Sjálfstfl. væri að þrep í virðisaukaskatti yrði eitt og það yrði 25%. Þetta hefur verið rekið ofan í fjmrh. bæði í ræðustól á Alþingi í Sþ. og einnig hér í Ed. Hæstv. fjmrh. endurtók þessi ósannindi í útvarpsumræðum. Hann lýsti því yfir í Sþ. að hann mundi taka ummæli sín aftur ef í ljós kæmi að hann færi mmeð rangt mál. Í Sþ. las ég upp þá samþykkt sem gerð var af Sjálfstfl. á sl. hausti og eins og hægt er að fletta upp í þingtíðindum kom fram að Sjálfstfl. samþykkti að stefna hans væri að virðisaukaskattur yrði í tveim þrepum. Aðrar samþykktir hefur þingflokkur Sjálfstfl. ekki gert um þessi mál á sl. hausti.
    Ég vil nú enn einu sinni beina því til hæstv. fjmrh. að hann standi við orð sín í þessum efnum, að hann biðjist afsökunar á því að hann fór með rangt mál í þessu tilviki. Það er auðvitað óþolandi þegar Ríkissjónvarpið gefur ráðherra tækifæri til að koma einum fram í sjónvarpsþætti og stjórnarandstaðan er ekki til andsvara eins og þó er áskilið í útvarpslögum að hún eigi að fá tækifæri til þannig að bæði sjónarmið geti notið sín, þá skuli hann misnota sína aðstöðu með þessum hætti. Það er auðvitað siðlaust. En því miður er það ekkert einsdæmi um þennan hæstv. fjmrh. (Gripið fram í.) Og ég vænti þess satt að segja að hann komi hér við þessa umræðu upp í ræðustólinn og biðji afsökunar á sínum ummælum. Hann yrði maður að meiri ef hann vildi gera það. ( Fjmrh.: Má ég afhenda þér grein úr Pressunni?)
    Hæstv. fjmrh. rétti nú að mér grein sem Páll Vilhjálmsson, blaðamaður í málgagni Alþfl., Pressunni, hefur skrifað hinn 14. des. Í þessari grein kemur fram að hann hafði ekki skrifað niður eina einustu setningu eftir mér orðrétt
í því viðtali sem ég átti við hann. Það kemur enn fremur fram að þetta viðtal var ekki tekið upp á snældu eins og nauðsynlegt er til þess að trúnaður geti skapast á milli stjórnmálamanna og blaðamanna. Ef vitnað er til orða manna innan gæsalappa ber að hafa þau nákvæmlega rétt eftir. ( Fjmrh.: Vill þingmaðurinn ekki lesa þetta?) Ég er á hinn bóginn ekki undrandi á því þó að hæstv. fjmrh. reyni að þráast við að viðurkenna ósannindi sín í þessum efnum. Hann er þannig skapi farinn að hann kýs fremur að dreifa í kringum sig hálfsögðum sögum eða hreinum uppspuna til þess að reyna að fegra sinn málstað. Ég mun ekki, herra forseti, þó ég sjái það á hæstv. fjmrh. að hann langi til að tefja þessa umræðu, víkja frekar að þessu atriði en ég harma að viðbrögð hans nú skuli vera þannig að ekki verður annað lesið út úr þeim en hann sé ekki maður fyrir þeim orðum sínum í Sþ. að hann ætli að leiðrétta það sem missagt var í sjónvarpinu. En á hinn bóginn get ég fullvissað hæstv. fjmrh. um að ég á eftir að minna hann á það að upp á hann

stendur að leiðrétta það sem hann fór rangt með, upp á hann stendur að sýna að hann sé maður til þess að viðurkenna þegar hann fer með rangt mál.
    Öllum getur skotist. Sumum skýst sjaldan, öðrum oft. Ef menn gera slíkt óviljandi er auðvitað ekkert við því að segja. En ef maður, sem gengur hér fram í meiri og þyngri skattheimtu en áður eru dæmi til í sögunni, er að reyna að réttlæta sjálfan sig með lyginni, þá er satt að segja of langt gengið.
    Ég skal svo, herra forseti, ekki víkja nánar að þessu atriði í þessari ræðu en vel má vera að það fari eftir viðbrögðum hæstv. fjmrh. hvaða ástæðu ég telji mig hafa við þessa umræðu til að víkja nánar að hegðun fjmrh. í þessu dæmi. Við höfum séð það oft og tíðum að fjmrh. er svolítið uppstökkur, honum er svolítið órótt og þegar mestur ákafinn er á honum, þá gætir hann ekki að því hvað hann segir. Þetta höfum við oft orðið varir við og er auðvitað bágt fyrir mann í þessari stöðu.
    Það fór ekki hjá því við athugun á frv. til breytingu á lögum um virðisaukaskatt, þegar við í nefndinni höfðum talað við fulltrúa fjmrn. og ríkisskattstjóra og aðstoðarmann hans, að við sannfærðumst um það, a.m.k. í stjórnarandstöðunni, að undirbúningur þessa máls hafði ekki farið eftir áætlun. Þó svo hæstv. fjmrh. hafi lýst því yfir hvað eftir annað að allur undirbúningur málsins hafi verið eftir áætlun, nákvæmlega eins og hann vildi, er öldungis ljóst að þar skaust hæstv. ráðherra. Auðvitað veit hann það jafn vel og ég að undirbúningur þessa máls fór ekki eftir áætlun, hvorki tæknilegur undirbúningur né pólitískur undirbúningur. Augljósast er það á því að hann var mjög bjartur í framan á vordögum þegar hann bauð stjórnarandstöðunni upp á að hún skyldi fá að fylgjast með undirbúningi málsins. Fulltrúar hennar yrðu kallaðir til í sérstakri nefnd sem ætti að fjalla um álitamál og stjórnarandstaðan yrði ekki leynd neinu.
    Þetta rifjaði ég upp á fundi í fjh.- og viðskn. og fór m.a. fram á það við fulltrúa fjmrn. og formann nefndarinnar að stjórnarandstaðan fengi sem fyllstar upplýsingar um þær athugasemdir sem fjmrh. hefðu borist við einstök atriði þessa máls. Á fundi í morgun kom m.a. í ljós að bréfunum sem olíufélögin höfðu skrifað fjmrh. hinn 25. okt. sl. og ítrekað hinn 27. nóv.
sl. hafði verið stungið undir stól og varða þessi bréf þó mjög verulegan þátt í framkvæmd virðisaukaskattsins.
    Þetta var ekki eina dæmið um að reynt var að leyna fulltrúa stjórnarandstöðunnar þeim gögnum sem er óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar þegar þingnefnd fjallar um jafn viðurhlutamikið mál og hér er til umræðu. Fjallar um hvort tryggilega sé frá því gengið að sú skattkerfisbreyting geti farið vel fram sem er fólgin í því að taka upp virðisaukaskatt í stað söluskatts. Ef maður reynir að réttlæta hæstv. fjmrh. --- því auðvitað veit ég að hann mun ekki koma hér upp í ræðustól og segja: Ég sagði ósatt þegar ég sagði að allur undirbúningur hefði gengið eftir áætlun --- er

ástæðan fyrir þessu m.a. sú að þvílík ringlulreið hefur verið innan ríkisstjórnarinnar um þetta efni og um ríkisfjármálin í heild að hæstv. ráðherra hafði enga stjórn á atburðarásinni. Það væri kannski fróðlegt, ef hann kemur hér upp á eftir á nýjan leik, að fá upplýsingar um hvort hann telji enn að undirbúningur þessa máls hafi gengið skv. áætlun.
    Ég verð líka, herra forseti, að lýsa því yfir að því fer víðs fjarri að þingnefndinni hafi unnist tími til þess að gaumgæfa þá hluti nægilega sem fyrir nefndina voru lagðir. Ég tók eftir því að formaður fjh.- og viðskn. lýsti því yfir að meiri hl. nefndarinnar hefði athugað þessi mál öll mjög rækilega. Efast ég ekki um að hann hafi haldið sérstaka fundi með meiri hl. til að ræða álitamálin og vega og meta hvaða atriði það væru sem meiri hl. teldi sérstaka ástæðu til þess að breyta eða til að leggja áherslu á. Hitt liggur ljóst fyrir að ég vakti máls á því á fundi nefndarinnar í morgun hvort það hefði þýðingu að minni hl. sýndi meiri hl. þær brtt. sem hann vildi fram leggja. Ég fékk það svar að það væri þýðingarlaust, til þess væri ekki tími. Það er með öðrum orðum ekki tóm til þess, í svo viðurhlutamiklu máli sem þetta er sem við tölum um nú, að meiri hl. geti rætt við minni hl., ekki einu sinni lauslega, um þær sérstöku breytingar sem hann hefur áhuga á. Sumar af þeim brtt. sem við í 1. minni hl. höfum lagt fram eru tæknilegs eðlis og verður ekki öðru trúað en a.m.k. tveir eða þrír þingmenn stjórnarmeirihlutans hafi --- ég vil segja svo frjálsar hendur að þeir hafi einhver tök á því að rétta upp höndina með brtt. sem fela í sér hreinar leiðréttingar, að handjárnin haldi ekki svo vel að ekki megi einu sinni samþykkja það sem öllum má ljóst vera að horfi til bóta, er til skýringar til að taka af vafa og breytir ekki þeirri yfirlýstu niðurstöðu sem stjórnarmeirihlutinn segist hafa í þessu máli.
    Það kom glögglega fram í máli ríkisskattstjóra að hann telur að undirbúningur þessarar skattkerfisbreytingar sé svo í molum að fyrirsjáanlegt sé að ýmsir aðilar úti í atvinnulífinu lendi í erfiðleikum þegar kemur að því að ákvarða með hvaða hætti rétt sé að leggja skattinn á, hvar réttur sé til endurgreiðslu þegar þannig stendur á og jafnvel undir vissum kringumstæðum leikur vafi á því hvenær virðisaukaskatturinn gjaldfellur. Til þess að taka dæmi um hið síðasta vil ég beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh. hvenær hann telji að virðisaukaskattur af sláturfé að hausti gjaldfalli. Telur hann að sláturleyfishöfum beri að standa skil á öllum virðisaukaskattinum á næsta greiðsludegi, hinn 5. des. eða telur hann að eitthvað af virðisaukaskattinum megi kannski greiða eftir áramótin? Gæti hæstv. fjmrh. svarað því úr sæti sínu hvort það er svo að sláturleyfishafar eigi að skila öllum virðisaukaskattinum fyrir áramót, 5. des., án tillits til þess hvernig greiðslum til bænda er háttað? Hvað ætli hæstv. fjmrh. vilji segja um þetta atriði? Ekki eitt einasta orð. Stundum grípur hann fram í. Hann grípur kannski ekki fram í til að skýra mál. Þetta er augljóst dæmi sem gott væri að fá upplýsingar um nú en svarið lætur á sér standa.

