Stofnun og slit hjúskapar
Föstudaginn 15. desember 1989


     Guðrún Helgadóttir:
    Einungis til upplýsinga, hv. þingheimur. Þetta mál er svona eins og hæstv. utanrrh. mundi segja: Sáttanefndirnar gleymdust þegar endurskoðuð voru lög um stofnun og slit hjúskapar fyrir tveimur eða þremur árum. Síðan vaknaði fyrrv. hæstv. dómsmrh. upp við vondan draum og sá að þetta hafði fallið niður. Ég held að öllum hafi verið ljóst að sáttanefndir voru gjörsamlega gagnslaust fyrirbæri og þess vegna var í fljótheitum reynt að finna einhvern annan aðila sem gat tekið þetta yfir. Þessi snilldarlausn var fundin og skal hún nú fram mér að meinalausu, en svona löggjöf á náttúrlega ekki að eiga sér stað, að einn vandræðagangurinn sé lagaður með öðrum vandræðagangi og síðan sagt: En svo á eftir að setja lög um allan bálkinn, endurskoða allan lagabálkinn.
    Svona löggjöf þjónar engum tilgangi og hún er lítilsvirðing við svo alvarleg mál sem örlög íslenskra fjölskyldna. Ég vænti þess að menn leggi af lagasetningu sem þessa.