Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Sú viðmiðun sem lögð er til í frv. er sú sama sem notuð hefur verið í annarri skattalöggjöf og er einnig sú sama og lánveitingar Húsnæðisstofnunar hafa miðast við. Það var talið eðlilegt að þegar þessu væri ýtt úr vör væri notuð sú sama viðmiðunartala og fest hefur í sessi á öðrum sviðum.
    Ég á nú ekki von á því að þetta leiði til svartrar vinnu. Þvert á móti held ég að sú þróun sé í okkar þjóðfélagi að menn safni viðgerðum og viðhaldi saman á sínu húsnæði í stærri áfanga til þess að fá verkin betur unnin og geta þá tekið meira í gegn. Áður fyrr var það hins vegar þannig að menn voru meira í smærri viðgerðum en húsakostur þjóðarinnar er nú orðinn eldri af eðlilegri ástæðu og þess vegna verða viðgerðirnar stærri og umfangsmeiri nú á næstu árum en þær voru áður fyrr.