    Samkvæmt gildandi lögum er virðisaukaskattur 22%. Ríkisstjórnin leggur til að prósentan hækki og verði 24,5%. Þessi hækkun hefur í för með sér að kerfisbreytingin skilar a.m.k. hátt á annan milljarð kr. í viðbótartekjur fyrir ríkissjóð á heilu ári. Það sem er kannski enn þá alvarlegra er að á þeim tíma sem hæstv. fjmrh. hugsaði sér að virðisaukaskatturinn væri 26% hélt hann því líka fram að virðisaukaskatturinn mundi skila jafnmiklum tekjum og söluskatturinn gerir.
    Í greinargerð með frv. til laga um virðisaukaskatt er sérstaklega tíundað í milljörðum kr. hver sé skattstofn söluskatts að óbreyttum lögum og hver virðisaukaskatts skv. frv. Og skv. þessu yfirliti kemur fram að virðisaukaskatturinn gefi 2 milljörðum minna til ríkissjóðs þegar allt sé talið en óbreyttur söluskattur.
    Nú hefur okkur í fjh.- og viðskn. borist leiðrétting frá fjmrn., þar sem fram kemur að skoðun ráðuneytisins er sú að þarna sé skekkja upp á hálfan annan milljarð, ég vil segja upp á 2 milljarða út frá tölum ráðuneytisins. Þetta er auðvitað mjög fróðlegt en ber á hinn bóginn ekki vott um að undirbúningurinn að því að ákvarða skatthlutfallið hafi verið réttur. En nú vill því miður svo til að þetta er heldur ekki rétt.
    Í útreikningum fjmrn., sem birtast í grg. með frv., var aðeins afmarkaður hluti breytingarinnar dreginn fram. En þegar kerfisbreytingin í heild er
skoðuð er ljóst að ríkissjóður mun hagnast um allt að 1,6 milljarða kr. Útlistun fjmrn. var eftirfarandi: ,,Tekjuáhrif skv. fjmrn. í töflu. Tekjur af söluskatti 39,8 milljarðar, tekjur af virðisaukaskatti 37,8 milljarðar.`` Þegar tekjuáhrif kerfisbreytingarinnar í heild eru metin með hliðstæðum hætti og gert var þegar frv. til laga um virðisaukaskatt var lagt fram í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar kemur þveröfug niðurstaða í ljós, eða hagnaður sem nemur 1,6 milljörðum kr. eins og sést af eftirfarandi tölum:
    Tekjur af söluskatti nema 39,8 milljörðum kr., jöfnunargjald, sá hluti þess sem rennur í ríkissjóð, er um 200 millj. kr., endurgreiddur söluskattur 1,6 milljarðar, niðurgreiðslur skv. fjárlögum 4,1 milljarður og 16% álag á niðurgreiðslur vegna verðbólgu 700 millj., sem sýnir tekjuþörf upp á 33,6 milljarða. Skv. frv. nema tekjur af virðisaukaskatti 37,8 milljörðum, niðurgreiðslur skv. fjárlögum eru 4,1 milljarður, niðurgreiðslur á virðisaukaskatti eru áætlaðar 1 milljarður. Jöfnunargjald kemur til tekna upp á 500 millj. og áhrif bættrar innheimtu eru hér áætluð 1 milljarður kr. Tekjur af virðisaukaskattskerfi gefa þannig nettó 35,2 milljarða, tekjuaukning við skattkerfisbreytingu nemur þannig 1,6 milljörðum kr. Inn í þessa mynd eru teknir allir þeir þættir sem breytast eða eru hluti af söluskattskerfinu.
    Jöfnunargjald hefur verið lagt á innfluttar vörur sem tollar féllu niður af á sínum tíma með fríverslunarsamningum við EFTA og Evrópubandalagið. Hluti af gjaldinu hefur verið notaður til þess að endurgreiða útflutningsiðnaði

uppsafnaðan söluskatt. Nú er áformað að halda áfram innheimtu jöfnunargjalds að upphæð hálfum milljarði kr. en hætta endurgreiðslum. Tekjur haldast því uppi skv. fjárlagafrv. en útgjöld sparast. Uppsafnaður söluskattur hefur verið endurgreiddur í sjávarútvegi og landbúnaði og söluskattur hefur verið niðurgreiddur að hluta á neyslufiski. Þessar endurgreiðslur nema samtals 1,6 milljörðum kr. og falla niður í virðisaukaskattskerfinu.
    Við upptöku virðisaukaskatts þarf að gera ráð fyrir endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts af birgðum fiskvinnslunnar. Skv. upplýsingum frá helstu útflytjendum sjávarafurða má reikna með að birgðir innan lands um næstu áramót verði á bilinu 5,5--6 milljarðar kr. Miðað við það endurgreiðsluhlutfall uppsafnaðs söluskatts sem gilt hefur að undanförnu má gera ráð fyrir að um 100 millj. kr. þurfi til að endurgreiða fiskvinnslufyrirtækjum þann söluskatt sem þau hafa greitt af aðföngum vegna framleiðslu þessara birgða.
    Mér er ekki kunnugt um að ráð sé fyrir því gert í fjárlögum að þessar 100 millj. verði greiddar. Ég vil bæta því við að því verði að treysta að séð verði fyrir fjármagni til endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts hjá sjávarútveginum á þessu ári en því var heitið við gerð kjarasamninga á sl. vori að samkeppnisstaða sjávarútvegsins yrði treyst og einn liðurinn í því var að endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti héldist vegna framleiðslu á þessu ári.
    Í söluskattskerfi hefðu niðurgreiðslur á næsta ári orðið svipaðar að upphæð og á yfirstandandi ári að viðbættu álagi vegna almennra verðlagsbreytinga sem ríkisstjórnin hefur talið verða 16% milli áranna 1989 og 1990. Í söluskattskerfi hefðu niðurgreiðslur á næsta ári því orðið um 4,8 milljarðar kr. skv. forsendum fjárlagafrv. Með breytingunni yfir í virðisaukaskatt er hugmynd ríkisstjórnarinnar að hluti niðurgreiðslnanna teljist endurgreiðsla á virðisaukaskatti og til þess hluta þeirra verði varið um 1 milljarði. Að öðru leyti er áformað að niðurgreiðslur verði óbreyttar í krónutölu milli ára. Samtals er því áformað að niðurgreiðslur á næsta ári verði 5,1 milljarður kr. Þá hefur verið flutt á milli endurgreidds söluskatts á neyslufiski og niðurgreiðslna á virðisaukaskatti.
    Áhrif bættrar innheimtu eru hér talin vera um 1 milljarður kr. Þetta er sama upphæð í krónutölu og kemur fram í frv. um virðisaukaskatt í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Miðað við verðlagshækkanir ætti þessi tala að vera 1,5 milljarðar kr., en hér er miðað við 1 milljarð vegna þess að innheimta söluskatts hefur batnað frá því sem áður var, m.a. vegna áhrifa af skattkerfisbreytingunni í ársbyrjun 1988.
    Að teknu tilliti til ofangreindra þátta og þeir skoðaðir með sama hætti og gert var í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar þegar Jón Baldvin Hannibalsson gegndi embætti fjmrh. er því ljóst að ríkissjóður hagnaðist um 1,6 milljarða kr. ef frv. nær fram að ganga eins og það liggur nú fyrir.
    Hæstv. forseti. Ég veit að ráðherrar hafa knappan tíma til að leysa deilumál sín í ríkisstjórninni, sem

hefur tekið mjög langan tíma á þessu hausti, en ég vil biðjast undan því að þeir blandi þeim deilum inn í virðisaukaskatt hér í deildinni. ( Fjmrh.: Ráðherrann er að lesa brtt.) Er fjmrh. orðinn órólegur núna? Á hann bágt með að þegja? ( Fjmrh.: Nei, nei, ég var bara að skýra málið.) Heldur áfram, já, aumingja fjmrh. að fá ekki að tala. Það eru eiginlega vandræði að það skuli ekki vera settur sérstakur hljóðnemi fyrir munn fjmrh. svo hann geti haldið áfram að tala sem mest. Ég verð eiginlega að taka orð mín aftur, ég vil eiginlega óska þess að hann verði látinn í friði þegar honum er mál, þannig að hann megi tala alveg viðstöðulaust. Sérstaklega
ef hæstv. forseti gæti nú komið því til leiðar að fjmrh. talaði þegar hann er beðinn um að segja já eða nei, sem hann gerir ekki. Ef hann er beðinn um að svara spurningum og upplýsa mál þá þegir hann. Það er svo undarlegt hvers eðlis athugasemdir hans eru. Þær eru yfirleitt ekki í þá átt að upplýsa mál. Við áttum orðræðu hér saman, ég og hæstv. fjmrh., um hvort matvæli mundu lækka um 8,8% um áramót. Og því var heitið, bæði héðan úr þessum ræðustóli og sérstaklega tekið fram í fréttatilkynningu sem blöðum var send, að fjh.- og viðskn. mundi fá allar upplýsingar til þess að hún gæti metið hvort þetta stæði nú að vöruverð lækkaði um 8,8% á næsta ári. Nú stóð það að vísu ekki að við fengjum allar upplýsingar, það stóð ekki, það var til of mikils mælst. Ég vil þessu til áréttingar lesa hér bréf sem fjh.- og viðskn. barst hinn 12. des. sl., vinnuskjal, þar sem gerður er greinarmunur á því sem hér stendur: ,,Munurinn á endurgreiðslum í virðisaukaskatti og niðurgreiðslum af búvörum.`` Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Jafnvel þó stefnt sé að breytingum á hefðbundnum niðurgreiðslum á næsta ári skv. fjárlagafrv. er á þessari stundu ekki hægt að gefa ákveðin svör við því hvernig búvöruverð kemur til með að þróast í samanburði við verð á öðrum vörum. Það fer eftir því hvernig staðið er að þessum breytingum. Þar kemur margt til greina. Jöfn lækkun yfir alla línuna eða meiri lækkun á einstökum tegundum, minni á öðrum. Um þetta hefur ekki verið tekin ákvörðun af hálfu stjórnvalda enda hefur innbyrðis vægi niðurgreiðslna milli einstakra tegunda iðulega verið breytt á undanförnum árum. Til þess að gefa einhverja hugmynd um þetta, hvernig þessi þróun gæti litið út, má taka tilbúið dæmi af verði mjólkurlítra.`` --- Tilbúið dæmi. Síðar í bréfinu segir: ,,Þróun mjólkurverðs á næsta ári ræðst að öðru leyti ekki síst af því hvernig niðurgreiðslum verður skipt niður á einstakar tegundir. Þannig geta stjórnvöld tekið þá ákvörðun að halda verði á mjólkurlítra óbreyttu allt næsta ár með því að færa niðurgreiðslur frá öðrum vörutegundum yfir á mjólk, t.d. frá smjöri. Þetta hefur raunar verið gert í nokkrum mæli á þessu ári. T.d. hafa niðurgreiðslur á rjóma verið felldar niður. Þessi stefna mundi þýða meiri hækkun á smjöri yfir árið en minni hækkun á mjólkurverði. En það má auðvitað hugsa sér ýmsar aðrar útfærslur á slíku dæmi. Þess

