Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að flytja langa ræðu. Ég vísa til þess þegar frv. til laga um virðisaukaskatt var hér til umræðu á hinu háa Alþingi fyrir tæpum tveimur árum. Þá lýsti ég yfir mikilli andstöðu minni við þetta skattform. Ég hef ekki breytt um skoðun í þeim efnum og vísa til þess sem ég sagði á þeim tíma varðandi virðisaukaskattskerfið.
    Ég er enn þeirrar skoðunar og enn frekar eftir að hafa farið í gegnum það frv. til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem núv. hæstv. ríkisstjórn mælir með og leggur til að fari hér í gegnum þingið, ég er enn frekar þeirrar skoðunar að með þessari útgáfu sé stefnt í öfuga átt og inn á mjög hættulegar brautir, sérstaklega hvað varðar íslenskt atvinnulíf. Ég er sannfærður um að þetta kerfi, og ekki síður þegar maður skoðar það í höndum þeirra sem nú eru við völd á Íslandi, muni hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska atvinnuvegi í heild. Hið sama gildir um stöðu einstaklinga sem standa í sjálfstæðum atvinnurekstri og eru að berjast fyrir tilveru sinni.
    Þessi útgáfa á virðisaukaskatti mun í fyrsta lagi stórlega skaða stöðu íslensks atvinnulífs. Um það blandast engum hugur sem þekkir eitthvað til íslenskra atvinnuvega og hefur starfað úti í íslensku atvinnulífi. Hvað sem líður skoðunum einstakra aðila þar er ekki nokkur vafi á því að þetta kerfi mun hafa það í för með sér meira eða minna að hver einasti einstaklingur sem reynir eitthvað að bjarga sér og standa á eigin fótum, hvert einasta fyrirtæki sem reynir að standa sig og vera á undan sínum tíma er komið undir strangt eftirlit hins opinbera. Það þýðir á mæltu máli að fyrirtækin verða berskjölduð, öllum opin, hvað sem líður því sem segir í lögum að opinberir embættismenn skuli sýna trúnað í starfi og þegja um stöðu einstakra fyrirtækja hvað varðar stöðu þeirra og getu. Það mun því miður koma í ljós að það mun ekki standa, ég segi því miður. Þannig að með þeim
hætti mun samkeppnisstaða margra fyrirtækja og einstaklinga verða stórsköðuð með þessu kerfi.
    Í öðru lagi, sem er ekki síður alvarlegt, er ég sannfærður um að virðisaukaskattskerfið mun skerða mjög afkomu launafólks. Á sínum tíma voru Alþýðusambandið og verkalýðshreyfingin nokkuð hlynnt því að virðisaukaskattskerfið væri tekið upp, en eftir því sem menn hafa kynnt sér þetta betur, þ.e. frá því að lögin voru sett á sínum tíma þó þau væru ekki komin til framkvæmda, virðist mér að þeir sem hafa verið og eru í forustu verkalýðshreyfingarinnar séu að gera sér betur grein fyrir því að þarna sé að verða til tæki sem hið opinbera og valdamenn í íslenskum stjórnmálum muni nota miskunnarlaust til að skerða kjör launafólks og halda því niðri eftir því sem valdhöfum sýnist á hverjum tíma og eftir því hvernig þeir koma sér saman um að deila valdi gegnum hið háa Alþingi með stjórnaraðild að ríkisstjórnum.
    Í þriðja lagi, og það fer þá ekki á milli mála, mun virðisaukaskattskerfið hafa í för með sér stóraukna

skattbyrði, og ætla ég ekki að fara nánar út í það.
    Í fjórða lagi mun virðisaukaskattskerfið, eins og ég gat um í upphafi míns máls, virðulegi forseti, auka miðstýringu sem felst í því að nú mun hæstv. fjmrh. og þeir sem bera ábyrgð á þessu kerfi fá tækifæri til að ráða tugi ef ekki hundruð manna til þess að fara ofan í einkahagi fólks með öðrum hætti heldur en áður hefur tíðkast. Ég frábið mér það að það svar komi á móti að vegna þess að menn á Íslandi séu svo miklir skattsvikarar þurfi að innleiða slíkt kerfi. Meginþorri Íslendinga er ekki skattsvikarar og það þýðir ekkert að segja við mann að á þeirri forsendu sé nauðsynlegt að koma upp slíku kerfi sem hér um ræðir. Ég tala fyrir hönd allra þeirra sem telja fram satt og rétt á hverjum tíma og hafa gert í áratugi og það er meginþorri þessarar þjóðar.
