Stofnun og slit hjúskapar
Föstudaginn 15. desember 1989


     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í deildinni vakti ég athygli á því að mér kæmi það kynduglega fyrir sjónir að bæjarfógetar, sýslumenn, yfirborgardómarar og borgardómarinn í Reykjavík og lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli hefðu sérstaka hæfileika til að tala milli hjóna sem stæðu frammi fyrir þeirri alvarlegu ákvörðun að leysa upp heimili sitt. Ég harma að nefndin hefur ekkert tillit tekið til þessara athugasemda. Mér finnst þetta í stuttu máli fáránlegt. Hér held ég að hefði átt að vísa fólki fremur til kunnáttumanna, svo sem félagsráðgjafa og annarra slíkra. Fólk getur haft tilfinningaleg tengsl til sóknarprests síns, en mér þykir það með ólíkindum að menn hafi slíkt samband við sýslumenn og bæjarfógeta að nokkurn mann langi til að ræða viðkvæmustu mál sín við lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli eða sýslumenn og bæjarfógeta.
    Hv. þm. Friðjón Þórðarson sagði hér hins vegar í ræðu að honum hefði tekist að sætta hjón og ber að fagna því. En að vísa fólki nú á tímum með svo alvarlega ákvarðanatöku til yfirvalds finnst mér með ólíkindum og ekki sæmandi hinu háa Alþingi. Og ég skil ekki hvers vegna hv. nefnd gat ekki tekið tillit til þessara athugasemda minna og haft þetta á þann veg að fólk leitaði sér ráðleggingar til fólks sem hefur einhverja yfirsýn yfir þau félagslegu vandamál sem fólk stendur frammi fyrir þegar það leysir upp heimili með börnum og viðkvæmum sárindum milli alls kyns annarra ættingja, sem þessi vandamál blasa við t.d. ömmum og öfum og öðrum ættingjum. Ég tel að það hafi verið gott að leggja niður sáttanefnd á sínum tíma. Hún var svona ámóta vandræðalegt fyrirbæri hvað sem hv. þm. Friðjón Þórðarson segir um það. En hvað þessi erindi eiga að gera til sýslumanna, bæjarfógeta og lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli, það verð ég að segja að það er með ólíkindum. Ég sé það á svipnum á hæstv. dómsmrh. að hann er mér hjartanlega sammála.
    Ég vil biðja hv. nefnd að líta aðeins á þetta mál aftur. Ég held að hver maður hljóti að sjá að þetta er gersamlega fáránlegt.
    Hjónaskilnaður er ekkert gamanmál. Það er alvörumál sem þarf að fara vandlega yfir áður en sú stóra ákvörðun er tekin að leysa upp heimili með börnum og öllu því sem því tilheyrir, og ég sé fyrir mér erindisrekstur til umræddra aðila sem algert formsatriði sem enga praktíska þýðingu hefur. Þessi mál eru of alvarleg til að hið háa Alþingi taki svo létt á þeim. Þess vegna bið ég á þessu stigi málsins, þó seint sé, að þetta mál verði skoðað ofurlítið betur og ég vil vísa því til ríkisstjórnarinnar allrar og ekki síst hæstv. félmrh. og ég vil bara leyfa mér að spyrja ráðherrann hvort henni finnist virkilega þarna vera rétt að staðið.