vegna er einfaldast að líta á heildarstærðir í þessu samhengi. Þær eru sem fyrr segir, annars vegar 1 milljarður til sérstakra endurgreiðslna á virðisaukaskatti sem leiða til lækkunar á vöruverði, hins vegar lækkun niðurgreiðslna að raungildi um 550 millj. kr., sem leiðir til hækkunar á vöruverði.``
    Heildargreiðslurnar segja að hin raunverulega niðurgreiðsla hækki um 450 millj. kr. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Var það svar af þessu tagi sem hann hafði í huga þegar hann lofaði hér við 1. umr. málsins að stjórnarandstaðan fengi fyllstu upplýsingar um hvernig niðurgreiðslum yrði háttað á næsta ári? Var það þannig svar? Meinti ráðherrann að hann mundi gefa mér kost á að fara ofan í hvern einstakan þátt þannig að ég fengi upplýsingar um að ekki væri búið að ákveða hvernig yrði staðið að neinu í sambandi við niðurgreiðslur á næsta ári? Hvað meinti hæstv. fjmrh. með því að gefa nefndinni upplýsingar? Hvernig stendur á því að við fáum svona pappír í hendurnar þegar því er lofað hér úr ræðustólnum að við eigum að fá upplýsingar? Ber hæstv. ráðherra enga virðingu fyrir því sem hann segir, enga? Ég er ekki að biðja hann að bera virðingu fyrir þingdeildinni, því ég veit að hann gerir það ekki, en ber hann enga virðingu fyrir sínum orðum? Er honum nákvæmlega sama hvað hann lætur út úr sér hér í stólnum, nákvæmlega sama?
    Upplýst er á hinn bóginn í nefndinni að verð á þeim vörum sem tilgreindar eru í frv. í 13. gr., þ.e. endurgreiðsla hluta virðisaukaskatts af neyslumjólk, dilkakjöti, neyslufiski og fersku innlendu grænmeti muni nema nægilegu til að einn dag á árinu, hinn 1. jan., muni þessar vörutegundir lækka um 8,8%. Á hinn bóginn var tekið fram af hagdeild fjmrn. að þessar sömu vörur mundu hækka um 6%, ég man ekki hvort hann sagði 5,5--6% ( Gripið fram í: 5--6%.) umfram verðbólgu á næsta ári og er þá gengið út frá þeim forsendum að verðbólga frá upphafi til loka árs sé 11% sem samrýmist raunar ekki öðrum viðmiðunum sem gerðar eru í sambandi við útreikninga t.d. á persónuafslætti í sambandi við staðgreiðslukerfi skatta, svo ég víki að því. Ef verðbólgan verður minni hækka þessar vörur enn meir umfram verðbólgu og verðbólgan þarf raunar ekki að verða miklu meiri til þess að þessi 8,8% lækkun verði öll tekin til baka á árinu og meira til. Ég mun víkja nánar að þessum þætti síðar þegar ég ræði brtt. 1. minni hl. nefndarinnar.
    Við athugun málsins í fjh.- og viðskn. kom í ljós að mikil óvissa ríkir um framkvæmd veigamikilla þátta. Þegar málið var afgreitt úr nefndinni lá ekki fyrir hvernig framkvæmd virðisaukaskatts yrði háttað í sambandi við ýmis útgjöld á vegum sveitarfélaga. Nefndin fékk upplýsingar um að athugun hefði verið gerð á því hvernig virðisaukaskattur kæmi út hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og benti hún til þess að útgjaldaaukning sveitarfélaganna yrði 900 millj. kr. vegna breytingarinnar frá söluskattskerfinu. Í þessu eru að vísu verulegir óvissuþættir þar sem nýjar reglugerðir hafa verið að berast
frá degi til dags. Fulltrúi fjmrn. nefndi 400 millj. kr.

útgjaldaauka á fundum í nefndinni og mér er sagt að fjmrh. hafi talað um 400--500 millj. kr. útgjaldaauka á fundi með sveitarstjórnarmönnum.
    Þetta sýnir að við undirbúning málsins hefur fjmrh. ekki gefið sveitarfélögunum kost á að fylgjast með. Ekki verður betur séð en að forsendan fyrir því samkomulagi sem á sl. vori var gert um nýja verkefna- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga sé brostin eins og framkvæmd virðisaukaskattsins er hugsuð, svo ekki sé minnst á nýjasta upphlaup fjmrh. Og þegar ég tala um nýjasta upphlaup fjmrh. vísa ég að sjálfsögðu til þess að hann er ekki reiðubúinn í öðrum greinum til að standa við þá samninga og það samkomulag vil ég segja sem gert var á sl. vori, í tengslum við þær breytingar sem þá voru gerðar á verkefna- og tekjuskiptingu ríkisins. Fjmrh. reynir í þeim efnum að verja sig með því að borgarstjórinn galdri enga grýlu úr stjórninni. Ég held að það þurfi ekki að galdra neina grýlu úr stjórninni. Ég held að þessi ríkisstjórn sé orðin grýla fyrir alla landsmenn. Ég held að það sé alveg ljóst. Það er alger misskilningur ef hæstv. fjmrh. heldur að það sé bara borgarstjórinn í Reykjavík og bara bæjarstjórnin á Seltjarnarnesi sem eru óánægð með þetta nýjasta upphlaup hans.
    Mér bárust í dag tvö telexskeyti. Annað er frá bæjarstjórn Dalvíkur, svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta, dagsett í dag:
    ,,Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Dalvíkur þann 14. des. 1989.
    Bæjarstjórn Dalvíkur mótmælir fram komnum hugmyndum um frestun á gildistöku laga nr. 87/1989, um breytingar á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, að hluta eða í heild. Bæjarstjórn Dalvíkur telur fráleitt að deilur ríkisins og Reykjavíkurborgar leiði til slíkrar niðurstöðu og meðferðar á máli sem samið hefur verið um af ríki og sveitarfélögum landsins.

Virðingarfyllst,

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri,

Dalvík.``


    Hitt skeytið er dagstt á Akureyri 15. des. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Á fundi sínum 14. des. sl. samþykkti bæjarráð Akureyrar að mótmæla harðlega öllum hugmyndum sem fram hafa komið um frestun á framkvæmd laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
Virðingarfyllst,

Sigfús Jónsson bæjarstjóri.``


    Ég held þess vegna að það sé fullbillegt hjá hæstv. ráðherra ef hann heldur að hann sé hér í einhverju einkastríði við borgarstjórn Reykjavíkur. Með yfirlýsingum sínum um það að hann ætli ekki að standa við löggjöfina frá því í vor um nýja tekju- og verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hefur hann brugðist í sambandi við framkvæmd

skattkerfisbreytingarinnar eins og hún lýsir sér í reglugerðum og eins og henni hefur verið lýst á fundum í fjh.- og viðskn. Það er öldungis ljóst að sá nýi tekjuauki sem fjmrh. hyggst ná einungis í gegnum virðisaukaskattinn gerir miklu meira en vega upp á móti því hagræði sem hin breytta verkefnaskipting átti að hafa í för með sér og kom fyrst og fremst til góða hinum minnstu sveitarfélögum.
    Ég skal ekki, herra forseti, rekja hér í einstökum atriðum þá glöggu greinargerð sem nefndarmenn hafa fengið frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um þessi mál. Ég vil árétta það sem formaður Sambands ísl. sveitarfélaga sagði á fundi nefndarinnar að þetta mál hefði verið kynnt fyrir sveitarstjórnarmönnum á þann veg að eingöngu væri um skattkerfisbreytingu að ræða og sveitarfélögunum hefði aldrei dottið í hug að þau þyrftu að hafa uppi einhvern sérstakan þrýsting til þess að tryggja hagsmuni sína í málinu.
    Það veldur mér miklum vonbrigðum að meiri hl. fjh.- og viðskn. skuli ekki hafa kjark í sér til þess einu sinni að lýsa því yfir að þetta mál hljóti að koma til athugunar og endurskoðunar milli deilda þannig að við getum þá tekið málið aftur upp hér til Ed. og afgreitt það skjótlega ef lausn fæst á þessu máli. Það er auðvitað mjög sorglegt að meiri hl. nefndarinnar skuli ekki hafa tekið þann kostinn en hins vegar mjög glöggt um þann tímaskort sem þingið hefur verið í, glöggt um það að kastað hefur verið höndunum að undirbúningi þessa máls, að hæstv. fjmrh. skuli ekki við athugun málsins nú á sl. sumri og í haust hafa séð ástæðu til þess að efna til víðtæks samráðs og samvinnu við samtök sveitarfélaga um það hvernig staðið yrði að breytingunni.
    Nú er það auðvitað svo að sveitarfélögin hafa greitt ríkisvaldinu skatta af margvíslegri starfsemi. Þannig hefur t.d. verið greiddur skattur af vinnuvélum við framkvæmdir sveitarfélaganna. Nú stendur fyrir dyrum að leggja í mikla framkvæmd á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, nýtt frárennsli, og er búist við að það muni kosta um 2 milljarða kr. Ef söluskattskerfið yrði við lýði meðan þetta verk yrði unnið næmu skattar sveitarfélaganna um 200--250 millj. kr. til ríkisins. Þetta er þekkt stærð og var tekin inn í þá tekjuskiptingu sem var milli ríkis og sveitarfélaga. En með breytingunni eins
og hæstv. fjmrh. hugsar sér hana ætlar hann sér að bæta 250 millj. kr. við þessa tölu. Fyrir það að sveitarfélögin ætla að leggja í 2 milljarða kostnað til að eyða mengun á þessu svæði, auka hollustu á Stór-Reykjavíkursvæðinu, á að skattleggja þau alveg sérstaklega um 250 millj. kr. í ríkissjóð til viðbótar því sem er samkvæmt núgildandi kerfi þannig að heildarskattheimtan af þessum sökum verður um hálfur milljarður kr. Mér er sagt að þeim í fjmrn. finnist þau ekkert of góð til að borga þetta. Og ég varð ekki var við að það hreyfðist andlitsdráttur á einum einasta nefndarmanni í meiri hl. meðan verið var að skýra frá þessu í fjh.- og viðskn. í morgun. Þetta þykir bara allt í lagi.
    Hluti eins og umhverfismál, mengunarvarnir,

landgræðslu, skylduverkefni sveitarstjórna á að nota að féþúfu. Þó tók steininn úr þegar ég spurði ríkisskattstjóra að því hvort fjmrn. gerði ráð fyrir því að unglingavinna yrði undanþegin virðisaukaskatti. Sveitarfélögin hafa í atvinnubótavinnu sumpart og sumpart auðvitað til þess að fegra bæina lagt verulegt fjármagn í svokallaða vinnuskóla. Eftir því sem börnin verða eldri gera þau auðvitað meira gagn og síðustu ár sín í þessum vinnuskólum eru þau í færum um það að ráðast í alls konar verk sem líka gætu verið boðin út á almennum vinnumarkaði. Og þá er það úrlausn ríkisskattstjóra að það eigi að greiða virðisaukaskatt af unglingavinnunni ef hugsanlegt er að bjóða hana út. Þetta er auðvitað alveg forkastanlegt, mjög undarlegt að nefndarmenn meiri hl. skuli ekki hafa tekið af skarið í þessum efnum. Ég er á hinn bóginn ekki í neinum vafa um það vegna þess að ég hef vakið máls á þessari sérstöku skattheimtu að fjmrh. mun gefa eftir í þessu máli. Ég er í engum vafa um það að hann mun haga framkvæmdinni með þeim hætti að vinnuskólinn sleppi, enda má segja að nóg sé lagt á sveitarfélögin samt.
    Annað atriði þessu tengt sem fram kom í nefndinni var að meiri hl. hafði ekki uppburði né kjark í sér til þess að flýta því að virðisaukaskattur yrði lagður niður af bókum frá 1. sept. áður en skólarnir byrjuðu eða um leið og skólarnir byrjuðu nú á næsta hausti. Ég hef rætt þetta mál við kennara. Þeir hafa sagt mér að þeir muni reyna að haga kennslunni með þeim hætti á næsta hausti að börnin þurfi ekki að kaupa kennslubækurnar fyrr en eftir 15. nóv. Það verður mikill þrýstingur innan skólanna frá foreldrunum á kennarana að draga í lengstu lög á langinn að skylda börnin til að efna til innkaupanna. Ég hef talað við nokkra stráka, son minn og félaga hans sem eru í Verslunarskólanum og eru markaðshyggjumenn, að vísu ekki sósíalískir markaðshyggjumenn eins og hæstv. fjmrh., en markaðshyggjumenn eigi að síður eins og hann, og þeir kunna á hann, þeir kunna á markaðshyggjuna. Þeir vita að hæstv. fjmrh. hefur gaman af því að lýsa því yfir að hann sé sósíalískur markaðshyggjumaður. Hinn sósíalíski markaðshyggjumaður veit auðvitað að það er góður bisness í september og það er góður bisness í október og markaðshyggjumaðurinn sósíalíski, hæstv. fjmrh., ætlar að nota markaðinn þegar hann gefst og þess vegna ætlar hann ekki að leggja niður söluskattinn af bókunum fyrr en 15. nóv. En þeir sjá við honum, strákarnir, því að þeir hafa líka lært markaðsvit. Og auðvitað munu þeir ekki kaupa bækurnar fyrr en hæstv. fjmrh. er búinn að lækka skattinn þannig að þeir sjá við honum. Og þannig er þetta nú yfirleitt að frjálshyggjumarkaðsmennirnir sjá við hinum sósíalísku markaðshyggjumönnum og hinir sósíalísku markaðshyggjumenn verða því miður alltaf að lúta í lægra haldi þegar þeir eigast við. En burt séð frá öllu gamni, þá hlýt ég að leggja áherslu á það að þetta mál verði að skoða nánar.
    Hv. 6. þm. Reykv. hefur ásamt okkur flutt brtt. einmitt um þetta sérstaka atriði. Við erum sammála

