Virðisaukaskattur
Föstudaginn 15. desember 1989


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla því sem kom fram hjá hv. 6. þm. Vesturl. að það hafi ráðið úrslitum þegar þessi dagsetning var valin að verið væri að refsa námsmönnum. Það er rangt sem fram kemur að ríkisstjórnin eða við sem myndum meiri hl. í fjh.- og viðskn. séum á einn eða annan hátt að ganga á hlut námsmanna. Ég held þvert á móti að þegar til framtíðar er litið, þá komi einmitt þetta ákvæði til með að styrkja námsmenn og annað hitt að þegar litið er til þess að hingað til og í mörg ár hafa bækur verið með söluskatti, þá er þarna stigið mjög stórt og mikilvægt skref í þágu íslenskrar menningar og einmitt verið að auðvelda þeim sem nám stunda að kaupa námsbækur. Þingmaðurinn segir nei.