Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það væri vissulega gagnlegt að fara yfir þetta mál ítarlega hér því að við höfum unnið mikið að athugun þessa máls á undanförnum mánuðum. Ég vil þó aðeins stikla hér á örfáum atriðum.
    Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því að staða verslunarinnar styrkist á ýmsan hátt við tilkomu virðisaukaskattsins og sérstaklega mun smásöluverslunin standa betur eftir upptöku virðisaukaskattsins en hún gerir í dag. Skýringin felst í því að það verður minni fjárbinding hjá smásöluversluninni í virðisaukaskattinum heldur en í söluskattinum. Ástæðan er sú að fyrirtæki í smásöluverslun, eins og reyndar önnur fyrirtæki, fá nú frádreginn þann virðisaukaskatt, sem þau greiða af margvíslegum aðföngum og rekstrarkostnaði, sem áður bar söluskatt og verslunarfyrirtækin báru þess vegna algjörlega hjá sér.
    Við vitum það vel, og ég veit að hv. þm. Karvel Pálmason er því vel kunnugur, að dreifbýlisverslunin hefur borið hærri kostnaðarhlut af slíkum þáttum heldur en smásöluverslun hér á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna mun þessi eðlisþáttur virðisaukaskattsins koma dreifbýlisversluninni enn meir til góða heldur en öðrum verslunarfyrirtækjum. Frádráttur hennar verður hærri og meiri því að margvíslegir aðrir kostnaðarþættir lögðust ofan á það sem söluskatturinn síðan bættist við í því kerfi sem við búum nú við hjá smásöluverslunum. Þetta tel ég nauðsynlegt að menn hafi í huga þegar menn eru að reyna að meta áhrif virðisaukaskattsins í heild á stöðu þessara verslunarfyrirtækja þó að það sé í sjálfu sér óskylt mál greiðslufrestinum. En afleiðingar þessa verða þær að rekstrarstaða og afkoman hjá smásöluversluninni, sérstaklega í dreifbýli, verður vegna þessa munar á virðisaukaskattinum og söluskattinum hagstæðari en áður. Mjög ítarleg athugun hefur farið fram á þessum þætti, m.a. af sérstökum sérfræðingi sem kaupmannasamtökin réðu til sín er kannaði þennan þátt mjög rækilega.
    Greiðslufresturinn, sem hér hefur nokkuð verið rætt um, hefur fyrst og fremst áhrif á afkomu heildverslunarinnar, ekki smásöluverslunarinnar og að vísu hugsanlega þeirra fyrirtækja sem eru í blandaðri smásölu og heildsölu. Um þetta atriði hefur líka verið fjallað allítarlega og sjálfstæð athugun sem sérfræðingar kaupmannasamtakanna og Verslunarráðsins framkvæmdu og athugun sem sérfræðingar fjmrn. framkvæmdu leiddu það báðar í ljós að áhrif greiðslufrestsins voru algjörlega háð því hvað viðkomandi verslunarfyrirtæki veittu viðskiptavinum sínum langan gjaldfrest. Við vitum að í íslenskri verslun hefur það verið nokkuð mikið vandamál að heildsölufyrirtæki hafa veitt smásölufyrirtækjum nokkuð langan gjaldfrest. Það hefur leitt til þess, sérstaklega þegar óstöðugleiki ríkir í verslunarrekstri og mikið er um það að verslunarfyrirtæki, sérstaklega smærri

verslunarfyrirtæki verði gjaldþrota, að heildverslanirnar hafa tapað miklum fjármunum. Þess vegna hefur verið nokkuð rík tilhneiging til þess að stytta þessa greiðslufresti. Ég vek athygli t.d. á því að í Danmörku, sem menn víkja nú oft að í þessari umræðu, eru það fjórar til fimm stórar heildverslanir sem þjóna allri smásöluverslun í matvælum í Danmörku og þær veita ekki greiðslufrest.
    Athugunin leiddi það hins vegar í ljós að ef greiðslufresturinn er styttri en 45 dagar, þá beinlínis verður fjárhagsstaða bæði heildsöluverslananna og smásöluverslananna það hagstæð að heildaráhrifin á verðlagið eru engin, jafnvel beinlínis til lækkunar á verðlagi. Ef aftur á móti sá greiðslufrestur sem heildsalar veita smásölunni er lengri en 45 dagar, þá verða áhrifin til einhverrar hækkunar, þó þannig að hún var metin í kringum 0,5--1% miðað við kringum tveggja mánaða greiðslufrest heildsöluverslunar til smásöluverslunar.
    Þessar athuganir finnst mér sýna það að ekki séu sterk efnisrök fyrir því að þessi breyting muni leiða til verðhækkana og hún mun þar að auki styrkja rekstrarstöðu dreifbýlisverslunar umfram rekstrarstöðu verslunarfyrirtækja hér á höfuðborgarsvæðinu. Þau fyrirtæki, sem þetta atriði kann að vera neikvæðast fyrir, eru sérstaklega smærri heildsölufyrirtæki sem byggja mikið á því að flytja inn litla vöruskammta og eru ekki mjög umsvifamikil. En stærri heildsölufyrirtæki eða fyrirtæki eins og stóru matvælaverslanafyrirtækin hér á höfuðborgarsvæðinu sem eru í senn innflutningsaðilar og smásöluaðilar munu ekki þurfa að bregðast með neikvæðum hætti við þessu atriði.
    Ástæðan fyrir því að þetta kemur hins vegar öðruvísi út fyrir iðnaðinn og að það er enn mikilvægara fyrir iðnaðinn að fá þessa greiðslufresti í tolli, er eins og við vitum að það tekur mun lengri tíma fyrir iðnaðinn að vinna úr sínu hráefni. Framleiðsluferillinn og söluferillinn tekur yfir lengri tíma og þess vegna er það mun brýnna fyrir iðnaðinn að fá greiðslufrest í tolli.
    Hins vegar munum við fylgjast mjög náið með þessu atriði og skoða það og, eins og hér kom fram í nál. meiri hl., huga að frekari breytingum varðandi þessa greiðslufresti en þegar hafa verið ákveðnir. En að lokinni þessari athugun finnst mér ekki ástæða til að óttast það að þetta leiði til verðhækkana og ég hef sérstaklega fært að því rök hér hvernig
virðisaukaskatturinn í heild sinni muni vera til bóta verslunarfyrirtækjum í dreifbýli sem hafa haft hlutfallslega hærri kostnaðarliði sem nú koma til frádráttar en smásöluverslunin á þéttbýlissvæðunum.
    Ég vona að þetta veiti nokkra innsýn í þetta mál þótt vissulega hefði verið efni til þess að fjalla um það á lengri tíma.