Tollalög
Föstudaginn 15. desember 1989


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Nauðsyn brýtur lög, er sagt, og nauðsyn setur líka lög.
    Nú eru verndartollar ekki æskilegir og er það neyðarúrræði þegar þarf að grípa til aðgerða af því tagi. Það er eins konar nauðvörn því að vinnustofa blindra á undir högg að sækja í dag. Það er verulegur halli á rekstri hennar og í rauninni ekki nema þrír möguleikar í stöðunni. Í fyrsta lagi að leggja Vinnustofu blindra niður. Þá missa þeir blindu Íslendingar sem þar hafa starfað atvinnu sína og í rauninni miklu meira því að þessi vinnustaður þeirra hefur verið þeim miklu meira virði en eintóm vinna. Þetta hefur verið meira og minna það sem þeirra líf hefur snúist um. Kostur númer tvö er að fá framlög til þessarar vinnustofu úr sameiginlegum sjóðum og kostur númer þrjú er þessi tollabreyting sem gert er ráð fyrir í samningum okkar við aðrar þjóðir.
    Í skýrslu utanrrh. til Alþingis um könnunarviðræður EFTA-ríkjanna sem dreift hefur verið til þingheims er á bls. 87 greint frá bókun nr. 4 um innflutningshöft sem Ísland getur haldið. En þar segir í 1. mgr., með leyfi forseta:
    ,,Með fráviki frá 13. gr. getur Ísland haldið innflutningshöftum að því er varðar vörur sem hér eru taldar``, og í B-lið númeralið 9602: ,,Burstagerðarvörur, að undanteknum burstum sem eru hlutar í vélum, málningarrúllum, gúmmíþurrkum á skafti eða þurrkum úr öðru sams konar mjúku
efni, listmálunarpenslum, tannburstum`` o.fl. Það er því gert ráð fyrir þessum verndartollum í samningum okkar við aðrar þjóðir og þörfin, að mínu mati, fyrir þessa meðferð á vanda blindra er brýn. Eins og ég hef áður sagt þá völdu flm. þennan kost til að halda starfsemi hennar við.
    Flm. ásamt mér eru hv. þm. Friðrik Sophusson, Guðmundur G. Þórarinsson, Málmfríður Sigurðardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir.
    Við leyfum okkur að mæla með að frv. verði afgreitt til 2. umr. og fjh.- og viðskn.