    Virðisaukaskattur mun þegar til lengdar lætur leggja að velli hundruð smáfyrirtækja og draga úr viðleitni einstaklinga til að standa á eigin fótum framkvæmdalega séð. Tel ég það mjög alvarlegt mál sem mun hafa það í för með sér að lífskjör þjóðarinnar munu versna og framkvæmdir ekki verða með þeim hætti að lyfta undir efnahag bæði þjóðarinnar og einstaklinga. Virðisaukaskattur á matvælum er að mínu mati mesta kjaraskerðing sem launafólk hefur orðið fyrir og mun minnka kaupmátt launa enn meir en orðið er hvað sem líður þeim tillögum eða hugmyndum sem þetta frv. gerir ráð fyrir í sambandi við niðurgreiðslur ákveðinna matvælategunda. Það er rétt sem hefur komið hér fram í ræðum þingmanna að í sumum ríkjum Vestur-Evrópu er enginn skattur á matvælum. Þannig hefði það átt að vera einnig hér á Íslandi. Staðreyndin er nefnilega sú eins og hæstv. fjmrh. veit að meginþorri launþega stendur í sífelldri varnarbaráttu um kaupmátt launa. Það að leggja svona skatt á matvæli almennt eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., og var einnig í því frv. sem var samþykkt á sínum tíma þó ekki væri búið að útfæra prósentuna, felur í sér gífurlega kjaraskerðingu gagnvart launafólkinu sem er stöðugt í varnarbaráttu við að ná upp lágmarkstekjum til að geta lifað. Við þekkjum það sem höfum verið í verkalýðshreyfingunni hvað erfitt er að ná upp lægstu laununum. Lægstu
launin eru raunverulega alltaf fyrir neðan það lágmark sem þetta fólk þarf til þess að geta lifað. Og að ætla að koma síðan með virðisaukaskatt með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir mun hafa í för með sér ómælda kjaraskerðingu fyrir láglaunafólk. Allar niðurgreiðslur og millifærslur sem gert er ráð fyrir í sambandi við þetta frv. munu ekki duga til þess að mæta þeirri kjaraskerðingu.
    Virðisaukaskatturinn er að mínu mati nútímatæki valdamanna til að halda fólki niðri kjaralega séð og allt tal þessara manna, þ.e. valdamannanna, um að niðurgreiðslur, endurgreiðslur eða einhvers konar millifærslur skuli koma til þeirra sem eru verst settir er ekkert annað en blekking í sambandi við þetta frv. sem hér er til umræðu og skattakerfið almennt því að reynslan sýnir og hefur sannað það að slíkar

endurgreiðslur og slíkar niðurgreiðslur koma seint eftir á. Og í þjóðfélagi þar sem menn eru með um 20--30% verðbólgu árlega er það auðreiknanlegt hversu mikil þessi rýrnun er og einnig hvaða smugur valdhafar hafa til að skríða í gegnum til þess að þurfa ekki að standa við þau fyrirheit sem m.a. eru tengd þessu frv.
    Ég sagði, virðulegi forseti, hér í upphafi að á sínum tíma greiddi ég ekki atkvæði með virðisaukaskattsfrv. sem var hér afgreitt á þingi 1988. Og ég mun heldur ekki greiða þessu frv. atkvæði mitt. Enn síður. Ég vil einnig vekja athygli á því, virðulegi forseti, að það kom hér fram í ræðu áðan að þær þjóðir sem hafa tekið upp virðisaukaskatt virðast ekki vera allar jafnánægðar með það því að enn þá er þó einhver mannúð til hjá valdhöfum hinna ýmsu ríkja og ég vonast til þess að það sé einnig hér og verði á Íslandi. En staðreyndin er sú að þessar þjóðir, sem hafa farið í gegnum virðisaukaskattskerfið, hafa upplifað það að það hefur ekki jákvæð áhrif, sérstaklega ekki úti í atvinnulífinu, og það hefur ekki komið réttlátlega niður gagnvart hinum ýmsu hópum launþega eða hinum ýmsu tekjuhópum í viðkomandi þjóðfélögum.
