Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Herra forseti. Við kvennalistakonur vöruðum sérstaklega við hugmyndum um skatt á matvæli fyrir fjórum til fimm árum þegar virðisaukaskattur var til umræðu hér í þinginu. Við mótmæltum harðlega þegar 10% matarskattur var lagður á sumarið 1987 og við börðumst ákaft gegn því þegar hann var svo hækkaður upp í 22% um áramótin 1987--1988 og reyndum til hins ýtrasta ásamt öðrum að koma í veg fyrir þennan óréttláta skatt. Að okkar mati er um aðgerð að ræða sem sannanlega vegur illilega að afkomu heimilanna, einkum þeirra fjölskyldna sem hafa lægstar tekjur og eiga flest börn. Það er óverjandi að skattleggja nauðþurftir eins og matvæli og því segi ég já.