um það að siðferðilega sé óverjandi að halda til streitu bókaskattinum á skólabörnin. Nú er ég alveg reiðubúinn til þess, hæstv. fjmrh., eða við þingmennirnir erum alveg sammála um það að draga tillöguna um að flýta þessum degi til 1. sept. til baka til 3. umr. ef það mætti verða til þess að stjórnarflokkarnir endurskoðuðu þessa litlu ákvörðun. Efnislega er líka rétt frá almennum sjónarmiðum að miða við 1. sept. fremur en 15. nóv. Bóksala yfir sumarmánuðina er tiltölulega lítil þannig að 1. sept. mundi ekki breyta miklu um rekstur bókaverslana, en á hinn bóginn hafa ýmsir verið að búa í haginn fyrir jólaannirnar, kannski tekið daginn snemma og reynt að kaupa gjafir og bækur í október eða nóvembermánuði. Öll munu þessi bókakaup dragast á langinn. Hins vegar munu bókabúðirnar fyllast sama daginn og virðisaukaskatturinn verður lækkaður. Sama daginn þegar allar bækur í landinu lækka um 20% eða svo.
    Ég bið nú hæstv. fjmrh. að athuga hvort hann hafi ekki við höndina lykilinn að handjárnunum þannig að hann geti gefið þingmönnum stjórnarmeirihlutans tækifæri til að greiða atkvæði með okkur í þessu máli. Þó svo hann loki handjárnunum strax á eftir þá væri það nú mikill munur.
    Ég hélt líka að hæstv. fjmrh. væri skólamaður. Og það væri fróðlegt t.d. að spyrja álits þá menn sem eru í Háskólanum, það unga fólk sem er í Háskólanum og að því marki sem það getur notað íslenskar kennslubækur hvort því þyki skynsamlegt að pína það til þess að draga slík kaup á langinn. Ég hef verið að
spyrjast fyrir um það hversu hárri upphæð þetta nemur. Sumir foreldrar fullyrða að bókakaup geti skipt 15--20 þús. kr. ( GA: Allt að 30 þús.) fyrir barn og sé ekki óalgengt. Það hafa verið nefndar mun hærri tölur þegar mörg börn eru í heimili, margir unglingar eru hjá sömu fjölskyldunni, þannig að það er enginn vafi á því að við getum hér verið að tala um fjárhæðir sem leika á tugum þúsunda fyrir fjölskyldur.
    Ég hygg því að það sé óhjákvæmilegt að biðja hæstv. fjmrh. um það í allri einlægni að hann athugi nú þetta mál og ég yrði mjög þakklátur ef formaður fjh.- og viðskn. vildi kalla nefndina saman milli 2. og 3. umr. til þess að ræða þetta sérstaka atriði. Ef á hinn bóginn kemur í ljós að það er gagnslaust, ef meiri hl. er ákveðinn í því að halda þessu til streitu, þá verður hann að sitja uppi með þann sinn smekk og við því get ég þá ekki gert.
    Í því frv. til laga um virðisaukaskatt sem samþykkt var í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar var sett inn heimildarákvæði um greiðslufrest á virðisaukaskatti við innflutning í 34. gr. laganna. Var gengið út frá því að þessi heimild yrði notuð þegar lögin kæmu til framkvæmda. Mér er ekki kunnugt um að fjmrh. hafi gefið afdráttarlaust svar um það hvort hann hyggist veita almennan greiðslufrest við innflutning eða ekki. Þó hefur legið í loftinu að greiðslufrestur verði veittur á hráefni og rekstrarvörur iðnaðar.
    Það kallar á verulega fjárbindingu og óhagræði í öllum greinum atvinnulífsins ef leggja þarf út fyrir virðisaukaskatti við innflutning. Samtök verslunarinnar

hafa talið að áhrif fjárbindingarinnar á verðlag yrðu á bilinu 1--2% og jafnvel hærri þegar tekið er tillit til þess að fyrirtæki búa almennt við takmörkuð fjárráð og innkaup á erlendum vörum yrðu stórum óhagkvæmari án greiðslufrests.
    Í hverju er nú þetta óhagræði fólgið, hæstv. ráðherra? Það er í fyrsta lagi fólkið í því að fyrirtækin munu freista þess að efna til minni innkaupa í hvert skipti en áður, hafa vörukaup tíðari en áður sem hefur þrennt í för með sér: Það gæti valdið því að innkaupsverð hækkaði nokkuð. Það gæti valdið óhagræði í flutningum til landsins. Og síðast en ekki síst veldur það auðvitað meiri fyrirhöfn og óþægindum og allt þetta hlýtur að valda erfiðleikum.
    Það kom fram á fundi nefndarinnar að í Noregi er það almenn regla að greiðslufrestur í tolli er 33 dagar. Það kom enn fremur fram að fulltrúar fjmrn. höfðu gert sér grein fyrir því að þetta atriði skipti máli í sambandi við verðlagninguna. Þeir vildu halda því fram að þetta mundi þýða 0,5--1% hækkun á verði vörunnar en viðurkenndu á fundi með fulltrúum Verslunarráðs Íslands að þeir óttuðust að í sumum tilvikum gæti þessi hækkun orðið enn meiri. Það kom með öðrum orðum fram veruleg óvissa um það hvaða áhrif þetta mundi hafa í einstökum dæmum. Ég held að það sé líka alveg ljóst að þessi breyting muni hafa íþyngjandi áhrif fyrir dreifbýlisverslun þar sem veltuhraðinn er minni.
    Ég veit ekki hvort mér leyfist að biðja hæstv. fjmrh. um afdráttarlausa yfirlýsingu um að almennur greiðslufrestur á virðisaukaskatti verði veittur við innflutning. En ef slík yfirlýsing kemur ekki fram er nauðsynlegt að breyta lögunum þannig að skylt verði að veita greiðslufrest á virðisaukaskatti við innflutning.
    Eins og mig minnir að formaður nefndarinnar hafi tekið fram hér áðan er það grundvallaratriði við álagningu virðisaukaskatts að hann mismuni ekki fyrirtækjum eða hindri eðlilega verkaskiptingu þeirra á milli. En því miður er ekki frítt við hið gagnstæða eins og hæstv. fjmrh. hugsar sér framkvæmd virðisaukaskattsins og í sumum tilvikum stefnir hann að mismunun með opin augun. Ég vil nú nefna dæmi um þetta.
    Í reglugerð um frádrátt virðisaukaskatts er kveðið á um að selji skattaðili fæði teljist virðisaukaskattur á hráefni, orku og aðkeyptri þjónustu í því sambandi til innskatts, sbr. VII. kafla laganna. Upplýst hefur verið að samkvæmt samningum við opinbera starfsmenn greiðir ríkissjóður allan kostnað við mötuneyti annan en efniskaup. Eðlilegt er af þeim sökum að fyrirtæki megi telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem fellur á þá kostnaðarliði sem niðurgreiddir eru samkvæmt kjarasamningum ríkisins. Annað skekkir samkeppnisstöðu og kemur illa við veitingahúsarekstur og verktakastarfsemi svo að augljós dæmi séu tekin.
    Þetta álitamál var rætt í nefndinni. Þá upplýsti ríkisskattstjóri að sú breyting yrði gerð nú við framkvæmd fjárlaga á næsta ári að inn í verðið í mötuneytum hins opinbera yrðu ekki aðeins tekin efniskaup eins og verið hefði heldur líka vinnan við

að elda matinn og orkukostnaður og annað þvílíkt og þetta mundi að sjálfsögðu hafa í för með sér hærra matarverð en áður. Og hann upplýsti okkur í nefndinni um það að 24,5% virðisaukaskattur yrði lagður ofan á þetta verð svo að okkur skildist á ríkisskattstjóra að verð í mötuneytum ríkisins til starfsmanna ríkisins mundi hækka verulega eftir áramótin. Þessu var m.a. beitt þegar verið var að réttlæta það fyrir veitingahúsaeigendum að þeir yrðu að taka inn í vinnulaun, orkukostnað og annað þegar þeir mætu til virðisaukaskatts þann kostnað sem þeir hefðu af því að gefa því fólki að borða
sem vinnur í eldhúsum veitingahúsa eða við framleiðslustörf í veitingahúsum og hótelum. Þetta er auðvitað alveg nýtt. Og auðvitað gat þetta fólk lítið sagt þegar það áttaði sig á því að starfsmenn ríkisins yrðu að hlíta hinu sama.
    Síðan komu á fund nefndarinnar fulltrúar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fulltrúar Bandalags háskólamanna og þá var þetta mál tekið upp. Þeir bentu ríkisskattstjóra á að það væri samningsbundið milli ríkis og þessara launþegafélaga að ríkið greiddi niður allan kostnað við matseldina annan en efniskaup. Og þegar ég spurði: Hvernig getur það þá farið saman að fjmrh. hefur ákveðið að reikna inn í matarverð í mötuneytunum orkukostnaðinn og vinnulaunin, aðkeypta þjónustu, og ætlar að reikna ofan á það virðisaukaskatt ef búið er að semja um hið gagnstæða við þessa launþega? Þá sagði fulltrúi fjmrn. að þetta væri mjög einfalt mál. Ríkissjóður mundi þá bara greiða niður virðisaukaskattinn, greiða niður vinnulaunin, greiða niður orkukostnaðinn og greiða niður aðkeyptu þjónustuna hjá hinum opinberu starfsmönnum þannig að þeir fengju matinn á óbreyttu verði eftir sem áður. En einstaklingarnir úti í þjóðfélaginu, það á að nota þetta sem átyllu til þess að auka skattheimtuna á þá. Samt sem áður liggur ljóst fyrir að veitinga- og gistihúsarekstur er í stórum dráttum útflutningsstarfsemi í þeim skilningi að ferðamannaþjónusta aflar hér mikils gjaldeyris og er orðin verulegur þáttur í gjaldeyrisöflun okkar og væri þess vegna eðlilegt að nýta þá starfsemi sem slíka.
    Sveitarfélögin verða auðvitað líka að greiða hærri virðisaukaskatt af þessu eða hvað? Á ekki að ná þarna í nokkrar krónur af þeim líka? En svo greiðir ríkissjóður þetta niður fyrir sjálft sig og með hvaða peningum? Með þeim peningum sem koma frá fólkinu í landinu, með peningunum frá fólkinu sem vinnur á hótelunum, með peningunum frá fólkinu sem vinnur í veitingahúsinu, með peningunum frá fólkinu sem vinnur hjá sveitarfélögunum, með peningunum frá fólkinu sem vinnur hjá verktökunum. Allt þetta fólk verður að greiða virðisaukaskatt af þessum þáttum þó svo starfsmenn ríkisins þurfi ekki að gera það.
    Ég spurði líka: Hvernig fer þá t.d. um matsveina? Hvað ætlar hæstv. fjmrh. að gera í sambandi við matsveina til sjós á fiskiskipum? Gæti ráðherrann upplýst mig um það með jái eða neii hvort hann ætlar að leggja virðisaukaskatt á hlut matsveinsins? Veit hann það? Er horft öðruvísi á það? Á að leggja

