Stofnun og slit hjúskapar
Föstudaginn 15. desember 1989


     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Ég hef það á tilfinningunni að menn skilji ekki alveg hvað hér er um að ræða. Hjúskaparslit eru ekki vandamál tveggja manneskja sem hafa búið saman um lengri eða skemmri tíma. Ég held að þegar fólk tekur svo afdrifaríka ákvörðun þá hljóti það að líta til þess hvort börnin þeirra geti borið slíkan atburð. Eiga sýslumenn og bæjarfógetar að meta það? Hvað skyldi geta fengið fólk til þess að halda áfram hjúskap þrátt fyrir e.t.v. erfiðleika milli hjónanna? Skyldi það þá ekki vera tillit til barna á ýmsum aldri? Og vitaskuld hlýtur allt fullvita og fullorðið fólk að líta til þeirra afleiðinga sem hjúskaparslit hafa. Hvað getur yfirvald á borð við bæjarfógeta og sýslumenn gert í þeim málum? Þeir geta rætt, sennilega í allflestum tilfellum og öllum, við þessar tvær manneskjur sem eru að hugsa um hjúskaparslit. Biðja þeir um að fá að tala við börnin? Biðja þeir um að fá að tala við sjúklinga í fjölskyldunni, alls kyns fólk sem slíkt gæti bitnað svo harkalega á að vera kynni að umrædd hjón sæju sér ekki fært að slíta hjúskap sínum? Hér er um svo margflókin mál að ræða að mér finnst það fjarri öllu lagi að ætlast til þess að sýslumenn og bæjarfógetar beri ábyrgð á slíkum ákvörðunum. Það er þetta sem ég er að reyna að segja. Þess vegna held ég að það væri frekar á færi félagsráðgjafa að vísa fólki með börn sín til, við skulum segja barnasálfræðinga, fagfólks, sem eitthvað veit hvað það er að gera í þessum efnum.
    Ef hið háa Alþingi tekur ekki alvarlegar á slíkum málum skal ég svo sem ekki að vera að lengja umræður um það, en mér þykir satt að segja heldur gáleysislega farið með hugtakið ,,fjölskylda``.