Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Það er aðeins örstutt. Mig langar til þess að inna hæstv. fjmrh. frekar eftir því sem lýtur að gjaldfresti í tolli. Ég óttast að verði það ekki framkvæmt, þá hafi það í för með sér verðhækkanir sem bitna á þeim sem síst skyldi. Í öðru lagi óttast ég líka, verði þetta ekki gert, að það kunni að bitna á verslun í dreifbýli.
    Ég held að það væri mjög gott og ég vildi óska eftir því við hæstv. fjmrh. að hann geri betur grein fyrir sínum viðhorfum og hvað hann hyggst gera í þessum efnum heldur en kom fram hér áðan, hann vék að þessu, því að ég tel þetta nokkuð stórt mál. Ef það fer fram með þessum hætti þá sýnist mér að það geti orðið mikill skaðvaldur hér á næsta ári. Ég vildi því mjög gjarnan óska eftir því við hæstv. ráðherra að hann gæfi hér yfirlýsingu um það að ef til þess kæmi að þetta leiddi til verðhækkana og ylli því að verslanir í dreifbýli gyldu þessa, þá yrði því breytt ef hann hyggst framkvæma þetta með þeim hætti sem nú er gert ráð fyrir. Ég vildi hins vegar miklu frekar að hann lýsti því hér yfir að þetta yrði ekki gert á þann hátt sem verið er um að tala, þannig að þetta yrði veitt.
    Kannski fer ég fram á allt of mikið, hæstv. ráðherra. Ég er yfirleitt mjög lítilþægur maður en vil samt draga hér fram þetta þó að mér sé líka ljóst að það eru ótal atriði, ótal spurningar sem ekki er svarað í hugsanlegri framkvæmd á þessu frv. vegna þessara breytinga og ég hef trúlega ekki svör við einu eða neinu í þeim efnum. En mér sýnist að þetta geti stefnt í óefni ef ekki verður tekið af skarið með það að þessi breyting valdi ekki verðhækkunum og hún leiði ekki til þess að verslanir í dreifbýli beri skarðan hlut frá borði. Nógu illa eru þær settar fyrir. Ég vil mjög gjarnan að hæstv. ráðherra gefi yfirlýsingu hér við þessa umræðu hvernig hann hyggst breyta í þessum efnum.