virðisaukaskatt á þann hluta olíunnar í fiskiskipunum sem fer í að hita matinn? Hvernig á að halda á því máli? Nei, auðvitað dettur engum manni í hug að virðisaukaskattur verði lagður á hlut matsveinsins einfaldlega vegna þess að atvinnurekandinn, í þessu tilviki útgerðin, kaupir ekki efni til matseldarinnar. Það er verkaskipting um borð í bátunum og auðvitað ekki hægt að fallast á það að ríkissjóður seilist í þann vasa. Það sem ég er á hinn bóginn að gera er að benda á ósamræmið. Ég spurði ríkisskattstjóra hvort þetta þýddi uppsöfnun virðisaukaskatts. Hann játaði því.
    Hinn 4. des. var gefin út reglugerð um greiðslu virðisaukaskatts af skattskyldri starfsemi sveitarfélaganna og annarra opinberra aðila. Í nefndinni kom fram að reglugerðin felur í sér tvísköttun ef hönnunarvinna við byggingu íbúðarhúsnæðis er keypt af sjálfstætt starfandi arkitekt eða verkfræðingi en ekki unnin af byggingaraðila. Slík framkvæmd laganna er andstæð þeirri hugsun sem liggur að baki þeirra og óhjákvæmilegt að taka af skarið í lögunum og er brtt. flutt í samræmi við það. Nú er það að vísu svo í þeirri reglugerð þegar talað er um greiðslu sveitarfélaga á virðisaukaskatti. --- Í bréfi sem fjmrh. skrifaði Sambandi ísl. sveitarfélaga 7. des. sl. er tekið fram í lið 10 að endurgreiddur verði virðisaukaskattur vegna þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra stétta er almennt þjóna atvinnulífinu. Samt sem áður kom það fram í máli ríkisskattstjóra í sambandi við sjálfstætt starfandi verkfræðinga og arkitekta að þar er um tvísköttun að ræða samkvæmt reglugerð hæstv. fjmrh. Spurningin er, og það kemur í ljós í atkvæðagreiðslu á eftir, verður fjmrh. reiðubúinn til þess að greiða atkvæði --- hann hefur að vísu ekki atkvæðisrétt hér í þinginu --- en leyfir hann þeim sem hafa atkvæðisrétt að greiða atkvæði með því að sá tilgangur hans nái fram að ganga að virðisaukaskattur af vinnu þessara manna, seldri vinnu þessara manna fáist endurgreiddur? Um það verður greitt atkvæði. Þá kemur fram hvort ráðherrann vill segja satt um það að þessi vinna sé endurgreidd.
    Í þessari sömu reglugerð er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur af ræstingu falli niður. Á hinn bóginn kom fram á fundi nefndarinnar þegar við ræddum við fulltrúa Flugleiða að sá háttur er hafður á t.d. á Hótel Esju að ræstingin er ekki unnin af beinum starfsmönnum hótelsins heldur hefur hún verið boðin út og falin sérstökum verktökum. Það fyrirkomulag hefur leitt til mikillar hagræðingar í rekstri hótelsins og er auðvitað mjög eðlileg verkaskipting milli þessara aðila, hótelsins og þess verktaka sem tekur að sér ræstinguna. Þessu fyrirkomulagi fylgir mikil hagræðing og mikil hagkvæmni. Ég hef rætt þetta mál við þann hótelstjóra á Hótel Esju sem tók þetta upp á sínum tíma og ég man að hann var mjög ánægður með þetta fyrirkomulag. Nú verður
framkvæmd virðisaukaskattsins með þeim hætti að

Hótel Esja verður að ráða til sín fólk til þess að ræsta hótelið vegna þess að það verður að öðrum kosti að greiða af ræstingunni virðisaukaskatt til ríkisins. Þetta er auðvitað ágalli sem ekki er hægt að líða.
    Ef hæstv. fjmrh. hefði gefið sér tíma til að undirbúa málið, fara ofan í einstaka þætti þess, mundi meinloka af þessu tagi ekki vera inni í framkvæmdinni núna. Þetta er eitt af ótal, ótal dæmum um það, að vísu smátt, hvernig við megum búast við agnúum í framkvæmdinni, agnúum sem hæstv. fjmrh. veit um, agnúum sem valda því að hann er búinn að bjóða Samtökum sveitarfélaga að núna eftir að lögin komast í framkvæmd megi þeir hafa sérstaka samstarfsnefnd með fjmrh. til að ræða um það hvernig eigi að haga virðisaukaskatti af opinberum framkvæmdum og öðrum slíkum, þá langar fjmrh. til þess að fá þá með betlistaf upp í ráðuneytið með einhverju húsbóndavaldi í staðinn fyrir að þeir geti talað við hann á jafnréttisgrundvelli meðan lögin voru í undirbúningi og framkvæmd málsins var í undirbúningi.
    Ef eitthvert siðferði væri í þessu mundi fjh.- og viðskn. deildarinnar fá að fylgjast með framkvæmd málsins, fá reglulega skýrslur um það þannig að engum bréfum yrði stungið undir stól og auðvitað eiga fjh.- og viðskn. deildanna að fá bréfasafnið í fjmrn. eins og það leggur sig. Ég fór raunar fram á það en var synjað um það.
    Það hefur líka komið fram á fundi sem hæstv. fjmrh. hefur átt með samþingsmönnum sínum á Reykjanesi að ríkisstjórnin virðist ekki hafa hugmynd um hvernig álagningu virðisaukaskatts er háttað í nálægum löndum, virðist ekki hafa haft hugmynd um að undanfarin 15 ár hafa sveitarstjórnarmenn í Danmörku átt í viðræðum við ríkisstjórnina þar um það hvernig hægt sé að draga úr mörgum ágöllum sem hafa verið á framkvæmd þessa skattkerfis þar. Þangað hefði verið hægt að leita fyrirmyndar, þangað hefði verið hægt að fara í smiðju ef hugur hæstv. fjmrh. hefði staðið til þess að sveitarfélögin hefðu staðið jafnrétt eftir skattkerfisbreytinguna.
    Það kom fram á fundi fjh.- og viðskn. í morgun að veruleg vandkvæði eru samfara því að virðisaukaskattur sé innheimtur af veiðarfærum og brennsluolíu til fiskiskipa vegna þeirra fjárbindinga sem slíkum viðskiptum fylgja. Ég tel að eðlilegt sé að með þessa rekstrarvöru verði farið eins og með sambærilegan kostnað í millilandaförum af sömu ástæðum. Við erum hér að tala um gjaldeyrisöflun, við erum hér að tala um farartæki og við erum hér að tala um mjög verulegar fjárhæðir.
    Bréf olíufélaganna til fjmrn. hinn 27. nóv. 1989 fjallar um framkvæmd innheimtuskila virðisaukaskatts frá og með 1. jan. nk. o.fl. Þetta er bréf, herra forseti, sem hæstv. fjmrh. sá ekki ástæðu til að sýna fjh.- og viðskn. og það var eingöngu vegna þess að við sjálfstæðismenn óskuðum eftir því í morgun að fulltrúi frá þessum aðilum kæmi á okkar fund til þess að ræða þau sérstöku vandamál sem við vissum að væru tengd einmitt olíukaupum fiskiskipaflotans, sem við

fengum vitneskju um bréfið. Á fundinum, ekki fyrr. Þó erum við hér að tala um helsta útflutningsatvinnuveg okkar. Og þó hafði ég beðið um að fá upplýsingar um helstu álitamál sem upp hefðu komið í sambandi við undirbúning þessarar skattkerfisbreytingar. Hversu má það vera að hæstv. fjmrh. gerði ekki þegar ráðstafanir til að við fengjum bréfið í hendur? Þegar hann er spurður svona, þá geispar hann, finnst þetta óþarfi. Menn eiga ekki að fá að fylgjast með. Bréfið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Gasolía og svartolía eru undanþegnar söluskatti. Við upptöku virðisaukaskatts hækkar útsöluverð þessarar vöru um fjárhæð virðisaukaskattsins að fullu. Stærstu notendur þessara vara eru viðskiptamenn sem eru í reikningsviðskiptum við olíufélögin með að jafnaði mánaðarleg uppgjör úttekta. Þeir eru flestir ef ekki allir í þeim hópi lögaðila sem rétt eiga á endurgreiðslu á virðisaukaskatti af aðföngum, þ.e. fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækjum.
    Olía er mjög stór og skýrt afmarkaður hluti kostnaðar flestra fyrirtækjanna. Það er kunnara en frá þurfi að segja að greiðslufjárstaða þessara fyrirtækja hefur verið erfið. Viðbót virðisaukaskattsins mun enn íþyngja og ljóst er að erfitt verður að sækja þetta viðbótarfé til viðskiptamannsins fyrr en virðisaukaskatturinn fæst endurgreiddur.
    Við teljum einsýnt að áhrif þessa verði að skuldir vegna olíuúttekta muni hækka nema tryggt verði að endurgreiðsluféð skili sér til greiðslu þeirrar vöru sem það stofnast af og þá um leið í ríkissjóð aftur.
    Með vísan til framanritaðs fara olíufélögin hér með fram á það við hið háa ráðuneyti að mótaðar verði vinnureglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts af olíu þannig að endurgreiðsla fari beint til seljenda olíunnar samtímis uppgjöri þeirra á skattinum til ríkissjóðs. Væri æskilegt að viðræður færu fram milli ráðuneytisins og olíufélaganna um framkvæmd þessa. Það hlýtur að vera kappsmál beggja að framkvæmd skila á virðisaukaskattinum verði einföld og hnitmiðuð og leiði ekki af sér fleiri vandamál en hjá verður komist.
    Í þessu sambandi viljum við vísa til framkvæmdar sem viðhöfð var meðan olía
til fiskiskipa var greidd niður. Við lítum svo á, þar sem annað hefur ekki komið fram, að gildistaka virðisaukaskattslaganna muni ekki breyta gildandi tilhögun uppgjörs á innflutningstolli af bílabensíni, þ.e. að 35% tollsins nýtur tveggja mánaða gjaldfrests.
    Að lokum viljum við árétta erindi okkar um greiðslufrest á virðisaukaskatti af innflutningi á öllum olíuvörum og bensíni, sbr. bréf okkar dags. 25. okt. 1989.``
    Aðspurður sagði Árni Lárusson, sem kom á fund nefndarinnar frá Olíufélaginu Skeljungi --- ég vil taka fram að það var einungis vegna tímaskorts sem ekki kom til þess að fulltrúar frá öllum olíufélögunum kæmu á fund nefndarinnar þar sem lögð var á það áhersla að fundur byrjaði hér um þessi efni kl. hálfeitt í dag sem ekki gat orðið vegna þeirra mörgu álitamála

