Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir mjög mikla vinnu við meðferð þessa frv. á mjög skömmum tíma. Fjh.- og viðskn. hefur kallað mikinn fjölda fulltrúa fyrirtækja og samtaka vinnumarkaðarins á sinn fund. Ásamt sérfræðingum hafa þessir fulltrúar reifað fjölmörg atriði og hér í ítarlegum ræðum, sérstaklega hv. þm. Halldórs Blöndals og hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur hefur verið vikið að mjög mörgum álitamálum varðandi virðisaukaskatt.
    Það hefur alltaf verið ljóst að þegar Íslendingar tækju upp virðisaukaskatt, þá yrðu mjög mörg efnisatriði sem skiptar skoðanir yrðu um. Það stafar sumpart af því að virðisaukaskatturinn er í eðli sínu svo ólíkur öðrum sköttum sem við höfum haft að hann gengur að ýmsu leyti þvert á hefðbundnar hugmyndir manna um eðlilegt samræmi í skattlagningu hér á landi. Ástæðan er einnig sú að hér er á ferðinni kerfisbreyting sem snertir svo marga þætti í þjóðlífinu að það er ósköp eðlilegt að gildisviðhorf einstaklinga, samtaka og flokka gagnvart hinum ólíku þáttum samfélagsins hafi áhrif á afstöðu manna til þess hvort tiltekin atvinnustarfsemi eða tiltekin starfsemi einstaklinga eigi að falla undir skattinn eða ekki.
    Ég hef vakið athygli á því áður að reynsla annarra þjóða sýnir að óhjákvæmilegt er að taka mörg atriði í virðisaukaskatti til endurskoðunar á fyrsta ári eða fyrstu árum skattsins í viðkomandi landi. Reynsla t.d. norrænna þjóða af þeirri kerfisbreytingu sem við stefnum að hér um næstu áramót sýnir okkur að umræðan áður en skatturinn tók gildi varð í raun og veru ekki að fullu gagni fyrr en menn höfðu skýra mynd af því hvernig skatturinn í reynd mundi birtast á hinum ýmsu sviðum. Það er þess vegna óhjákvæmilegt að á næsta ári og reyndar árinu þar á eftir verði mjög náið fylgst með framkvæmd skattsins á ýmsum sviðum og hvernig skattlagningin kemur út.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita sér fyrir ítarlegri athugun á næsta ári á kostum þess að vera með virðisaukaskatt í einu þrepi sem leggst á mörg svið í þjóðfélaginu og hins vegar kostum þess að vera með virðisaukaskatt í tveimur þrepum þar sem lægra þrepið er sérstaklega á matvælum. Um þetta efni verður gerð mjög ítarleg skýrsla sem sjálfsagt er að allir flokkar fái til skoðunar þegar hún hefur verið samin því að örugglega á virðisaukaskatturinn eftir að verða viðfangsefni allra stjórnmálaflokka í landinu um mörg ókomin ár. ( GA: Þeirra sem lifa það af.) Já, þeirra sem lifa það af, segir hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir. Ég er nú sannfærður um að það muni margir lifa það af. Ég tel að tilkoma virðisaukaskattsins nú muni styrkja mjög ýmsar atvinnugreinar í okkar landi. Ég er að því leyti ekki sammála því sjónarmiði sem hér kom fram áðan hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni.
    Þess vegna eru mörg af þeim atriðum sem hér hafa verið nefnd þess eðlis að ýmist hefur þegar verið tekin afstaða til þeirra af hálfu stjórnvalda og sú

afstaða birtist í því frv. sem lagt hefur verið fram hér á Alþingi og hér er til umfjöllunar eða þá að menn telja rétt að bíða með að taka nánari afstöðu til þeirra annarra atriða þar til menn fá nánari reynslu af framkvæmd skattlagningarinnar.
    Ég ætla þá að víkja að örfáum atriðum sem hér hafa verið nefnd. Margir ræðumenn hafa vikið að því ákvæði að skattlagning á bókum á íslenskri tungu verði afnumin 15. nóv. á næsta ári. Ýmsir hafa lagt áherslu á það að þetta ætti að gerast fyrr. Skýringin á því hvers vegna ég hef ekki viljað fallast á slíkar tillögur er einfaldlega sú að ég taldi mér ekki kleift að hreyfa við tekjuforsendum fjárlagafrv. á næsta ári. Dagsetningin 15. nóv. er valin vegna þess að þá hefst síðasta uppgjörstímabil virðisaukaskatts á þessu ári sem kemur hins vegar ekki til reikningsfærslu fyrr en gagnvart fjárlögum 1991. Það vill hins vegar svo vel til að það fer saman helsta bókavertíð Íslendinga og þessi dagsetning. Hún er ekki valin gagngert með tilliti til bókavertíðarinnar, heldur er hún valin einfaldlega á grundvelli þeirrar forsendu að ég taldi mér ekki kleift að gera tillögu um skattbreytingu sem svipti ríkissjóð tekjum sem nema um 400 millj. kr. a.m.k. á ársgrundvelli og leggja um leið til að það kæmi til frádráttar í því fjárlagafrv. sem ég hef lagt fyrir hv. Alþingi. Ég vona að menn skilji þessa afstöðu. Í henni felst enginn dómur um skólabækur eða annað ritað mál, heldur einfaldlega viðleitni til þess að hafa ákveðið samræmi í þeirri tillögugerð sem ég legg hér fyrir hv. Alþingi.
    Hv. þm. Halldór Blöndal vék einnig að því að það gæti nokkur vafi leikið á því hvort listdans ætti að teljast til þeirra greina sem undanþegnar eru virðisaukaskatti í 2. gr. frv. ef ég man rétt. Ég tel vel koma til álita að breyta texta frv. á þann veg sem hv. þm. leggur til og taka orðið listdans inn í þá upptalningu til að taka af öll tvímæli í þessum efnum.
    Það hefur einnig verið vikið nokkuð að því hvernig yrði með framkvæmd gjaldfrests í tolli. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur nú þegar verið mótuð sú stefna að undanþiggja hráefni til iðnaðar og
olíuvörur einnig hvað þetta snertir og veita gjaldfrest strax í tolli. Hins vegar er nauðsynlegt að taka sér aðeins lengri tíma til þess að skoða framkvæmd varðandi aðra þætti í gjaldfresti og gera það þá stig af stigi ef niðurstaðan verður sú að veita gjaldfrestinn á þeim sviðum. Gjaldfresturinn getur auðvitað líka haft áhrif á samkeppnisstöðu einstakra greina. Ég hef orðið var við það að menn vilja að þar sitji í forgangsröð íslenskur iðnaður og hráefni til hans.
    Það hafa verið settar fram hér í umræðunum mismunandi skoðanir á því hvort þetta atriði kunni að leiða til verðhækkana eða ekki. Ég hef rætt m.a. við forsvarsmenn stóru matvöruverslananna á höfuðborgarsvæðinu sem ekki telja að þetta muni hafa áhrif á vöruverðið sjálft og þær athuganir sem fram hafa farið á því máli, bæði af hálfu endurskoðanda kaupmannasamtakanna og eins stjórnvalda sýna að ef um það er að ræða, þá eru þau ekki mikil.

    Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson kynnti hér einnig brtt. sem er tæknilegs eðlis og kemur vel til álita að skoða. Ég treysti mér ekki hér og nú að taka afstöðu til hennar án þess að hafa lengri tíma til að meta hvað hún kann að fela í sér. Hins vegar deili ég nú löngun með hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni að fá hér tíma í hv. deild til þess að ræða við hann um þau efnahagslegu atriði sem hann vék að í sinni ræðu og við höfum nokkrum sinnum rætt hér með hléum í þingsölum undir ýmsum dagskrárliðum. Kannski voru það mistök hjá okkur hér fyrr í dag þegar boðað var til fundar kl. hálfeitt og honum síðan frestað til kl. 3 (Gripið fram í.) að bjóðast ekki til þess að tala um þessi efni undir þeim ýmsu dagskrárliðum sem þá voru á dagskránni og hefðu vissulega ... (Gripið fram í.) Já, það er leitt ef hv. þm. hefur verið upptekinn. En mér kom í hug þessi möguleiki og við ættum kannski að hafa hann í huga næstu daga ef hlé skapast af öðrum ástæðum að nota þá tímann til þess að ræða um þessa þætti. Ég tel að þeir séu mjög mikilvægir. Þeir snerta ákveðin grundvallarmál í hagstjórn og líka grundvallarmat á afstöðunni til þess hver vandamálin eru sem við er að fást í íslensku efnahagslífi og ég vona að við getum fundið okkur tækifæri til þess, jafnvel fram að jólum, að halda þeirri umræðu áfram.
    Ég vil svo endurtaka þakkir mínar til hv. nefndar fyrir mjög vel unnið starf við erfiðar aðstæður. Virðisaukaskatturinn er auðvitað ekki fullkominn frekar en önnur mannanna verk og það er alveg ljóst að svo víðtæk breyting kallar á fjölmörg álitamál. Hins vegar tel ég mikilvægt að nokkuð breið samstaða hefur náðst um það þrátt fyrir að menn hafi haft ólíkar skoðanir á þessari skattlagningu á undanförnum árum að koma henni í framkvæmd hér á landi. Ég hef sannfærst um það að hún sé nauðsynlegur þáttur í aðlögun okkar að efnahagskerfi okkar helstu samkeppnislanda og þess vegna þurfum við að stíga þetta skref.
    Það hefur einnig verið vikið nokkuð að því hvernig þessi skattur kynni að koma út gagnvart sveitarfélögum. Ég hef kynnt það sjónarmið forsvarsmönnum Sambands ísl. sveitarfélaga að við munum fylgjast mjög náið með því hvernig skatturinn kemur út á því sviði. Það eru mismunandi skoðanir um það atriði og ég vænti þess að slík sameiginleg athugun geti hafist fljótlega á næsta ári. Það er alls ekki ætlun stjórnvalda að hafa virðisaukaskattinn sem einhverja meiri háttar tekjulind hvað sveitarfélögin snertir.
    Það hefur einnig verið vikið að því að virðisaukaskattur kynni að koma nokkuð illa við dreifbýisverslun og verðlag í dreifbýli. Ríkisstjórnin hefur fengið skýrslu frá sérstakri nefnd sem hefur lagt fram ýmsar tillögur til að styrkja dreifbýlisverslunina. Mér finnst að mörgu leyti skynsamlegra að skoða þær tillögur ýmsar og við erum reiðubúnir að framkvæma margar af þeim frekar en að fara að gera almenna breytingu fyrir allt viðskiptalífið í landinu til þess að ná fram sérstakri styrkingu fyrir dreifbýlisverslunina.

    Virðulegi forseti. Ég veit að það væri vissulega efni til þess að hafa um þetta lengra mál, en ég vildi þó víkja að nokkrum þeirra atriða, þeim stærstu tel ég vera, sem fram hafa komið hér í ræðum einstakra þingmanna.