    Norðmenn hafa t.d. orðið fyrir áföllum vegna virðisaukaskattskerfisins og núna munu vera uppi umræður í Noregi um það hvort ekki sé rétt að fara aftur yfir í söluskattsfyrirkomulagið eins og þeir höfðu það. Ég vil vekja athygli bæði virðulegs forseta á þessu atriði og einnig hæstv. fjmrh.
    Vegna þeirra brtt. sem hér eru fram komnar, þá gefur það auðvitað auga leið að ég styð brtt. þær sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Halldór Blöndal leggja hér fram. En ég vil einnig taka það fram að ég mun styðja brtt. á þskj. 333 frá 2. minni hl. fjh.- og viðskn. Ég mun greiða þeim lið atkvæði mitt þar sem segir:
    ,,1. Við 1. gr. A-liður orðist svo:
    1. málsl. 1. mgr. orðist svo:
    Skattskyldan nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, sbr. þó 12. gr., nema matvöru sem er undanþegin virðisaukaskatti.``
    Þessu mun ég geta greitt atkvæði mitt hér á eftir. Ég vildi láta þetta koma fram. ( EG: Það vantaði ekki.) Það vantaði ekki, sagði hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason. (Gripið fram í.) Ég er nú að segja þetta til þess að fá þetta inn í þingtíðindi og það er fróðlegt að heyra undirtektir hv. þm. úti í sal við þeim tillögum sem liggja hér fyrir. (Gripið fram í.) Hann var ekki inni hér áðan, hv. þm. Eiður Guðnason, þegar ég lýsti yfir að ég væri á móti virðisaukaskattskerfinu í heild þannig að þetta er bara viðbót. Þar sem ég hef ekki svigrúm til þess að greiða atkvæði nema einu sinni hvað það atriði áhrærir, þá vildi ég láta þetta koma skýrt fram. ( Fjmrh.: Þú getur greitt atkvæði ...) Það er að vísu rétt, hæstv. fjmrh. En ég vildi undirstrika þessa afstöðu mína alveg sérstaklega.
    Að lokum, virðulegi forseti. Það er oft talað um það að þetta kerfi, virðisaukaskattskerfið, sé nauðsynlegt með tilliti til þess að það þurfi að

samræma íslenskt skattakerfi því sem tíðkast í Vestur-Evrópu og þá er sérstaklega vikið að Evrópubandalaginu. En þá vil ég vekja athygli á því að þetta snýst ekki raunverulega um form heldur innihald. Og ef við lítum á það með tilliti til samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja annars vegar gagnvart fyrirtækjum innan Evrópubandalagsins þar sem menn hafa tekið upp virðisaukaskattskerfið, þá er það auðvitað skattbyrðin sem er grundvallaratriði og það sem skiptir meginmáli. Og skattbyrðin hér á Íslandi er orðin svo mikil og óbærileg að þessi form út af fyrir sig munu ekki leysa þann vanda að gera íslenska atvinnuvegi samkeppnishæfari í samkeppninni á mörkuðum Vestur-Evrópu nema síður sé. Þannig að sú röksemd, að það þurfi að breyta íslenska skattkerfinu með tilliti til þess, stenst ekki á meðan skattabyrðin er með þeim hætti, af þeirri ástæðu einni hvað hún er mikil hér á Íslandi borið saman við það sem er erlendis. Það dugar ekki að leggja það þannig fyrir. Það hefði verið nær að hér lægju fyrir hugmyndir um það hvernig ætti að létta á sköttum í íslensku atvinnulífi. Þetta snýst sem sagt ekki um form heldur um innihald og þessi skattabyrði, skattheimta á Íslandi er gjörsamlega óþolandi og dregur niður athafnahvöt og eyðileggur samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja það að þetta frv. eins og önnur
frv. sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fyrir þetta þing varðandi skattamál hnígur í sömu átt. Það er verið að efla ríkisvald, ríkiskerfi á kostnað einstaklinga og atvinnulífs.