sem upp komu á morgunfundinum. --- Í máli Árna kom fram að olíufélögin þurfa að liggja með birgðir í þrjá til fjóra mánuði. Það er svolítið mismunandi eftir því hvernig farmar berast til landsins, svolítið mismunandi. Samt sem áður, þó svo að birgðir séu að meðaltali um 3--4 mánuðir kom líka fram hjá formanni þingflokks Alþfl. á nefndarfundinum að staðið yrði við tveggja mánaða greiðslufrest. Mér þótti það út af fyrir sig mjög merkilegt að hann skyldi kunnugur málinu vegna þess að honum var kunnugt um það að stjórnarandstaðan hafði óskað eftir að fá álitamál af þessu tagi upp á borðið hjá sér og við vissum ekki betur en á það hefði verið fallist af stjórnarmeirihlutanum.
    Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. --- Herra forseti. Það má vera að hæstv. fjmrh. muni þær spurningar sem ég hef áður beint til hans við umræðuna. Þó hefur það nú oft komið fram hér í deildinni að hann hefur ekki svarað því sem hann hefur verið spurður um, gerði meira að segja í gær tilraun til að svara ekki fsp. sem beint var til hans með þinglegum hætti og svör lágu fyrir um uppi í ráðuneyti, sem væntanlega verður svarað eftir helgina. Ég veit ekki hvort rétt sé að gera ráðstafanir til þess að þingið útvegi honum skrifara til þess að hann geti skrifað niður og komið á blað um hvað hann er spurður. Það gengur auðvitað ekki að haga þingstörfum með þessum hætti. Stjórnarmeirihlutinn hefur verið að biðja um það að við reynum að stytta mál okkar og að við greiðum fyrir þingstörfum en á sama tíma finnum við að það er algjört tómlæti hjá ráðherrunum.
    Undirbúningur málsins er enginn, upplýsingar berast ekki nefndinni sem þangað eiga að berast og ef spurt er í þingsal þá hirðir ráðherrann ekki um að setja niður hjá sér um hvað er spurt. Þetta er náttúrlega þannig framkoma að engu tali tekur.
    En það er best að spyrja samt ráðherrann, það má þá ítreka seinna, það má ítreka líka í umræðum um önnur mál, það eru mörg frv. eftir að koma og það má safna saman spurningunum og láta þær dynja á honum þó rætt sé um önnur mál: Að hverju stefnir hæstv. ráðherra þegar hann hyggst ná inn í ríkissjóð virðisaukaskatti af olíubirgðum sem liggja hér í landinu í öryggisskyni? Gerir ráðherrann sér það ljóst að ef þessi háttur verður á hafður þá muni það leiða til margvíslegs óhagræðis í olíuinnkaupum? Að þessi aukni fjármagnskostnaður sem þannig leggst á olíufélögin mun valda því að þau muni endurskoða olíuinnkaup sín og þau muni kannski telja sér hagkvæmt að fá olíuna hingað í minni skömmtum en nú er? Og gerir hæstv. ráðherra sér það ljóst að verð á olíu hleypur upp og niður og stundum reyna menn að taka meiri birgðir en ella ef þeir búast við að verð sé hækkandi? En á skattheimtan til ríkisins að vera svo yfirþyrmandi að það skipti kannski ekki máli hvort þessi mikli neysluþáttur í útgerð landsmanna, olían, sé rekinn með hagkvæmu eða óhagkvæmu móti? Hver eru rökin á bak við það að veita olíufélögunum ekki eðlilegan greiðslufrest? Af hverju má ekki greiðslufresturinn á virðisaukaskattinum

miðast við þann tíma þegar olían er seld, fer til neytendanna, afgreiðslu olíunnar hér innan lands? Af hverju þarf að seilast í þennan vasa? Var þetta einn liðurinn í því sem þið hétuð útgerðinni á sl. vori, að bæta samkeppnisstöðu hennar gagnvart erlendum fyrirtækjum nú með því að auka á óhagræði í olíuinnflutningi og hækka með þeim hætti rekstrarkostnaðinn sem því nemur? Og er það í anda virðisaukaskatts í einhverju landi í veröldinni að sérstakir baggar séu með þessum hætti lagðir á helstu útflutningsgrein landsmanna, það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar. Af hverju er það? Er staða ríkissjóðs svona bág að það verður að fara í þennan vasann líka? Af hverju er þetta, hæstv. fjmrh.?
    Ef við tökum svo veiðarfærin. Er það eðlilegt að íþyngja Hampiðjunni sem á í erfiðri samkeppni við veiðarfæragerð erlendis, og ég tala um önnur slík fyrirtæki, er eðlilegt að íþyngja líka þessum fyrirtækjum með virðisaukaskatti?
    Á þeim tíma sem Jóhann Hafstein var iðnaðarráðherra man ég eftir að hann flutti eldheitar ræður einmitt um það hvernig við gætum gert sem mest sjálfir í sambandi við okkar veiðarfæraiðnað og þá var með margvíslegum hætti reynt að styðja einmitt að þessari framleiðslu. Nú er þessu snúið við. Við í Sjálfstfl. teljum eðlilegt að veiðarfæri og olía falli undir 12. gr. laganna til þess að eyða þessari óvissu um uppgjörið.
    Það er líka annað sem hæstv. ráðherra á að vera kunnugt og það er að
viðskipti með veiðarfæri og viðskipti með olíu hafa fallið í fastan farveg. Það er komin ákveðin festa í þessi viðskipti og ákveðin reynsla. Ef ætlast er til þess að virðisaukaskatturinn leggist á þessa þungu, kostnaðarsömu útgjaldaliði útgerðarinnar hlýtur það að skapa óvissu í samskiptum útgerðarmannanna við þá þjónustuaðila sem framleiða eða annast heildverslun með veiðarfæri og sömuleiðis olíuna.
    Ég geri mér svo sem grein fyrir því að hæstv. fjmrh. muni ekki fús til þess að liðka þarna til. Eftir því sem gefið hefur verið í skyn í fjh.- og viðskn. virðist hafa verið ákveðið mál að ekki verði veittur greiðslufrestur á virðisaukaskatti í tolli varðandi veiðarfæri. Er það rétt? Hefur það verið rætt að greiðslufrestur í tolli, á virðisaukaskatti verði veittur við innflutning á veiðarfærum? Ekki orð. Ekki eitt orð. Ekki orð.
    Ég spurði að því í nefndinni í sambandi við landbúnaðinn. --- Nú er það svo að í lögum eru mjög ströng ákvæði um það hvaða skilyrði sláturleyfishafar þurfi að uppfylla. --- Og ég spurði að því hver bæri ábyrgðina ef sláturleyfishafi hefði ekki fjármuni til þess að greiða bóndanum fyrir lömbin? Ég fékk það svar að sauðfjárbóndinn ætti að bera ábyrgð á virðisaukaskattinum af þeim dilkum sem hann legði inn að haustinu þó svo hann hefði ekki fengið þá greidda. Hið sama á auðvitað við um veiðarfærasalann og olíufélögin. Ef lögin verða framkvæmd eins og þau eru núna þá verða þessir aðilar að bera ábyrgð á virðisaukaskattinum gagnvart ríkinu af þessum dýru

rekstrarvörum.
    Nú gerir fjmrh. sér það auðvitað ljóst að fiskvinnslan í landinu --- og í 80--85% tilvika á fiskvinnslan þau skip sem gerð eru út --- fiskvinnslan í landinu þarf stundum að sitja með miklar birgðir. Það er mjög misjafnlega búið að fiskvinnslunni frá ári til árs af opinberum aðilum og fiskvinnslan á oft í mjög miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Og af því að hæstv. fjmrh. veit þetta hefur hann lagt hér fram frv. um það að ríkissjóður megi skuldajafna öðrum opinberum gjöldum í uppgjöri sínu við fiskvinnsluna. Fyrirtæki getur með öðrum orðum skuldajafnað við ríkið vegna annarra opinberra gjalda. Kröfum um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum má skuldajafna á móti endurgreiðslu og þetta á að vera forgangskrafa áður en kannski olíufélag eða veiðarfærasali fær endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þessir aðilar hafa innt af hendi vegna þessarar atvinnugreinar.
    Ég legg áherslu á það, herra forseti, að það eru auðvitað viss rök fyrir því út frá hagsmunum ríkissjóðs að 12. gr. gildandi laga verði felld niður og ekkert verði undanþegið virðisaukaskatti. Formaður Alþfl. hefur stundum talað um það --- ég held að hann hafi talað um söluskatt --- að rétt væri að leggja söluskatt á t.d. heilbrigðisþjónustu, á alla skapaða hluti. Fyrir því eru ákveðin rök. Ef við á hinn bóginn viðurkennum að rétt sé að til skattskyldrar veltu teljist ekki margvísleg vara og þjónusta sem varðar útflutningsgreinar okkar og hægt er að sækja auðveldlega jafnt til innlendra aðila sem erlendra er augljóst að hvort tveggja í senn, eldsneyti vegna fiskiskipa og veiðarfæri, eiga að falla inn í 12. gr.
    Ljóst er að nokkur vandkvæði verða við framkvæmd virðisaukaskatts í byggingariðnaði. Gagnstætt þeim fyrirheitum sem gefin voru mun byggingarvísitala hækka um 1% samkvæmt upplýsingum fjmrn. Verst er þó að í frv. er endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu bundin við það að endurbætur nemi a.m.k. 7% af fasteignamati húseignar og falli á sama almanaksárið. Samkvæmt skilgreiningu ríkisskattstjóra fellur meiri háttar viðhald ekki undir endurbætur, svo sem lagning parkets, ný eldhúsinnrétting, nema að hluta. Ef skipt er um glugga, tvöfalt gler í staðinn fyrir tvöfalt gler, fellur það ekki undir endurbætur. Meiri háttar viðgerð á þaki. Augljóst er þess vegna að mikill þrýstingur verður frá húseigendum að öll viðhaldsvinna verði unnin án þess að hún verði gefin upp til skatts sem þýðir 20% lægri fjárhæð. Ríkissjóður mun því ekki aðeins missa af virðisaukaskattinum heldur tekjuskattinum til viðbótar þegar unnið er að meiri háttar viðhaldi íbúðarhúsnæðis.
    Nú hafa aðilar byggingariðnaðarins komið á fund nefndarinnar og bent rækilega á þetta. En það var t.d. eitt sem ekki skýrðist til fulls þó þar væru margir fulltrúar fjmrn. mættir. Af hverju þarf að miða endurbótatímann við almanaksárið? Skiptir það einhverju máli í skattalegu tilliti hvort endurbætur eru unnar frá janúar til desember eða frá september til

maí? Af hverju við almanaksárið ef sú er hugsunin? Ef á hinn bóginn meiningin er sú að þetta séu 12 mánuðir þá er hér rangt farið með íslenskt mál. Og ég sé raunar ekki heldur að það skipti máli hvort slíkar endurbætur --- 7% af 10 millj. eru 700 þús. kr. Mér þætti ekkert óeðlilegt, eins þröngt og endurbætur eru skilgreindar í þessum lögum, þótt það mundi taka venjulegan mann tvö til þrjú ár að efna til endurbóta og viðhalds á sínu húsnæði sem væri upp á 1,5--2 millj. kr. Það væri ekkert undarlegt. Þannig að þetta er með öllu óhugsandi.
    Nú hefur hæstv. fjmrh. oft talað um það að hann vilji ekki svarta vinnu. Hann hefur líka talað um það að þessi skattkerfisbreyting eigi ekki að vera
íþyngjandi. Samt sem áður ætlar hann nú að þyngja álögurnar á þá sem reyna að halda við húsunum sínum. Þá er spurningin: Er hann að þyngja þannig skattana á því fólki sem sjálft reynir að sjá um sín híbýli af því að hann er að gefa eftir skatta á öðrum stöðum? Verður t.d. rýmra um fólk í tekjuskattinum? Eru einhver ákvæði í huga ráðherrans um það að t.d. vextir yrðu frádráttarbærir ef menn legðu í meiri háttar endurbætur við hús sitt? Nei, ekkert slíkt. (Gripið fram í.) Nei, ekkert slíkt. Ekkert svoleiðis. Eingöngu verið að torvelda fólki að sjá um eigur sínar. (Gripið fram í.) Einungis verið að torvelda því að sjá um eigur sínar, reyna að koma í veg fyrir það að fólk geti búið vel að sínu, séð um sig.
    Það verður fróðlegt að sjá hvernig þingmenn stjórnarflokkanna bregðast við þeirri tillögu sem við höfum flutt hér á sérstöku þskj., ég og hv. 8. þm. Reykv., um það að meiri háttar viðhald falli innan þessarar skilgreiningar og um það að endurbæturnar og meiri háttar viðhald megi nema allt að 3,5% af fasteignamati húseignarinnar. Ég treysti mér ekki, herra forseti, til annars en að miða við ár, ég hef það að vísu ekki almanaksár heldur 12 mánuði í minni brtt., vegna þess að ég veit hversu fastur ráðherrann er á smámununum og hann var nú einu sinni búinn að binda sig í þessa 12 mánuði, en vil vænta þess að nægilega margir stjórnarsinnar séu hér í deildinni til þess að brtt. nái fram að ganga.
    Reglugerð um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi var gefin út 10. des. og drög að reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðarhúsnæðis lágu fyrir 12. des. Framkvæmd laganna í samræmi við þessar reglugerðir verður mjög flókin og sýnt að mörg álitamál muni koma upp, en tími knappur fyrir húsbyggjendur og verktaka til að setja sig inn í einstök atriði. Af þeim sökum og þar sem þessar athugasemdir eiga víðar við er sanngjarnt og eðlilegt að gildistöku sektarákvæða skv. 2. mgr. 27. gr. sé frestað til annars gjalddaga virðisaukaskatts eða til 1. júlí 1990.
    Jafnframt er nauðsynlegt að kveðið sé skýrt á um rétt greiðenda til að fá skýringar eða úrskurð ríkisskattstjóra á álitamálum. Ekki er heldur við það unandi að 7. mgr. 12. gr. frv. sé afdráttarlaus hver sem málsatvik eru. Við Íslendingar viljum kalla þjóðfélag okkar réttarþjóðfélag og þess vegna á ekki

að vera heimilt að stöðva atvinnurekstur ef deila um skattskyldu eða skattstofn er til meðferðar hjá ríkisskattstjóra, ríkisskattanefnd eða dómstólum og skattaðila verður ekki gefin sök á töfum á efnisúrlausnum deilunnar.
    Þessi síðasti kafli sem ég hef nú lesið er lýsing á því ástandi sem atvinnureksturinn mun búa við nú eftir áramótin og það var hreint með ólíkindum og torveldaði mjög störf nefndarinnar hversu fáum álitamálum fulltrúar fjmrn. gátu svarað.
    Á sama tíma og ríkisskattstjóri réttlætti þetta með því að hann mundi fyrstu mánuði ársins einkum beita sér að því að reyna að leiðrétta framkvæmd virðisaukaskattsins hjá einstökum fyrirtækjum fer ekki hjá því að hann verður að halda sig við strangan bókstaf laganna um þau refsiákvæði sem eru afdráttarlaus. Þó svo að öll rök hnígi að því að orðalag sé óljóst og þó svo að verktaki, einhver atvinnurekandi, sé í góðri trú liggur samt fyrir að hann verður að gjalda þess sjálfur í sinni pyngju ef hann fer ekki eftir bókstaf laganna í strangasta skilningi og ég get satt að segja ekki skilið hvernig meiri hl. hér í deildinni getur hugsað sér að láta hin ströngu refsiviðurlög öll koma til framkvæmda á fyrsta gjalddaga þar sem hann getur ekki enn þann dag í dag útskýrt það í þingdeild hvernig framkvæmd laganna verður háttað. Það er auðvitað algjörlega óskiljanlegt, í rauninni siðlaust, að ég tali ekki um það þegar hæstv. ráðherra skrifar það á sinn pappír að hann ætli að hækka refsiviðurlög úr 1% í 2% á degi hverjum, úr 10% í 20% að hámarki, ofan á þá dráttarvexti sem eru í landinu. Þetta þýðir með öðrum orðum að ef einhver aðili hefur ekki tök á að greiða virðisaukaskattinn á réttum degi tapar hann um 20% af fjárhæðinni þegar í stað.
    Við skulum athuga nokkra þá aðila sem nú eiga að standa skil á virðisaukaskatti. Við skulum nefna t.d. sauðfjárbændur. Þeir fá tekjur einu sinni á ári. Við vitum að margir sláturleyfishafar hafa átt erfitt uppdráttar á síðustu missirum og vitum að sumir sláturleyfishafar hafa því miður orðið gjaldþrota. Eftir sem áður á það að koma í hlut sauðfjárbóndans að standa full skil á virðisaukaskatti á sínu sláturinnleggi til ríkissjóðs á tilteknum degi. Og ef honum tekst þetta ekki í fyrsta skipti sem framkvæmdin er reynd hyggst hæstv. ráðherra vera miskunnarlaus. Hann er ákveðinn í því að innheimta nú með 20% viðurlögum ofan á refsilög þá fjárhæð sem stendur upp á sauðfjárbóndann. Og ekki nóg með það, hann er líka ákveðinn í því að það skuli vera bindandi að búinu verði lokað eftir 30 daga frá greiðsludegi. Nú má segja að ekki varði aðra svo sem mikið um það þótt ákveðið sé í reglugerð að undir öllum kringumstæðum verði að loka rekstri 30 dögum eftir að virðisaukaskattur gjaldfellur.
    En tökum annað dæmi. Tökum t.d. fóðureldhús loðdýrabænda. Þessi fóðureldhús
hafa átt mjög örðugt uppdráttar og má raunar segja að sumum þeirra hefði verið lokað á þessu ári ef ekki hefði komið til opinber fyrirgreiðsla samkvæmt

ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ef slíku fóðureldhúsi yrði lokað, t.d. á Austurlandi, hvað yrði þá um loðdýrin hjá þeim bændum sem staðið hafa í skilum með sína hluti? Þeirra búum yrði lokað um leið. Þeir fengju ekki fæði handa sínum dýrum, en hæstv. ráðherra segir: Undir öllum kringumstæðum, alltaf og ævinlega skal það vera undantekningarlaust að bæjarfógetinn kemur með innsiglið. Og af hverju er hann svona strangur á þessu? Jú, vegna þess að hann fékk áminningu frá Ríkisendurskoðun í upphafi síns ráðherraferils að innheimta söluskatts og staðgreiðsluskatts væri ekki í lagi, annars eða beggja. Ég man nú ekki hvort heldur var.
    En hann á ekki að vera svona viðkvæmur fyrir þessu heldur á hann að reyna að sýna sanngirni í þessum málum. Ég geri mér grein fyrir því að við í stjórnarandstöðunni ráðum ekki við refsihörku ráðherrans en ég vona að hann geti fallist á það að viðurlögum verði ekki beitt til fullnustu fyrr en á öðrum reglulegum uppgjörsdegi virðisaukaskatts.
    Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ber að greiða virðisaukaskatt af eldsneyti í innanlandsflugi. Með bættum vegasamgöngum á þessi atvinnugrein mjög undir högg að sækja þótt hún sé ómissandi. Flugvallarskattur er nú 150 kr. Það er mat fjmrn. að virðisaukaskattur á eldsneyti nemi 96 kr. eða 100 kr. milli Akureyrar og Reykjavíkur. Ef við tökum minni flugfélögin, eins og t.d. Flugfélag Norðurlands eða flugfélögin á Ísafirði eða Egilsstöðum, er eldsneytiskostnaðurinn enn þá stærra hlutfall af rekstrarkostnaði þannig að búast má við því að hækkun vegna virðisaukaskatts geti farið upp í 200 kr. í ferð. Virðisaukaskattur plús flugvallargjald er þá 350 kr. Á sama tíma vitum við að flugfélög hér innan lands eiga undir högg að sækja vegna bættra vegasamgangna en eru nauðsynleg því fólki sem býr fjærst Reykjavík og ég fullyrði að það sé ærinn tollur og nægur tollur fyrir þá sem búa á afskekktustu stöðunum að þurfa að skipta um flugvél á stöðum eins og Egilsstöðum og Akureyri, ef þeir þurfa að fljúga til Reykjavíkur, þó ríkið sé ekki að hafa þá að féþúfu með þessum hætti.
    Einnig er flugfélögunum gert að greiða virðisaukaskatt af pinklum sem fara með flugfélögunum. Kannski er ekkert við því að segja en það er ærinn útgjaldaauki þótt þessu sé ekki bætt við. Það var hálfbroslegt þegar formaður nefndarinnar lýsti því yfir hér áðan að hann skildi eina grein laganna svo, 12. gr., að skipasmíðar væru undanþegnar virðisaukaskatti. Það stendur ekki í lögunum og skiptir engu máli hvað meiri hl. fjh.- og viðskn. finnst um þau efni. Hér stendur í 6. tölul.: ,,Sala og útleiga loftfara og skipa`` og í 7. tölul. stendur ,,Viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og loftför og fastan útbúnað þeirra svo og efni og vörur sem það fyrirtæki sem annast viðgerðina notar og lætur af hendi við þá vinnu.`` Það er þess vegna óhjákvæmilegt að taka inn í 12. gr. skipasmíðar, hér innan lands. Þetta er auðvitað meinloka. Þetta er auðvitað aðgæsluleysi að orðið skipasmíðar komi ekki inn í greinina strax þegar

frv. var samið og mér dettur raunar ekki annað í hug en að meiri hluti þingdeildarinnar muni fallast á þessa leiðréttingu. Leiðrétting af sama tagi er flutt í sambandi við 2. gr. Þar er talað um að undanþegin ytri skatti sé samkvæmt frv. starfsemi safna, svo sem bókasafna, listasafna og náttúrugripasafna og hliðstæð menningarstarfsemi. Sama gildir um aðgangseyri að tónleikum, leiksýningum og leikhúsum. Nú er þetta álitamál hvort listdanssýning er leiksýning, og auðvitað er listdanssýning ekki leiksýning og ekki tónleikar. Ég hef spurst fyrir um það hvort ríkisskattstjóri eða embætti hans telji listdanssýningu falla undir þennan tölulið og hef ég fengið þau svör að sennilega muni svo vera um ballett en hins vegar ekki um djassballett sem er nú líka skemmtilegur og listrænn ( Gripið fram í: Næsti bær.) og næsti bær eins og sagt er og ég skil ekki túlkun að þessu leyti. Um dans almennt gildir að samkvæmt upplýsingum sem við fengum þá er það opið að dans falli undir þær reglur sem settar eru um meðlimi Íþróttasambands Íslands og um leið og danskennarar hafa sótt um það að ganga í Íþróttasamband Íslands, sem mér skilst að standi þeim opið og það hafi verið samþykkt, fellur niður ytri skattur af danskennslu.
    Hér er talað um heilsuræktarstofur. Það er erfitt að skilgreina hvað er heilsuræktarstofa og hvað er dans í sumum tilvikum. Stundum er dansað á heilsuræktarstofum og stundum eru gerðar leikfimiæfingar þar sem kenndur er ballett. Ballettkennari sem kom á fund nefndarinnar sagði okkur að það væri engin heilsurækt jafnmikil og sú að læra ballett. Það þyrfti að hreyfa allan líkamann, alla vöðva líkamans, til þess að vera góður í ballett þannig að erfitt verður að greina þarna á milli og mér dettur ekki annað í hug en að skilgreining ráðherrans í reglugerð verði sú að dans falli undir 2. gr. eins og m.a. er í Danmörku, en það var yfirlýst við meðferð málsins að hér yrði höfð hliðsjón af dönskum lögum í þessum efnum.
    Við leggjum til að virðisaukaskattur verði ekki lagður á lögfræðiþjónustu. Það er ekki gert í Noregi samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið og
rökstutt með því að lögfræðiþjónusta sem unnin er fyrir atvinnurekstur, fyrir fyrirtæki, falli innan almenna rammans um endurgreiðslu á innskatti og skiptir þá ekki máli, en á hinn bóginn leggst sá virðisaukaskattur sem hér er hugsaður fyrst og fremst á einstaklinga sem leita réttar síns og þá einstaklinga sem búa við mjög bágan fjárhag og verða þess vegna fyrir þeirri ógæfu að lenda í lögfræðilegri innheimtu sem er mjög dýr. Ég vona í lengstu lög að skilningur verði á því í meiri hlutanum að lögfræðikostnaður verði undanþeginn.
    Ein brtt. okkar lýtur að hótelrekstri. Það kom okkur á óvart, við höfðum ekki áttað okkur á því, að eðlileg afleiðing af því að hótelrekstur er undir 2. grein laganna er sú, að virðisaukaskattur leggst með fullum þunga á hótelbyggingar en ekki annað atvinnuhúsnæði nema þá banka og tryggingarfélög sem eru annars

eðlis. Nú er hótelrekstur og gistiþjónusta útflutningsgrein og löggjafinn leggur svo mikið upp úr því að þessi útflutningsgrein geti gengið sem best að ríkið ver sérstöku fé einmitt til kynningar erlendis og til þess að reyna að standa á bak við þessa starfsemi.
    Þetta þýðir að byggingarkostnaður hótela hækkar um 24,5%. Samt vitum við að þessi hótel eiga í harðri samkeppni við Edduhótel og stúdentagarða sem byggðir eru fyrir almannafé og þurfa ekki að standa undir fjárfestingum. Jafnframt á hæstv. fjmrh. að vera kunnugt, og ég tala ekki um fjh.- og viðskn., að á undanförnum árum hefur verulegu fé verið varið úr ríkissjóði til þess að hlaupa undir bagga með hótelrekstri víðs vegar um landið þar sem fjármagnskostnaðurinn hefur orðið þeim aðilum ofviða sem standa fyrir rekstrinum. Í flestum tilvikum eru þetta sveitarfélögin og stundum raunar aðrir aðilar.
    Það verður líka að koma fram að það er nauðsynlegt að hótel séu opin allan ársins hring úti á landsbyggðinni til þess að menn geti farið um, menn geti hreyft sig og hægt sé að taka á móti þeim gestum sem koma vegna atvinnu sinnar eða af ýmsum ástæðum til viðkomandi staða.
    Ég álít að með hliðsjón af þeirri miklu þýðingu sem hótelrekstur hefur fyrir gjaldeyrisöflun okkar sé þetta nánast leiðrétting, að bygging hótela falli undir 12. gr., og fullyrði að sú var ekki hugsun þeirra sem sömdu frv. að leggja sérstakan 24,5% skatt á byggingu hótela hér á landi.
    Ég fullyrði a.m.k. að það kom aldrei til umræðu meðan ég var formaður fjh.- og viðskn. og var á þeim tíma einmitt mikill skilningur í fjh.- og viðskn. á því að sérstaklega yrði að líta til með þessari atvinnustarfsemi. Ferðamannaþjónusta er notað sem punt, m.a. í stefnuskrá Alþb. til margra ára, að það verði að standa á bak við ferðamannaþjónustuna, þannig að ég þykist vita að ráðherrann muni opna handjárnin hjá sínu fólki þegar kemur að því að greiða atkvæði um þetta mál.
    Í 1. mgr. a-liðar 13. gr. er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts af nokkrum tegundum matvæla. Það er óhjákvæmilegt að lesa þá grein upp:
    ,,Endurgreiða skal hluta virðisaukaskatts af neyslumjólk, dilkakjöti, neyslufiski og fersku innlendu grænmeti þannig að skattgreiðslur samtals af þessari matvöru, að teknu tilliti til endurgreiðslunnar, verði sem næst 14% í stað 24,5%.``
    Þessi fyrirmæli laganna eru mjög skýr og það er ekki hægt að lesa þessi fyrirmæli öðruvísi en svo að fjmrh. sé skylt að sjá til þess í sambandi við innheimtu virðisaukaskattsins að þetta standist og það er auðvitað hlægilegt þegar talað er um neyslufisk að hæstv. fjmrh. skuli hafa gefið út reglugerð sem takmarkar þetta við tilteknar fisktegundir en sleppir t.d. silungi og laxi. Það er auðvitað broslegt og hlægilegt. Þessi lagaheimild gefur honum heldur ekki rétt til þess að miða við eitthvert ákveðið vinnslustig þessarar vöru, gefur honum ekki rétt til að segja að t.d. fiskur sem notaður er í fiskrétti falli ekki undir þetta, halda því fram að saltfiskur sé ekki neyslufiskur

hér á landi. Auðvitað er hér átt við matvöruna í útsöluverðinu og auðvitað hefur fjmrh. enga heimild til þess að takmarka þessi skýru fyrirmæli laganna. Á hinn bóginn stendur í þessari lagagrein: ,,Fjmrh. ákveður með reglugerðum nánar hvaða matvara fellur undir þessa málsgrein svo og um framkvæmd endurgreiðslunnar.`` Hér er auðvitað verið að tala um það að vafi getið leikið á um hvort skilgreina beri vissa matvöru sem neyslufisk, sem ferskt innlent grænmeti og þar fram eftir götunum, og um það getur verið nauðsynlegt að setja vissar reglur til að fækka álitamálum og það er framkvæmdarvaldsins. En framkvæmdarvaldið getur hvergi komið inn í þá mynd að ákveða að ein fisktegund fremur en önnur eigi að falla undir þetta ákvæði og fráleitt að í reglugerð sé hægt að setja einhver frekari skilyrði um þessa hluti. Ég þykist vita að Neytendasamtökin muni fylgjast grannt með því hvernig framkvæmdinni verður háttað og augljóst er af því sem ég hef lesið hér úr þessu lagaparagrafi að það er mikill misskilningur hjá ráðherranum að halda að hann geti staðið við orð eins og þessi: ,,Þar kemur margt til greina, jöfn lækkun yfir alla línuna eða meiri lækkun á einstökum tegundum, minni á öðrum. Um þetta hefur ekki verið tekin ákvörðun af hálfu stjórnvalda enda hefur innbyrðis vægi niðurgreiðslna milli einstakra tegunda iðulega verið breytt á
undanförnum árum.`` En þetta bara stenst ekki. Afdráttarlaus lagatextinn er fyrirmæli til fjmrh. um að hann sjái um að öll þau matvæli sem þarna eru séu niðurgreidd um 10,5%, á útsöluverði vörunnar. Ég held að hjá því geti ekki farið. Hins vegar ber fjmrh. að sjá um framkvæmd endurgreiðslunnar og þegar við áttum okkur á því að í þessari lagagrein felast svo afdráttarlaus fyrirmæli til ráðherrans fer maður undir eins að velta þessu fyrir sér: Er þá ekki miklu hreinlegra að taka upp tvö þrep í virðisaukaskatti?
    Það var athyglisvert þegar þetta var rætt í morgun að það upplýstist að það er ekki rétt að fullur virðisaukaskattur í þessum skilningi sé innheimtur af matvörum í Danmörku. Það er ekki rétt, eins og haldið hefur verið fram, heldur er þar um niðurgreiðslur með þessum hætti að ræða. Ef ég fer hér með rangar upplýsingar, sem vel getur verið, væri a.m.k. hollt og gott fyrir okkur að fá þetta nákvæmlega hvernig verðið er fundið út á matvælunum þar í Danmörku en ljóst er að önnur ríki Evrópubandalagsins hafa ekki farið inn á þá leið sem Danir gera í þessu efni, að því er okkur skilst. Það er nú að vísu svo að þær upplýsingar sem við fengum voru samkvæmt minni og má vera að formúlan fyrir niðurgreiðslunum þar sé öðruvísi orðuð, ekki skal ég um það fullyrða, en ljóst er að virðisaukaskatturinn kemur ekki með fullum þunga á öll matvæli þar í landi. Þar koma greiðslur úr ríkissjóði á móti.
    En vegna þess að miklu einfaldara er að hafa þrepin tvö en standa svona að málunum höfum við sjálfstæðismenn flutt um það brtt. á sérstöku þingskjali að hinn 1. júlí nk. verði tekin upp tvö þrep í virðisaukaskatti og þá höldum við okkur við 14%

neðra þrep, eins og hér er í tillögunum, en getum á hinn bóginn auðvitað alls ekki fallist á það að efra þrepið verði 24,5% og hæstv. fjmrh. geti gegnum þessa skattkerfisbreytingu þannig tekið stórfellda fjármuni inn í ríkissjóð. Ég vænti þess að þeir menn sem hafa lýst því yfir að þeir vilji tvö þrep í virðisaukaskattinn veiti þessari till. brautargengi. Ég tek skýrt fram að við hefðum viljað láta öll matvæli falla undir neðra þrepið ef við hefðum haft meiri hl. hér í deildinni en því er ekki að heilsa. Við viljum hins vegar freista þess að koma þessari nauðsynlegu leiðréttingu fram af því að hún er einfaldari í framkvæmd, stuðlar að betri og öruggari skattheimtu og á að tryggja það að tilgangur laganna náist fram.
    Við fengum upplýsingar frá fjmrn. um það hvernig verð á einstökum vörutegundum muni þróast á næsta ári. Það voru að sumu leyti broslegar upplýsingar og í engu samræmi við anda laganna. Þar kemur fram að dilkakjöt í heilum og hálfum skrokkum eigi að lækka um 8,8%, unnið dilkakjöt um 5,2%. Fyrir því er engin heimild í lögunum, engin. Ýsa og lúða eigi að lækka um 8% stendur hér, ýsa, lúða o.fl., væntanlega margvíslegur annar fiskur, ekki þó silungur eða lax, og má þá guð almáttugur vita hvers vegna það er ekki neyslufiskur. Það sem maður les út úr þessum upplýsingum --- maður sér margvíslegar tölur --- er það að þessi lækkun verður ekki til frambúðar. Eftir því sem líður á árið munu þessar vörur hækka í verði á nýjan leik og þar með er það komið fram sem ég fullyrti hér við 1. umr. málsins að framkvæmd virðisaukaskattsins yrði ekki með þeim hætti að þessar vörur lækkuðu um 8,8% í verði. Sú lækkun verður tekin til baka.
    Við sjálfstæðismenn höfum mjög fundið fyrir því, innan fjh.- og viðskn., í viðtölum við menn sem standa fyrir atvinnurekstri, við höfum fengið mörg bréf og erindi frá ótal félögum og hagsmunasamtökum, og öllum ber saman um það að aðdragandinn að kerfisbreytingunni sé fyrir neðan allar hellur. Allir eru sammála um það að fjmrn. hafi unnið illa að þessari kerfisbreytingu. Allir eru sammála um það að það nái auðvitað engri átt að um miðjan desembermánuð skuli ekki öll kurl komin til grafar og enn ekki vera ljóst hvernig framkvæmd virðisaukaskattsins verður í þýðingarmiklum atriðum. Af þeim sökum, þó svo að við teljum nauðsynlegt að virðisaukaskattur verði lögfestur hér á landi, teljum við óhjákvæmilegt að leggja til að gildistöku hans verði frestað til 1. júlí þannig að framkvæmd hans megi fara vel fram þegar kerfisbreytingin verður af því að við óttumst að mjög alvarleg mistök verði í framkvæmdinni nú á fyrstu mánuðum næsta árs.